Fréttasafn



13. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Með Kríu kemur súrefni fyrir frumkvöðla

„Nýsköpun er ekki lúxus, heldur nauðsyn. Kannski allra helst á þessum síðustu tímum. Nú skiptir öllu máli að ýta undir nýja stoð hugvits, auka gjaldeyristekjur og skapa verðmæt störf. Ég trúi því að þar geti nýsköpun spilað stórt hlutverk og að þær meiriháttar aðgerðir í þágu nýsköpunar sem samþykktar voru á þinginu í maímánuði muni skila sér margfalt inn í viðspyrnu íslensks efnahagslífs til framtíðar,“ segir ÞÓRDÍS KOLBRÚN REYKFJÖRÐ GYLFADÓTTIR, nýsköpunarráðherra, og vísar þar í breytingar sem samþykktar voru á þinginu 7. maí 2020 og fela í sér hækkun á hlutfalli skattfrádráttar vegna nýsköpunarverkefna og hækkun kostnaðarþaks.

Ríkið getur aldrei valið sigurvegara, en við erum einbeitt í því markmiði okkar að tryggja umhverfi þar sem sigurvegarar verða til.

 

Hið svokallaða þak vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar var hækkað í 1,1 milljarð króna og jafnframt var komið á þrepaskiptingu þar sem lítil og meðalstór félög geta átt rétt á skattfrádrætti allt að 35% útlagðs kostnaðar og stór fyrirtæki allt að 25%. 

Þórdís Kolbrún segir að aðgerðirnar miði að því að flýta fyrir nauðsynlegri baráttu við að halda í við þau ríki sem standa fremst í að skapa þjóðum sínum nauðsynleg tækifæri til nýrra og hagkvæmari lausna í allra þágu. „Eftir að við kynntum nýsköpunarstefnuna síðastliðið haust fylgdum við því eftir með aðgerðum þar sem sú stærsta var aðgerðin Kría – nýr íslenskur sjóður nýsköpunardrifins frumkvöðlastarfs. Kría verður sjóður sem fjárfestir í vísisjóðum og mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar,“ segir Þórdís Kolbrún og telur að með því að setja sjóðinn á fót sé stigið stórt skref í að styðja við uppbyggingu nýsköpunar. 

„Markmiðið er að aðkoma ríkisins verði eins og best er á kosið, þar sem ríkið er ekki að þvælast fyrir heldur hefur það eina hlutverk að styðja við iðnaðinn. Þar litum við til erlenda fyrirmynda, enda lítum við ekki svo á að við séum að finna upp hjólið. Við vitum sem er að nýjungar í fyrirkomulagi viðskipta, ekki síst fjármögnunar, hafa úrslitaáhrif um það hvaða möguleika hugvit og framtak hafa til að ryðja braut framfara, nýsköpunar og þar af leiðandi aukinnar hagsældar.“ 

Fyrir áframhaldandi vöxt frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi sé mikilvægt að festa í sessi og efla fjármögnunarumhverfi þeirra. „Ein mikilvægasta fjármögnunaðferðin fyrir þau félög eru fjárfestingar frá vísisjóðum. Kría á að svara þessu kalli, enda vitum við að á Íslandi, miðað við önnur lönd, er umhverfi þessara fjárfesta einsleitt, það er að segja, það eru fáir aðilar sem taka þátt. Síðustu ár hafa einungis lífeyrissjóðir, bankar og einstaklingar tekið þátt í fjármögnun sjóða af þessu tagi. Og þar sem það eru aðallega lífeyrissjóðir sem vísisjóðir sækja fjárfestinguna sína til vildum við liðka fyrir þeim fjárfestingum,“ segir Þórdís Kolbrún, en nýsamþykkt lög auka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestingu í vísisjóðum úr 20% í 35%. 

Við erum einfaldlega að freista þess að hjálpa til við að koma af stað jákvæðri keðjuverkun þar sem afrakstur vel heppnaðrar fjárfestingar nýtist til enn frekari uppbyggingar.

 

ThordisKolbrun_806A1620

Markmiðið að fjölga þeim sem fjárfesta 

Aðalmarkmið Kríu er að efla mikilvæga grunninnviði vistkerfis nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs að sögn ráðherrans. Þannig verði umhverfið til þess að fjölga þátttakendum í þeim fjárfestingum og stórauka fjármagn í umferð fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. „Við erum einfaldlega að freista þess að hjálpa til við að koma af stað jákvæðri keðjuverkun þar sem afrakstur vel heppnaðrar fjárfestingar nýtist til enn frekari uppbyggingar. Mér finnst lýsa þessu best að með Kríu komi súrefni fyrir frumkvöðladrifna nýsköpun á markaðinn þar sem annars er hætta á stöðnum.“ 

Vill tryggja umhverfi þar sem sigurvegarar verða til 

Uppbygging Kríu er sem áður segir, afgerandi skref. Þórdís Kolbrún segir að við upphaf umróts fjórðu iðnbyltingarinnar séu slík skref einfaldlega nauðsynleg. Ljóst sé að verðmætasköpun framtíðarinnar byggist á hugviti. „Efnahagslegt sjálfstæði okkar og fullveldi veltur þess vegna að verulegu leyti á því að við tökum afgerandi stöðu með hugvitinu. Þannig búum við íslenskt samfélag undir áskoranir framtíðarinnar. Markmið nýsköpunarstefnunnar sem ég kynnti síðastliðið haust er að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.“ 

Hún segir hugvit og færni einstaklingsins mikilvægustu uppsprettu nýsköpunar. Takmarkið sé að auka þekkingu, hugvit og gagnrýna hugsun en líka frumkvöðlamenningu og sköpunargleði í öllum atvinnugreinum um land allt. Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda sé að hlúa að og búa þessari þekkingu og sköpunarkrafti frjósamt umhverfi og farveg svo að atvinnulífið og samfélag þróist og eflist á sjálfbæran hátt. „Náttúruauðlindir Íslands eru þess eðlis að þær umbreytast ekki fyrirhafnarlaust í efnahagsleg verðmæti. Íslendingar hafa þurft að leggja mikið undir og taka mikla áhættu til þess að gera úr auðlindum sínum þau miklu verðmæti sem við njótum góðs af í dag. Af allri þeirri þekkingu hafa svo skapast ný tækifæri á sviðum sem eiga rætur sínar í hefðbundnari greinum. Þetta sambland auðlindanýtingar og hugvits getur verið mikil töfrablanda ef vel er hlúð að hvoru tveggja,“ útskýrir hún og imprar á því að stærsta auðlindin sé nefnilega sköpunarkraftur einstaklinganna. 

„Það er í honum, og hvergi annars staðar, sem við getum átt von á því að finna lausnirnar og svörin sem munu áfram gera það mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi lífsgæði í harðbýlu landi. Stærsta hlutverk nýsköpunarstefnu stjórnvalda og aðgerða í kjölfar hennar er því að finna leiðir til þess að leyfa þeim sköpunarkrafti að brjótast fram, finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Ríkið getur aldrei valið sigurvegara, en við erum einbeitt í því markmiði okkar að tryggja umhverfi þar sem sigurvegarar verða til,“ segir hún að lokum.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_