Fréttasafn23. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Málsmeðferðarhraði getur haft áhrif á uppbyggingu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í Fréttablaðinu í dag að málsmeðferðarhraði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála geti hæglega haft áhrif á byggingarhraða íbúðarhúsnæðis með tilheyrandi kostnaði. „Við þurfum að hafa það í huga að þessi nefnd er til dæmis að úrskurða í mjög stórum málum er varða mat á umhverfisáhrifum og svo á sama tíma er kannski einhver sem vill setja svalir eða kvist á húsið hjá sér og hann getur þurft að bíða í tvö ár eftir niðurstöðu í sitt mál.“ Hann segir jafnframt að þetta væri ef til vill ekki vandamál ef málsmeðferðin hjá sveitarstjórnum væri í lagi. „En málin þar eru að dragast fram úr hófi og í öðru lagi eru þar oft sett ýmis skilyrði eða skorður sem binda hendur framkvæmdaaðila.“ 

Í fréttinni kemur fram að um áramót höfðu 22% þeirra mála sem biðu afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beðið í meira en 18 mánuði, samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins, en nefndin fjallar um skipulags- og byggingarmál og þangað geta einstaklingar eða fyrirtæki leitað ef þeim finnst afgreiðsla hjá sveitarstjórnum, sem fara með skipulagsvald, ekki vera fullnægjandi. Samkvæmt lögum skal nefndin að jafnaði kveða upp úrskurði sína innan þriggja mánaða frá því að málsgögn berast en innan sex mánaða í viðamiklum málum. Málsmeðferðartíminn hefur þó farið yfir tvö ár og er að meðaltali eitt ár, samkvæmt úttektinni.

Sigurður nefnir í fréttinni dæmi af Bjargi íbúðafélagi sem hafi fengið úthlutað lóð í Hafnarfirði en að deiliskilmálar sem sveitarfélagið setti hafi verið svo strangir og sveitarfélagið sett það miklar kvaðir á útlit hússins, efnisval og annað að Bjarg treysti sér ekki til þess að byggja hagkvæmt húsnæði með því að uppfylla þessi skilyrði og hafi skilað að endingu lóðinni. 

Hér fyrir neðan er hægt að lesa fréttina í heild sinni. 

Frettabladid-23-05-2018

Fréttablaðið / Vísir / Frettabladid.is  23. maí 2018.