Fréttasafn



17. feb. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Loftslagsmál rædd af sífellt meiri þunga í atvinnulífinu

Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ræðir við Árna Sigurjónsson, formann SI, um Ár grænnar iðnbyltingar sem Samtök iðnaðarins ýttu úr vör fyrir skömmu. „Umhverfis- og loftslagsmál og græn verkefni eru áskorun fyrir samfélagið allt sem um leið fela í sér mikil tækifæri. Nú teljum við mikilvægt að umræðan verði svo að segja tekin niður á jörðina og formgerð, svo úr megi skapa lausnir.“ 

Árni segir meðal annars í viðtalinu að umhverfismál séu rædd af sífellt meiri þunga í atvinnulífinu. „Til þess að nálgast þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir, á ábyrgan og lausnamiðaðan hátt þá höfðum við á síðasta ári meðal annars forgöngu um að útbúinn yrði á vettvangi Grænvangs Loftslagsvegvísir atvinnulífsins, sem mæltist vel fyrir. Þar er meðal annars að finna ýmis hagnýt ráð og leiðir sem geta hjálpað til við að ná árangri svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika. Í grænum verkefnum þarf annars að skapa rétta umgjörð svo lausnirnar verði til. Til þess þarf bæði viðeigandi regluverk og fjármagn. Í Þýskalandi var nýlega kynntur fjárfestingapakki stjórnvalda upp á rúmlega 40 milljarða evra í þeim tilgangi að umbreyta innlendum orkuiðnaði og samgöngum til að ná loftslagsmarkmiðum. Sambærileg stefna er rekin í mörgum öðrum löndum í NorðurEvrópu, eins og Íslendingar þurfa að hafa til hliðsjónar.“ 

Ný vinnubrögð draga úr kolefnisnotkun í áliðnaði

Þá kemur fram í viðtalinu að til dæmis í álverunum hafi kolefnisnotkun fyrir hvert framleitt tonn af áli dregist saman um 75% frá árinu 1990. Slíkt hafi gerst með nýjum vinnubrögðum sem þróuð hafi verið á grundvelli rannsókna. Stóriðjan hafi sett sér markmið um kolefnishlutleysi og hafa nokkur fyrirtæki farið í samstarf við íslenska fyrirtækið Carbfix um að binda koltvísýring í berg. Einnig sé bent á að starfsemi stoðtækjaframleiðandans Össurar hafi verið kolefnishlutlaus í fyrra. Algalíf, sem framleiðir fæðubótarefni úr smáþörungum sem fyrirtækið ræktar, hafi fengið vottun fyrir kolefnishlutleysi á sínum vörum. Þá séu á Íslandi ýmis fyrirtæki sem vinni að úrvinnslu á sorpi og séu leiðandi á sínu sviði í þessum málum. 

Árangur Íslands í loftslagsmálum vekur athygli

Árni segir að árangur Íslands í loftslagsmálum spyrjist út og veki athygli. „Áðurnefndur Grænvangur, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, og Samtök iðnaðarins eiga aðild að, hefur miðlað sögum um þetta út um heim allan. Vel hefur gengið að vekja athygli erlendis á því sem við höfum fram að færa, til dæmis í erlendum fjölmiðlum. Þá hefur sýningin Græn framtíð, sem hýst er í Grósku í Vatsnmýrinni í Reykjavík og fjallar um framlag okkar til loftslagsmála, markmið og lausnir, vakið athygli en Friðrik krónprins Danmerkur var fyrsti gesturinn til að skoða sýninguna í lok síðasta árs.“ 

Þarf úrbætur í öflun grænnar raforku og flutningskerfi

Þá segir Árni að óhætt sé að segja að við getum sannarlega aukið verðmætasköpun á þessum grunni. „Eflt frekar hugverkaiðnað, sem er orðinn fjórða stoð hagkerfisins og gæti orðið helsta útflutningsgrein Íslendinga. Okkur Íslendingum þykir held ég öllum afar vænt um náttúruna og landið okkar. Umræðan um umhverfis- og loftslagsmál tekur stundum óvænta stefnu því hún vill vera tilfinningahlaðin. En hér er samt mikilvægt að halda staðreyndum til haga, svo sem að í orkufrekum iðnaði eru fyrirtækin að vinna alveg frábært starf í umhverfismálum með kolefnisjöfnun og minni útblæstri. Sjávarútvegur, sem oft á samleið með iðnaði, hefur gert ótrúlega hluti með tilliti til grænna sjónarmiða. Nú bregður hins vegar svo við að hita þarf katla fiskimjölsverkmiðjanna með olíu af því framboð á raforku dugar ekki. Slíkt kallar á úrbætur í öflun grænnar raforku og flutningskerfi hennar, því við núverandi aðstæður verður orkuskiptum ekki komið við í sumum landshlutum. Það er óþolandi og óviðunandi staða. Skapa verður grænum lausnum sem best skilyrði.“ 

Morgunblaðið, 17. febrúar 2022.

mbl.is, 20. febrúar 2022.

Morgunbladid-17-02-2022_3