Fréttasafn



8. júl. 2021 Almennar fréttir Menntun Starfsumhverfi

Löggilding iðngreina skoðuð með heildstæðum hætti

Rætt er við Björgu Ástu Þórðardóttur, yfirlögfræðing SI, í Morgunblaðinu um starfshóp um endurskoðun löggiltra iðngreina þar sem átta manns sitja í frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, SI, ASÍ, Samkeppniseftirlitinu og Neytendasamtökunum. Björg Ásta segir Samtök iðnaðarins leggja mikla áherslu á að málið sé skoðað með heildstæðum hætti og samtali við fulltrúa þeirra greina sem hlotið hafa löggildingu hafi verið ábótavant við endurskoðunarferlið. „Við teljum afar mikilvægt að fulltrúar iðngreinanna og neytenda taki þátt í þessari vinnu og því erum við ánægð með veru okkar í þessum starfshópi. Við teljum mjög mikilvægt að vinna að því að bæta starfsumhverfi þeirra aðila sem vinna í þessum iðngreinum á sama tíma og við treystum stoðir iðnmenntunar og aukum skilvirkni í eftirlitskerfinu.“ 

Ekki markmið að fækka löggiltum iðngreinum

Björg Ásta segir í frétt Morgunblaðsins það ekki vera markmið í sjálfu sér að fækka löggiltum iðngreinum. „Við teljum það bara sjálfsagt að meta forsendur löggildingar fyrir hverja grein og skoða hver sé ástæðan fyrir því að þær eru löggiltar í dag. Þegar það mat hefur farið fram er hægt að átta sig á því til hvaða aðgerða þarf að grípa. Við höfum lagst í þetta mat á þeim greinum sem Samtök iðnaðarins vinna fyrir og teljum við að það sé full ástæða til löggildingar þeirra.“ 

Mikil áhrif ef löggilding greinar er afnumin

Þá kemur fram í fréttinni að verði löggilding greinar afnumin hafi það mikil áhrif. „Við erum með tugþúsundir einstaklinga sem hafa menntað sig í þessum greinum og fengið útgefin starfsréttindi byggð á því kerfi sem við erum með í dag. Kerfi sem er öðru fremur ætlað að tryggja öryggi neytenda. Sé lögverndun afnumin breytir það auðvitað alveg forsendum þeirra. Það er þá ekki lengur þessi sami hvati að fara í námið eins og nú er enda engar hömlur á því hverjir geta veitt þá þjónustu sem nú er löggilt, nema það séu einhverjar aðrar reglur sem takmarka það en í mörgum tilvikum er það ekki svo.“ 

Morgunblaðið, 8. júlí 2021.