Með upprunaábyrgðum seljum við frá okkur ímynd þjóðarinnar
Ég hafna því alfarið að Samtök iðnaðarins hafi hafið einhverja áróðursherferð gegn raforkufyrirtækjum á Íslandi. Það er bara bull að mínu mati og þetta eru tvö aðskilin mál. Við stigum inn í umræðu í síðustu viku um upprunaábyrgðir sem orkufyrirtækin eru að selja. En hins vegar höfum við alveg tjáð okkur um stöðuna í Straumsvík, það er ekkert leyndarmál, við höfum gert það opinberlega og lýst yfir áhyggjum af stöðunni þar. Þetta er vitaskuld stór vinnustaður og það eru gríðarlega margir félagsmenn Samtaka iðnaðarins, ég hugsa að þetta séu fleiri tugir ef ekki hundruðir fyrirtækja, sem hafa daglegt lifibrauð sitt af því að þjónusta stóriðju á Íslandi. Þannig að vitaskuld látum við í okkur heyra þegar við höfum þessa hagsmuni allra okkar félagsmanna að leiðarljósi. En það er líka mikið hagsmunamál fyrir alla félagsmenn Samtaka iðnaðarins að raforkuverð sé sanngjarnt á Íslandi og það sé samkeppnishæft. Og það á við um alla okkar félagsmenn, hvort sem það eru bakararnir okkar eða stóriðjan. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi þar sem hún mætti forstjóra Landsvirkjunar í umræðum um raforkumarkaðinn og sölu fyrirtækisins á upprunaábyrgðum.
Samkeppnishæfnin að dala
Þegar þáttastjórnandinn, Einar Þorsteinsson, spyr Guðrúnu hvort Landsvirkjun hafi gengið of langt í að hækka verð til stóriðjunnar segir hún: „Ég skal ekki segja, ég þekki ekki þessa samninga. Þetta eru samningar á milli tveggja aðila og eins og hér hefur komið fram, að það þarf þá að vera eitthvað samþykki fyrir því ef að þeir eigi að vera opinberir. En við höfum alveg bent á það að ný atvinnutækifæri, eins og til dæmis gagnaver Advania, nýjasta gagnaverið, það rís ekki á Íslandi, það rís í Stokkhólmi. Og stórfyrirtæki eins og Rio sem er með starfsemi úti um allan heim, að þegar þeir segja að samkeppnishæfnin okkar sé að dala, þá held ég að það sé alla vega ábyrgðarhluti ef við leggjum ekki við hlustir. Það er heldur ekkert óeðlilegt þó að Samtök iðnaðarins hafi skoðun á því hvernig þessi raforkumarkaður er hér á landi, því við erum öll svo háð þessari orku til atvinnuppbyggingar í landinu.“
Verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni
Guðrún er spurð að því hvort sala Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum grafi undan ímynd Íslands sem land endurnýjanlegrar orku, er það þannig? „Já við teljum svo vera. Við byggjum í rauninni allt okkar líf, hvort sem það er okkar persónulega eða okkar atvinnulíf, á orðspori og ímynd. Og það er ekkert sem er eins verðmætt okkur öllum og einmitt þetta. Þetta er það sem við Íslendingar, þetta eru okkar mestu verðmæti, það eru ímynd og orðspor þjóðar okkar. Og við teljum að með því að vera að selja þessar upprunaábyrgðir í raforku til annarra landa sem ruglar þá raforkubókhaldið hér á Íslandi þannig að það sé bara einungis 11 prósent endurnýjanleg raforka, þegar við vitum öll innst inni að svo er ekki. Það að orkufyrirtæki okkar séu að nota þetta sem tekjulind, okkur finnst að þarna sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.“
Hagsmunir Íslendinga liggja í því að halda góðri ímynd
Hvað varðar fullyrðingar forstjóra Landsvirkjunar um að hægt sé að fá tugi milljarða fyrir upprunaábyrgðirnar segir Guðrún að það sé bara mat. „Það er ekkert í hendi í dag. Þetta var á síðasta ári um þúsund milljónir en við höfum bent á það að hagsmunir okkar Íslendinga liggja miklu fremur í því að við höldum okkar ímynd hér góðri. Að þetta sé sannanlega land endurnýjanlegrar orku og hér sé hreinleiki og gott orðspor og þar af leiðandi góð ímynd. Þessir hagsmunir munu skila okkur miklu meiri verðmætum inn í framtíðina heldur en það sem Hörður er að tala um, að okkar mati, og þar liggur okkar málflutningur hjá Samtökum iðnaðarins.“
Guðrún segir að Ísland njóti sérstöðu. „Sérstöðu í heiminum fyrir það að við erum hérna nánast með 100 prósent endurnýjanlega orkugjafa. Það hlýtur að skipta höfðumáli þegar við erum að byggja hér ímynd okkar upp sem þjóðar, í öllum atvinnugreinum Íslands. Hvort sem það er íslenskur iðnaður, ferðaþjónusta, sjávarútvegur eða hvað sem er. Þetta er samkeppnisforskot sem við Íslendingar höfum nú á mörkuðum til að markaðssetja okkar vörur og okkar þjónustu. Og við teljum að Landsvirkjun sé með þessu að aðstoða erlend stórfyrirtæki til þess að fegra ímynd sína, bara eins og Ikea, Microsoft eða Google.“
Það á að hætta að selja upprunavottorð úr landi
En eiga stórfyrirtækin, stóriðjan, að fá þetta? „Við segjum að það á bara að hætta að selja þessi upprunavottorð út úr landinu. Það má selja þau hér innanlands og þá geta þau fyrirtæki bara keypt það.“
Guðrún spyr hvort við eigum ekki einmitt að gefa framtíðarkynslóðum fleiri tugi milljarða til að geta markaðssett eða selt sína vöru á hreinleika íslenskrar orku. „Við erum núna í íslensku orkubókhaldi að taka við. Við erum að verða grá í augum heimsins en gefum öðrum tækifæri til að vera græn þegar við erum það sannarlega, segjum bara satt. Við vitum öll að orkan okkar sem hér er framleidd er íslensk en síðan förum við í einhverjar bókhaldsbrellur og seljum þetta og seljum frá okkur ímynd þjóðarinnar.“
Kastljós, 24. febrúar 2020.