Fréttasafn14. feb. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Meirihluti iðnfyrirtækja með markmið í loftslagsmálum

Meirihluti iðnfyrirtækja hefur sett sér markmið á sviði loftslagsmála. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja innan SI og greint er frá í nýrri greiningu SI. Úr könnuninni má lesa að stjórnvöld geta stutt við aðgerðir fyrirtækja í loftslagsmálum, m.a. með eflingu innviða, s.s. uppbyggingu raforkukerfa, meðhöndlun úrgangs og með skattalegu hagræði eða ívilnunum. Könnunin var gerð á meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins dagana 1.-7. febrúar síðastliðinn. Niðurstöðurnar byggja á svörum 127 stjórnenda.

Þetta eru helstu niðurstöður:

  • Könnunin sýnir að 52% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að iðnfyrirtæki þeirra hafa sett sér markmið á sviði loftslagsmála. Stærri fyrirtæki hafa frekar sett sér slík markmið en þau sem minni eru. 70% iðnfyrirtækja með einn milljarð í veltu eða meira hafa sett sér markmið á sviði loftslagsmála. Þriðjungur þeirra sem eru með veltu undir einum milljarði hafa sett sér slík markmið.
  • Þegar stjórnendur iðnfyrirtækja eru spurðir hvaðan helstu hvatar til að gera breytingar í fyrirtækjum þeirra á sviði loftslagsmála nefna þeir helst þrjú atriði. Það eru opinberar kröfur eða regluverk, ákvörðun yfirstjórnar og eftirspurn neytenda eða viðskiptavina eftir umhverfisvænni vörum, en þessir þættir eru nefndir álíka oft. Um 41% svarenda segja að opinberar kröfur eða regluverk séu einn af helstu hvötunum til breytinga innan fyrirtækisins á sviði loftslagsmála, 39% segja það vera ákvörðun yfirstjórnar og 37% þeirra sem taka þátt segja eftirspurn neytenda eða viðskiptavina eftir umhverfisvænni vörum.
  • Þegar stjórnendur iðnfyrirtækja eru spurðir hvað í starfsumhverfi fyrirtækisins þeir telja að standi helst í vegi fyrir því að fyrirtækið nái árangri á sviði loftslagsmála nefna þeir helst þrjú atriði. Tæp 90% svarenda settu kostnað vegna umbreytinga í starfsemi í eitthvert af efstu 3 sætunum, 74% íþyngjandi regluverk og 72% framboð af tæknilausnum og hráefni. Í þessari spurningu eru þátttakendur beðnir um að raða svarmöguleikum í mikilvægisröð.
  • Þegar stjórnendur iðnfyrirtækja eru spurðir hvaða aðgerðir fyrirtækið hafi farið í til að draga úr kolefnislosun sem á sér uppruna í starfsemi fyrirtækisins svara flestir eða ríflega 59% breyting í meðhöndlun úrgangs. Um 37% segja breyting á vinnuferlum og 31% breyting á vörum og þjónustu. Tæplega 27% segja orkuskipti í samgöngum starfsmanna á vinnutíma og 26% segja breytt orkunýtni.
  • Þegar stjórnendur iðnfyrirtækja eru spurðir hvaða aðgerðir til að draga úr kolefnislosun þeir telja að skili mestu í þeirra fyrirtæki setja 68% breyting á vinnuferlum í eitthvert af 3 efstu sætunum, 64% orkuskipti í flutningum og 61% breyting á vörum og þjónustu. Í þessari spurningu eru þátttakendur beðnir um að raða svarmöguleikum í mikilvægisröð.
  • Aðspurðir að því hvernig hið opinbera, ríki og sveitarfélög, geti stutt við aðgerðir fyrirtækja í loftslagsmálum svara flestir eða 62% með eflingu innviða, s.s. uppbyggingu raforkukerfa og meðhöndlun úrgangs. Um helmingur segja með skattalegu hagræði eða ívilnunum eða með fjárhagslegum hvötum.
  • Meira en helmingur eða 54% stjórnenda iðnfyrirtækja telja það mikilvægt fyrir ímynd þeirra fyrirtækja að fara í aðgerðir á sviði loftslagsmála. Ekki nema 24% telja það lítilvægt. Talsverður munur er á svörum eftir stærð fyrirtækja. Þannig telja 75% stjórnenda iðnfyrirtækja með veltu yfir einum milljarði mikilvægt fyrir ímynd þeirra fyrirtækja að fara í aðgerðir á sviði loftslagsmála en 41% þeirra sem eru með milljarð eða minna í veltu.

Hér er hæg að nálgast greininguna í heild sinni.

Loftslagsmal