Margfalt hærri fasteignaskattar hér en í Skandinavíu
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins að hækkun á fasteignasköttum í Reykjavíkurborg leiði til þess að fyrirtæki muni í auknum mæli flytja sig úr borginni og einnig verði ákveðin stöðnun í fyrirtækjarekstri. Þá segir hann í fréttinni að sum fyrirtæki íhugi að flytjast út fyrir landsteinana þar sem kjör eru betri. Álagðir fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki eru mjög háir í alþjóðlegum samanburði. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði voru um 0,9% af landsframleiðslu í fyrra, samanborið við 0,2% í Noregi og um 0,4% í Finnlandi og Svíþjóð. „Við erum því með margfalt hærri skatta heldur en þar,“ segir Ingólfur og bætir við að þessi munur á skattbyrði helgist af tvennu; hærri álagningarprósentu og hærri skattstofni.
Bæði hærri álagningarprósenta og hærri skattstofn hér en í Skandinavíu
Í fréttinni segir að annars vegar sé álagningarprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði almennt lægri í Skandinavíu en á Íslandi. Í Svíþjóð megi skatthlutfallið fara í hámark 0,5% og skattstofninn að hámarki 75% af markaðsvirði. Í Danmörku megi skatthlufallið fara í hámark 1% og skattstofninn að hámarki í 80% af markaðsvirði. Hér megi hlutfallið fara í 1,65% að hámarki og skattstofninn að hámarki 100% af markaðsvirði. Hins vegar sé skattstofninn sjálfur líka hærri hérlendis. „Hérna reiknast þetta 100% af markaðsvirði atvinnuhúsnæðis, á meðan, til dæmis í Danmörku, þá er það 80%, undir eða við 75% í Finnlandi, 75% í Svíþjóð og svo framvegis. Það er því bæði prósentuhlutfallið sjálft sem er hærra hér og líka grunnurinn, hlutfall af markaðsvirði húsnæðis. Þetta hvort tveggja skilar því að hér er miklu þyngri skattlagning en við sjáum í nálægum löndum, og miklu hærri hjá Reykjavíkurborg en við sjáum hjá öðrum sveitarfélögum,“ segir Ingólfur.
Borgin rígheldur í tekjurnar vegna hallareksturs
Þegar blaðamaður Morgunblaðsins, innir Ingólf eftir því af hverju þetta hefur þróast á þennan hátt í borginni segir hann að borgarstjórn segist þurfa á þessum tekjum að halda. Ingólfur nefnir að borgin sé rekin með halla og því ríghaldi menn í þessar tekjur.
Morgunblaðið, 2. nóvember 2022.