Fréttasafn14. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Lykilatriði hvar hugverkin eru staðsett

Hugverkaiðnaðurinn hér á landi veltir 305 milljörðum króna á ári, þar starfa 11.600 manns og gjaldeyristekjur eru 70 milljarðar króna. Þessi iðnaður vegur því þungt í hagkerfinu. Á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins eru bæði sprotafyrirtæki og rótgróin fyrirtæki sem starfa á sviði upplýsingatækni, leikjaframleiðslu, gagnaversiðnaðar, kvikmyndaframleiðslu og líf- og heilbrigðistækni. Í Hugverkaráði SI sitja fulltrúar allra þessara atvinnugreina. Í ráðinu eru 6 fulltrúar ásamt varafulltrúum og er formaður ráðsins TRYGGVI HJALTASON, verkefnastjóri hjá CCP. SIGRÍÐUR MOGENSEN, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, settist niður með Tryggva og ræddu þau um nýsköpunarumhverfið hér á landi.

Sigríður: Hugverkaráð SI hefur lagt mikla áherslu á eflingu nýsköpunarumhverfisins hér á landi á undanförnum árum, hverjar eru megináherslurnar í því? 

Tryggvi: Hugverkaráð SI hefur sett nokkur stór mál á oddinn á undanförnum árum, meðal annars lagt áherslu á skattahvata til að auka fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun (R&Þ), umgjörð og hvata fyrir erlenda sérfræðinga og skattaívilnanir til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Þessi áherslumál og fleiri birtust í nýsköpunarstefnu Samtaka iðnaðarins sem var gefin út árið 2019. Mikill árangur hefur nú náðst á öllum þessu sviðum, nú síðast með breytingum á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þar sem endurgreiðsluhlutfall R&Þ var hækkað úr 20% í 35% og endurgreiðsluþakið sömuleiðis. 

Stjórnvöld og stjórnmálamenn heilt yfir eru í vaxandi mæli að gera sér grein fyrir mikilvægi nýsköpunar fyrir framtíð landsins og endurspeglast það til dæmis í því að orðið nýsköpun kemur 19 sinnum fyrir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og það er nýlunda að forsætisráðherra og fjármálaráðherra noti eins mikinn tíma og raun ber vitni í að ræða mikilvægi nýsköpunar. Fjármálaráðherra hefur talað um Ísland 2.0 og forsætisráðherra um mikilvægi vaxandi fjárfestinga ríkissjóðs í nýsköpunarumhverfinu. Þegar stýrivaxtalækkun Seðlabankans var tilkynnt nýlega nýtti seðlabankastjóri jafnframt drjúgan tíma til að benda á það að nýsköpun væri eitt mikilvægasta verkfærið að grípa til við að koma hagkerfinu á skrið aftur. Síðastliðið haust kynnti iðnaðar- og nýsköpunarráðherra nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og hefur fylgt henni úr hlaði með fjölda aðgerða, m.a. nýju hvatasjóðskerfi, Kríu, sem mun vonandi stórefla vísífjárfestingar í nýsköpun á Íslandi. Kría ásamt þeim aðgerðum sem ég nefndi áðan eru mikilvæg skref sem eru að gjörbylta samkeppnisumhverfinu á Íslandi og munu aflæsa hugvit Íslendinga inn í beinharðar gjaldeyristekjur. 

Sigríður: Efnahagsaðstæður á Íslandi hafa breyst nokkuð hratt síðustu misseri og má segja að hagkerfið standi á vissum tímamótum. Nýsköpun mun spila lykilhlutverk í að auka verðmætasköpun til framtíðar og getur öflugur hugverkaiðnaður skipt sköpum. Hvernig blasir staðan við þér og hvað meira þarf að gera til að við sjáum hugverkaiðnaðinn stækka? 

Tryggvi: Við þurfum að horfa á þetta út frá sveiflujöfnun í hagkerfinu en núna erum við einmitt að horfa upp á mikinn samdrátt í efnahagslífinu. Það er jákvætt að hugsa til þess að greinar sem byggja á hugviti og nýsköpun og skapandi greinar blómstra oft á svona tímum. Í tölvuleikjaiðnaði sjáum við til að mynda vöxt þegar það er almenn niðursveifla. Það skiptir máli að sækja fram á svona óvissutímum í hagkerfinu. Það er lykilatriði hvar hugverkin eru staðsett og það á að vera algjör forgangur að þau séu staðsett á Íslandi. Gott dæmi um þetta er að hugverkið EVE Online var staðsett í Reykjavík en sá leikur hefur skilað 100 milljörðum í hreinum gjaldeyristekjum inn í íslenskt þjóðarbú á 17 árum og skapað mörg hundruð vel launuð hátæknistörf. Sömu sögu má segja af Össuri, Marel og fleiri fyrirtækjum. Við megum hins vegar aldrei gleyma því að hugverkafyrirtæki starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og það þarf að vera fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að staðsetja verkefni á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Með öflugri hvötum eins og nú hefur verið komið á aukast líkurnar mikið á því að hugverkaiðnaðurinn stækki á næstu árum. Því miður hafa í gegnum tíðina verið mörg dæmi um það að íslensk fyrirtæki staðsetji ný þróunarverkefni, og hugverkin sem þeim fylgja, erlendis vegna þess að Ísland var ekki samkeppnishæft á ákveðnum sviðum. Það er alltaf góð fjárfesting að auka samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði enn frekar og sú vegferð er sannarlega hafin. Næsta skref er að mínu mati að efla umgjörð og hvata fyrir sérfræðinga til að koma hingað til lands og starfa en skortur á sérfræðiþekkingu getur hindrað vöxt íslenskra hugverkafyrirtækja. Sérfræðingar eru þekkingarmargfaldarar og geta bókstaflega virkað eins og lítil hreyfanleg menntakerfi á verðmætum sérsviðum. Hugsaðu þér bara verðmætin í því til dæmis að fá einn af bestu krabbameinslæknum í heimi til Íslands í 5 ár að starfa með íslenskum læknum. Þekkingin sem hann skilur eftir sig og miðlar mun gera læknana okkar betri og hafa margföldunaráhrif áfram til kynslóðanna sem koma á eftir. Það sama gildir um sérfræðinga í tækni, vísindum eða á öðrum sérhæfðum sviðum. 

Sigríður: Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að fjölga stoðunum í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Það hefur þó ekki gengið nægilega vel eftir. Er ekki ákveðin hætta á því að Ísland dragist aftur úr í harðri alþjóðlegri samkeppni um störf og verðmætasköpun á tímum hraðra tæknibreytinga? 

Tryggvi: Það er erfitt að dást ekki að þessum hröðu tæknibreytingum en líka auðvelt að verða smá hræddur. Þetta eru kraftar sem eru að keyra áfram miklar stjórnmálabreytingar á Vesturlöndum því fólk er að átta sig á því að þau hagkerfi og svæði sem ekki ná að tryggja sér verkefni og fyrirtæki sem byggja á hugviti, rannsóknum og þróun og alþjóðlega skalanlegum viðskiptamódelum verða eftirbátar í samkeppninni. Það er alveg raunveruleg áhætta að kostnaðurinn við velferðarkerfið vaxi hratt hlutfallslega á næstu áratugum á sama tíma og alþjóðlegir markaðir geta orðið harðari t.d. með verndartollum eða auðlindaskorti, sviðsmyndir sem hefur glitt hressilega í undanfarna mánuði. Sveiflur á auðlindamörkuðum geta búið til erfiðar langvarandi kreppur. Við vitum t.d. ekkert hvort álverð taki við sér eða hvort loðnan sé að hverfa úr íslenskri lögsögu og á sama tíma er ferðamannaiðnaðurinn nokkuð stórt spurningarmerki. Ísland má ekki einangrast sem einhæft auðlindahagkerfi og því þurfum við að halda rétt á spöðunum. Nýlegar aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafa tryggt að við erum enn þátttakendur í þessari samkeppni og við þurfum að halda áfram á þessari braut til að við skipum okkur áfram í fremstu röð þjóða í nýrri heimsmynd sem blasir við. 

Sigríður: Nú hefur þú verið formaður Hugverkaráðs SI í tvö ár og virkur þátttakandi í umræðu um nýsköpun og hugverkaiðnað í lengri tíma. Hvernig finnst þér umræðan um þessi mál hafa þróast á undanförnum árum? 

Tryggvi: Það hefur orðið mikil breyting á hugverka- og hátæknisenunni á Íslandi undanfarin ár sem er fyrst og fremst sú að fyrirtækin tala orðið miklu meira saman og samfélagið hefur styrkst mikið. Við, starfsmenn hugverkafyrirtækja, erum mörg vinir og í vaxandi mæli samstíga og ræðum meira stöðuna og úrlausnarefni okkar á milli. Á sama tíma hefur samtalið við stjórnvöld stórbatnað. Fyrir það eiga margir hrós skilið en að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega nefna Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð og stjórnmálamennina sjálfa því eins og dæmin að framan sýna þá eru þeir að setja sig betur inn í þetta. Hugverka- og hátækniiðnaðurinn var iðulega afgangsstærð í forgangsröðun stjórnmálamanna en er í vaxandi mæli að verða lykilatriði. Það er skiljanlegt, nær öll verðmætustu fyrirtæki í heimi eru hugverka- og hátæknifyrirtæki og hugverkaiðnaður hreyfir orðið meira fjármagn, störf og verðmætasköpun en flestar aðrar atvinnugreinar í heiminum. En það er líka gaman að sjá hvernig nýsköpun er að gjörbreyta rótgrónum iðngreinum. Íslenskur sjávarútvegur á til dæmis mikið lof skilið fyrir hvernig hann hefur fjárfest í nýrri tækni sem hefur tryggt mikla arðsemi. Þetta, ásamt öðru, hefur tryggt að hann er ekki bara samkeppnishæfur á heimsvísu heldur leiðandi á mörgum sviðum. Íslenski fjármálageirinn virðist núna að ýmsu leyti vera að taka við sér á sama hátt. Þetta eru kraftar sem breyta hlutum og við þurfum að beisla þá saman sem samfélag.

LJÓSMYND Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_