Fréttasafn



11. mar. 2015 Orka og umhverfi

Loftslagsmál: Atvinnulífið er hluti af lausninni

 

Á fundi Landsvirkjunar um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum í síðustu viku fjallaði Bryndís Skúladóttir um tækifæri og framtíðarsýn íslenskra fyrirtækja í loftslagsmálum.

 

Bryndís segir atvinnulífið stóran hluti vandans í loftlagsmálum því þar sé stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda. En atvinnulífið sé líka hreyfiafl því þar sem eru breytingar þar eru tækifæri. „Mörg fyrirtæki líta svo á að þau þurfi að horfa út fyrir áhrifin sem þau hafa í daglegum störfum. Fyrirtækin ganga lengra í að vinna með samfélagslega ábyrgð og á hverjum degi taka þau ákvarðanir sem hafa áhrif á hvernig önnur fyrirtæki starfa. Þannig kvíslast áhrifin eftir aðfangakeðjunni“ segir Bryndís.

 

Breytt verklag og bætt tækni skilar árangri

 

Stóriðja er sá geiri sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum en hefur þó náð gríðarlega góðum árangri í að minnka losun frá sinni starfsemi. Losun á hvert tonn af áli hefur minnkað um rúm 70% frá árinu 1990 sem er viðmiðunarár Kyoto samkomulagsins, og er það einna besta árangri sem þekkist í heiminum. Heildarlosunin hefur samt aukist með aukinni framleiðslu. Einnig hefur náðst árangur í að minnka orkunotkun á hvert unnið tonn af áli.

 

Þann árangur má rekja til nýrrar tækni og breytts tækjabúnaðar en einnig er lögð mikil áhersla á að breyta verklagi, bæta vöktun og stytta viðbragðstíma. Þetta eru fleiri og fleiri fyrirtæki að uppgötva og bæta verkferla. Enn er unnið að því að minnka losun frá iðnfyrirtækjum en fyrir t.d. áliðnað er losunin hluti af efnaferlinu og mun ekki hverfa nema til komi algerlega ný tækni.

 

Græn orka í samgöngum að aukast

 

Aðrir þættir sem eru fyrirferðamiklir í losun frá Íslandi eru brennsla á eldsneyti í samgöngum og sjávarútvegi. Í skipaflotanum hefur orkunotkun minnkað umtalsvert með bættri tækni, breyttri hönnun og orkustýringarkerfum. Skipaflotinn er enn keyrður á hefðbundnu jarðefnaeldsneyti en það er mikill áhugi hjá útgerðum að taka þátt í rannsóknarverkefnum um orkusparnað og notkun nýrra orkugjafa.

 

Græna orkan er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuskipti og er mjög gott dæmi um að ná má árangri á skömmum tíma með samstarfi og skýrri sýn. „Árið 2011 var sett fram aðgerðaáætlun og gengið í að setja fram hvata og kvaðir sem ýta á aukna notkun endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Nú fjórum árum síðar sjáum við að notkun endurnýjanlegs eldsneytis hefur tekið stökk og sala á vistvænum bílum hefur aukist. Áfram þarf að styðja við þróunina og ég hef fulla trú á að þegar þessi lest er farin af stað þá verði hún ekki stöðvuð. Markaðurinn hefur myndast og þá sér einkageirinn um rest.“ Segir Bryndís

 

Að minnka kolefnisspor

 

Fyrirtæki horfa meir og meir til heildaráhrifa starfsemi sinnar og almenningur kallar eftir upplýsingum. Áhugi hefur aukist á vistvænum byggingum og umhverfismerkingum. Framleiðendur reikna út kolefnisspor sinnar vöru til að sýna fram á að losun við framleiðslu sé í lágmarki. Þar skapast viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki sem leggja í kostnað til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Hér má taka dæmi um álframleiðslu eða gagnaver sem leggja áherslu á að minnka kolefnisspor og velja þess vegna að vera á Íslandi og nýta endurnýjanlega orku.

 

Tækifærin eru víða. Innan CleanTech Iceland sem er starfsgreinahópur innan SI eru nokkur fyrirtæki sem hafa þróað tækni sem er markaðssett víða um heim. Fyrirtæki eins og Marorka, Remake Electric, Carbon Recycling International, GreenQloud og Eco-Nord. Þau skapa lausnir sem hjálpa öðrum fyrirtækjum að gera betur. Sem dæmi má nefna að Carbon Recycling International framleiðir eldsneyti úr CO 2 útblæstri frá jarðvarmavirkjunum. Árlega bindur framleiðsla þeirra í Svartsengi um 5000 tonn af CO2 sem samsvarar bindingu 120.000 trjáa í 10 ár.

Það er hægt að ná góðum árangri ef allt leggst á eitt, regluumhverfi sem styður breytingar, tækni sem hægt er að beita, ný viðskiptatækifæri og fyrirtæki sem grípa þau og síðast en ekki síst, jákvætt viðhorf í samfélaginu. Atvinnulífið er hreyfiafl með gríðarlegan þekkingu, orku og kraft, sem skilar miklum árangri sé því beint í rétta átt.