Fréttasafn15. jún. 2017 Almennar fréttir

Lýsing á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 á vef Staðlaráðs Íslands

Á vef Staðlaráðs Íslands er lýsing á jafnlaunastaðlinum ÍST 85 en lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 var breytt 1. júní síðastliðinn. Í lagabreytingunni felst að fyrirtæki sem að jafnaði hafa 25 starfsmenn eða fleiri fái vottun sem staðfestir að jafnlaunakerfi þeirra uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85 Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar. Umrædd breyting á lögum er sérstök að því leyti, að staðlar eru almennt ætlaðir til frjálsra afnota en ekki skyldubundnir.

Á vefnum segir að við innleiðingu á jafnlaunastaðli þurfi fyrirtæki að flokka störf allra starfsmanna og velja þau viðmið sem eru mest einkennandi fyrir þær kröfur sem störfin gera til starfsmanna. Starfaflokkun innan fyrirtækis geti leitt til mikils ávinnings fyrir fyrirtækið. Rýni á störfum allra starfsmanna geti leitt í ljós tækifæri til skilvirkari verkaskiptingar, lækkunar á kostnaði og eftir atvikum aukningar á tekjum. Kostnaðurinn sem kann í fyrstu að virðast fylgja verkefni sem þessu geti reynst lítill í samanburði við skilvirkari stjórnun, ánægðari starfsmenn og endanleg afkomuáhrif.

Staðallinn er ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum. Markmið hans er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Jafnframt gefst þeim sem uppfylla skilyrði staðalsins möguleiki á að fá vottun þar um.

Nánar á vef Staðlaráðs Íslands.