Fréttasafn



23. feb. 2015 Menntun

Málstofa SI - fjallað um fjölgun nemenda í iðnnám

Á Menntastofu Samtaka iðnaðarins sem haldin var á Menntadegi atvinnulífsins var fjallað um hvernig við getum kveikt áhuga fleiri nemenda á iðnnámi og hvort leiðin sé að leita á ný mið og leitað eftir að jafna kynjahlutfall.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI fjallaði um knýjandi þörf atvinnulífsins fyrir fleira fagmenntuð fólk. Hún lýsti nýjum áherslum samtakanna í starfsmenntamálum sem meðal annars fela í sér að tryggja aðkomu atvinnulífsins formlegum hætti, að sveinsprófsstúdent eigi greiða leið í háskólanám innan iðn- og tæknigreina án þess að viðkomandi þurfi að taka frumgreinadeild og að framhaldsskólinn beri ábyrgð á sínum nemanda í gegnum allt ferlið þannig að nemandi standi aldrei einn og þurfi ekki að ganga á milli fyrirtækja til að leita sér að námssamningi. Þá er það markmið SI að fjölga nemendum sem velja starfsnám úr 12% í 25% á næstu tíu árum. Guðrún segir þetta metnaðarfullt markmið en trúir því að að með samstilltu átaki nemenda, skóla og atvinnulífs sé þetta hægt.

Aðalfyrirlesari var Paula Lejonkula , hjá Sænska byggingaiðnaðnum (BI) þar sem hún stýrir breytingaverkefni um fjölgun kvenna innan byggingaiðnaðarins í Svíþjóð. Forsendur þess að farið var af stað í þetta stóra verkefni er að í könnun sem gerð var sögðu 94,4% já við spurningunni um hvort iðnaðurinn ætti að auka jafnrétti og 77,5% töldu að grípa ætti til virkra aðgerða til að fjölga konum í byggingaiðnaðnum sem aðeins eru 8,5% af starfsmönnum í dag. Paula sagði fyrstu skrefin vera þau að samtökin settu sér skýra stefnu til að ná árangri. Hún segir augljós viðskiptaleg rök fyrir því að gera iðnaðinn meira aðlaðandi fyrir konur og þannig auka fjölda kvenna innan hans. Þá fjallaði hún um nokkur áhugaverð skref sem fyrirtæki hafa tekið í þessa átt og lagði áherslu á mikilvægi þess að kynna vel og halda á lofti því sem vel er gert í þessum efnum.

Birna Bragadóttir starfsþróunarstjóri hjá Orkuveitunni fjallaðium þær áskornir sem Orkuveitan stendur frammi fyrir í vinnu sinni við að fjölga konum innan fyrirtækisins með sérstaka áherslu á iðnaðarmannastörf. Í dag eru um 97% iðnaðarmanna karlar. Orkuveitan hefur sett sér skýra jafnréttisstefnu og ein helstu rökin fyrir því er að kannanir sýna að starfsmönnum líður betur blönduðum vinnustöðum þar sem ekki er litið á einstaklinga sem fulltrúa annars kynsins. Hún segir að þótt stefnan sé skýr þurfi að kljást við fastgróin viðhorf og menningu innan fyrirtækisins. Helsta hindrunin er þó kynbundið námsval sem leiðir til þess að fáar stúlkur velja að mennta sig í þessum iðngreinum. Staðalímyndir eru sterkar og styðja ekki við breytingar í þessa átt. Birna sagði frááhugaverðum verkefnum sem OR er að vinna að, t.d.að bjóða jafn mörgum stúlkum og strákum vinnustaðanámssamning hjá fyrirtækinu, bjóða upp á valgrein hjá 10. bekk í Árbæjaskóla og ráða jafn mörg ungmenni af báðum kynjum í sumarvinnu. Að lokum benti Birna á hlutfall kvenna innan stjórna og starfsgreinaráða hjá SI og augljóst að þar er mikið verk að vinna.

Í lokin sögðu fulltrúar þriggja fyrirtækja frá viðhorfum sínum til fjölgunar nemenda í iðn- verk- og tæknimenntun, kynjahalla innan iðngreina og hvar fyrirtækin eru stödd með tilliti til þessa.

Pétur Veigar Pétursson fræðslustjóri hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík sagði frá stefnu fyrirtækisins að auka hlutfall kvenna innan álversins og þeim góða árangri hefur náðst innan allra starfa nema iðnaðarstarfa. Það skiptir miklu máli að hans mati að fyrirtækin séu dugleg að draga fram myndir innan fyrirtækjanna sem sýna konur jafnt sem karla og bjóða upp á aðlaðandi starfsumhverfi og starfsþróun fyrir bæði kyn. Samtök fyrirtækja hafi frumkvæði að kynningum í grunnskólum og starfi náið með stjórnvöldum í að breyta kynbundnu vali.

Jón A. Sveinsson eða Nonni hársnyrtimeistari og eigandi Kristu/Quest kom með sögulega skýringu á þróun innan hársnyrtigreinarinnar. Þar sem tíska og lífsstíll hefur mótað mjög hvort starfið hefur verið aðlaðandi fyrir karlmenn.

Magni Helgason mannauðsstjóri hjá ÍAV sagði frá nýlegu átaki fyrirtækisins í því að ráða iðnnema en engin stúlka er meðal þeirra í augnablikinu. Hann telur þó fyrirtækið vera vel í stakk búið til að verða aðlaðandi vinnustaður fyrir konur og það ætti að stefna á það. Þá fór hann yfir ýmsar hindranir sem eru í veginum svo sem viðhorf karla bæði í námi og á vinnustaðnum. Magni taldi mikilvægt að vinna bug að þessum hindrunum og fá fleiri konur inn í greinarnar. Taldi hann jafnframt upp þá þætti sem þarf að laga í skólakerfinu almennt til að gera iðnnám jafnvígt bóknáminu og er þar helst að nefna að efla tengingu starfsnáms og framhaldsnáms á háskólastigi.

Menntastofustjóri var Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri SI.

Menntadagur atvinnulífsins

Að Menntastofu lokinni tók við sameiginleg dagskrá Menntadagsins með tæplega 300 gestum.

Björgúlfur Jóhannsson formaður SA ávarpaði ráðstefnuna og talaði um ávinninginn af menntun. Þá tók aðalræðumaður menntadagsins við, Henning Gade forstöðumaður hjá Dönsku atvinnulífssamtökunum við og talaði um þær breytingar sem Danir eru að gera á starfsnámskerfi sínu. Hann skýrði frá aðkomu atvinnurekenda að þeirri vinnu og þeim árangri sem Danir ætla sér að ná með þeim. Áhersla er á aukin gæði námsins og fjölgun starfsnámsnema úr 18% í 30%. Þá komu fulltrúar þriggja fyrirtækja og sögðu áherslum sinna fyrirtækja í menntamálum og viðbrögðum þeirra við hvítabókarvinnu menntamálaráðuneytisins. Fyrstur var Sigurður Steinn Einarsson starfsmaður Síldarvinnslunnar, þá Magnea Þórey Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Icelandair hótela og síðast Þórður Theodórsson framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Marel.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra fjallaði um hvítbókina og brást við ýmsu sem kom fram í máli fyrri framsögumanna.

Í lok dagsins voru menntaverðlaun atvinnulífsins veitt. Menntasprotann hlaut Síldarvinnslan og Marel var valinn sem menntafyrirtæki ársins. Óskum við starfsmönnum þessara fyrirtækja til hamingju með árangurinn og áframhaldandi velgengi í sínum störfum.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS var ráðstefnustjóri Menntadagsins.

Upptökur frá Menntadeginum