Fréttasafn



27. jún. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Markmið breytinga að stuðla að lækkun byggingarkostnaðar

Mannvirkjaráð Samtaka iðnaðarins stóð fyrir fundi um nýsamþykktar breytingar á lögum um mannvirki nr. 160/2010. Fundurinn sem var vel sóttur var haldinn í Húsi atvinnulífsins. Það var Ásta Sóley Sigurðardóttir, lögfræðingur hjá Mannvirkjastofnun, sem fór yfir breytingarnar og möguleg áhrif á fyrirtæki. Lögin birtust í Stjórnartíðindum 25. júní síðastliðinn og tóku gildi frá og með þeim degi. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, svaraði fyrirspurnum í umræðum sem boðið var upp á eftir framsögu . 

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins. 

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum.

Breytingarlögin má finna hér en þau hafa ekki enn verið sett saman við lög um mannvirki nr. 160/2010 á vef Alþingis en búist er við að það gerist á næstu vikum.

Helstu atriði breytingarlaganna

Helstu markmið laganna eru að lækka byggingarkostnað og stuðla að einföldun stjórnsýslu við veitingu byggingarleyfis, samþykkt byggingaráforma og við eftirlit með mannvirkjagerð, m.a. með auknu innra eftirliti byggingarstjóra og hönnuða. Þá er skerpt á ýmsum ákvæðum laganna, m.a. hvað varðar eftirlit Mannvirkjastofnunar með hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum á grundvelli gæðakerfi þeirra og rafrænnar skráningar í byggingargátt. Einnig er með breytingarlögunum kveðið á um frestun kröfu um faggildingu byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnunar til 1. janúar 2021.

Mögulegt að hefja framkvæmdir fyrr

Með breytingunni er heimilað að séruppdrættir vegna mannvirkjagerðar auk ábyrgðaryfirlýsinga stálvirkjameistara, blikksmíðameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara, séu lagðir fram í síðasta lagi áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst, í stað þess að öllum uppdráttum og ábyrgðaryfirlýsingum þurfi að skila fyrir útgáfu byggingarleyfis. Markmið þessara breytinga er að stuðla að lækkun byggingarkostnaðar enda verði þannig mögulegt að hefja framkvæmdir fyrr og að ráða iðnmeistara á síðari stigum verks, en hvoru tveggja er talið geta leitt til lægri kostnaðar við mannvirkjagerð.  

Einnig verður sú breyting að ekki lengur er þörf á að hafa blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara eða veggfóðrarameistara skráða á verk vegna byggingar íbúðar-, frístundahúss eða bílskúrs til eigin nota né ef um viðhald á framangreindu er að ræða.

Heimildir byggingarstjóra

Aukin áhersla er lögð á innra eftirlit byggingarstjóra, sem heldur t.d. nú utan um skráningu iðnmeistara í gæðakerfi sínu og skal auk þess skrá í gagnasafn Mannvirkjastofnunar ef iðnmeistari hættir umsjón verkþáttar, í stað þess að tilkynna byggingarfulltrúa um breytinguna. Ennfremur er skýrt í hvaða tilfellum byggingarstjóra er heimilt að tilnefna annan aðila til að vera viðstaddur áfangaúttektir, en það er aðeins heimilt ef sérstaklega stendur á, t.d. vegna veikinda, og verður sá aðili að vera með starfsleyfi sem byggingarstjóri og skýrt skriflegt umboð frá byggingarstjóra verksins sem um ræðir.

Þá verður sú breyting gerð á eftirliti með mannvirkjagerð að byggingarstjórum verður falið að gera áfangaúttektir í stað byggingarfulltrúa en byggingarfulltrúum verður eftir sem áður heimilt að gera áfangaúttektir, ýmist samkvæmt úrtaki eða í heild, ef þörf þykir á eða vegna vanrækslu byggingarstjóra. Ýmis ákvæða laganna breytast til að styðja við þessa breytingu, m.a. vegna skráningar áfangaúttekta í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar og og framkvæmd þeirra. Þessi breyting tekur þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2019. 

Ábyrgð hönnuða

Sett var nýtt ákvæði í lögin um ábyrgð og innra eftirlit hönnuða, skulu þeir fara yfir eigin verk og athuga hvort þau samræmist lögum og reglugerðum áður en hönnunargögn eru lögð inn til samþykktar hjá byggingarfulltrúa. Þeir skulu skrá niðurstöður innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi og skal gátlisti eða önnur staðfesting á yfirferð fylgja hönnunargögnum.

Með breytingunni eru gerðar aðeins vægari kröfur til skoðunarmanna hvað varðar starfsreynslu, skoðunarmaður II þarf nú eins árs starfsreynslu í stað þriggja og skoðunarmaður III þarf nú fimm ára starfsreynslu í stað sjö.

Eftirlit Mannvirkjastofnunar

Ennfremur er með breytingunni skerpt á ákvæðum um framkvæmd eftirlits Mannvirkjastofnunar með þeim aðilum sem stofnunin veitir starfsleyfi/löggildingar á byggingarsviði, þ.e. hönnuðum, byggingarstjórum og iðnmeisturum, með lagabreytingunni. Tekið er fram í athugasemdum frumvarps til breytingarlaganna að hlutverk Mannvirkjastofnunar sé óbreytt hvað varðar slíkt eftirlit, þ.e. að byggingarfulltrúar fari með eftirlit með mannvirkjagerðinni sjálfri og að stofnunin hafi ekki eftirlit með daglegum störfum fyrrgreindra fagaðila. Sú skylda hafi hvílt á byggingarfulltrúum að tilkynna Mannvirkjastofnun um þau tilfelli þegar þessir aðilar brjóta af sér eða sinna ekki skyldum sínum samkvæmt lögum um mannvirki en reynslan hafi sýnt að slíkar tilkynningar hafi örsjaldan borist. Því verður tilhögun eftirlitsins breytt á þann veg að Mannvirkjastofnun geti fylgst með því í rafrænu gagnasafni stofnunarinnar hvort byggingarstjórar, hönnuðir og iðnmeistarar brjóti af sér í skilningi laga um mannvirki með notkun rafrænnar gáttar, þar sem skráðar verði athugasemdir um verk. Á grundvelli slíkra athugasemda geti Mannvirkjastofnun krafist úrbóta á gæðakerfi og veitt áminningu eða beitt sviptingu starfsleyfis/löggildingar sé ekki brugðist við.  

Fundur-2-27-06-2018Ásta Sóley Sigurðardóttir, lögfræðingur hjá Mannvirkjastofnun.

Fundur-3-27-06-2018

Fundur-4-27-06-2018Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar.

FSkúli Lýðsson, sérfræðingur hjá Mannvirkjastofnun.

Fundur-5-27-06-2018Ágúst Jónsson, verkfræðingur og formaður Faggildingarráðs. 

Fundur-7-26-06-2018Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI.

Fundur-9-26-06-2018