Fréttasafn



14. maí 2018 Almennar fréttir

Með réttu vali getur hið opinbera haft jákvæð áhrif á hagkerfið

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð - eflum samkeppnishæfnina, hjá Pétri Einarssyni í þætti hans Markaðstorgið á Hringbraut fyrir skömmu. Pétur hrósaði þar skýrslunni og sagði hana virkilega vel unna en þar kemur meðal annars fram að af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu sé ríkið með 45 krónur. Pétur spurði hvort þetta væri vísbending um að íslenska ríkið væri búið að blása um of út? „Hið opinbera er mjög fyrirferðarmikið hér á landi og eins og segir í skýrslunni þá eru 45% af þeim krónum sem eytt er komnar frá hinu opinbera. Við erum að setja það í samhengi að það skipti þess vegna svo miklu máli hvernig þessum fjármunum er varið, forgangsröðun og annað. Vegna þess að með réttu vali þá getur hið opinbera haft jákvæð áhrif á hagkerfið og þróun í atvinnustarfsemi, menningu og svo margt fleira.“

Fjölga þarf stoðunum í útflutningi sem getur dregið úr sveiflum

Pétur nefndi að í skýrslunni komi fram 10 tillögur til að efla samkeppnishæfnina. Efst á listanum væri að koma á auknum og víðtækum stöðugleika þar sem sveiflur í gengi krónunnar og launahækkanir væru langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum. Hann vildi byrja á því að ræða það sem skipti máli fyrir fólkið í landinu sem væri gengið á krónunni og vextir. Hann spurði Sigurð að því hvernig væri hægt að laga það? „Það sem við erum að benda á er að sveiflur hér á landi í hagerfinu eru meiri en gengur og gerist í nágrannaríkjunum. Það á ekki bara við um gengið gjaldmiðilsins heldur hagkerfið sjálft. Gjaldmiðillinn og gengi hans endurspeglar auðvitað þennan óstöðugleika með sveiflunum þar. Til lengri tíma litið þá felst lausnin í því að fjölga stoðunum þannig að útflutningur verði fjölbreyttari þannig að það séu fleiri egg í körfunni sem að saman geti þá dregið úr þessum sveiflum sem við upplifum hér ár eftir ár.“

Talsvert svigrúm til að gera hlutina betur

Þessu til viðbótar ræddu þeir Pétur og Sigurður um menntakerfið þar sem fjármunir eru ekki vandamálið heldur þarf nýja hugsun þar. Pétur spurði Sigurð hvort ríkið væri orðið það mikið bákn að við ættum erfitt með breytingar og framþróun? „Ég held að það sé talsvert svigrúm til þess að gera hlutina betur. Við erum auðvitað heppin hvað það varðar að hér er gott fólk og hugmyndaríkt svo það eru öll hráefni til staðar en kerfið er vissulega þungt í vöfum.“

Pétur og Sigurður ræddu um fleiri mál eins og rannsóknir og þróun og gervigreind. Einnig spurði Pétur Sigurð hvort fjármálakerfið væri samkeppnishæft.  

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni. 

Hringbraut-sh