Fréttasafn



12. nóv. 2018 Almennar fréttir

Meira til skiptanna fyrir alla með því að vinna að umbótum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina og ræddi þar um nýja skýrslu Samtaka iðnaðarins, Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland. Það var komið víða við í samtali þeirra og er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan. Í viðtalinu leggur Sigurður áherslu á að það sé sameiginlegt verkefni að móta framtíðina og skýrslan væri innlegg Samtaka iðnaðarins í þá umræðu.

Sigurður segir að árið 2050 muni hagkerfið tvöfaldast að stærð, við verðum tæplega 100 þúsund fleiri og þess vegna þurfum við 55 þúsund íbúðir í viðbót svo dæmi sé tekið. „Við þurfum að auka útflutningstekjurnar og horfum á þessa fjóra lykil málaflokka sem mestu máli skipta fyrir framleiðnina og samkeppnishæfnina sem eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Samkeppnishæfni er eins og heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum og með því að vinna að umbótum í þessum fjórum málaflokkum sem ég nefndi að þá erum við að stækka kökuna, það verður meira til skiptanna fyrir alla og þannig getum við aukið lífsgæðin fyrir alla.“

Tillögur sem hægt er að ráðast í á næstu tveimur árum

„Sú mynd sem við drögum upp er auðvitað falleg sýn en við erum auðvitað fyrst og fremst að benda á að við getum komist miklu lengra í framtíðinni ef við grípum til aðgerða núna. Í því skyni höfum við mótað framtíðarsýn fyrir hvern og einn málaflokk, við höfum sett upp markmið í hverjum málaflokki og fyrir hvert einasta markmið eru tillögur að umbótum. Tillögur sem hægt væri að ráðast í á næstu tveimur árum. Samtals eru þetta um 70 tillögur sem eru lagðar fram,“ segir Sigurður í viðtalinu.

Laun á Íslandi eru há í alþjóðlegu samhengi

Í viðtalinu beinir Kristján sjónum að kjarasamningunum sem eru framundan og segir Sigurður að laun á Íslandi séu há á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. „Ef við skoðum laun í framleiðsluiðnaði og launaþróun í Evrópu annars vegar og hér á landi hins vegar frá 2010 þá hafa launin í Evrópu hækkað um 20% ef við mælum það í evrum en 140% á Íslandi ef við mælum það í evrum. Þannig að þau fyrirtæki sem eru að keppa við erlend fyrirtæki auðvitað standa verr að vígi. Við sjáum það sem dæmi í framleiðsluiðnaði og skoðum skiptinguna sem verður á verðmætunum sem verða til á milli launþegans annars vegar og fjármagnins þá eru ríflega 70% af verðmætunum að fara til launþegans.“

Meira til skiptanna ef aukum framleiðnina

En er ekki þessi framtíð sem þið eruð að lýsa hálaunaframtíð, þess vegna er þarna ákveðin þversögn er það ekki?  „Nei í fyrsta lagi erum við að segja að með umbótum að þá aukum við framleiðnina og þá verður meira til skiptanna fyrir alla.“

En hvað viltu segja við fólkið sem er að vinna í iðnaðinum í dag?  „Ég er að segja að ef við grípum til þessara aðgerða að þá verður meira til skiptanna. Það er allavega ljóst í mínum huga að framtíðin er ekki dökk hvað þetta varðar en í augnablikinu eru auðvitað miklar áskoranir. Það er auðvitað alvarleg mál sem við höfum séð í byrjun þessa árs þegar rótgróin iðnfyrirtæki eins og Plastprent og Kassagerðin telja hag sínum betur borgið með því að loka starfsemi hér á landi og í kringum 100 manns missa vinnuna heldur en að halda áfram. Það auðvitað segir sína sögu.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni: 

Fyrri huti viðtalsins. 

Seinni hluti viðtalsins.