Fréttasafn



28. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Menningin lykillinn að allri nýsköpun

ANDRI ÞÓR GUÐMUNDSSON er forstjóri Ölgerðarinnar, rótgróins fyrirtæki sem allir landsmenn þekkja, enda spannar rekstrarsaga þess rúmlega öld. Fyrirtækið er leiðandi í nýsköpun og vöruþróun og hefur þannig aflað nýrra markaða og tekna á drykkjarvörumarkaði undanfarin misseri. Andri segir það ekki sjálfgefið. Mikilvægt sé að skapa menningu innan fyrirtækisins sem miðar að því að starfsfólk sé opið fyrir breytingum og nýjum hugmyndum. Það hafi tekist vel upp hjá Ölgerðinni, líkt og glænýjar og vinsælar vörur á borð við COLLAB, 105, Borg Brugghús, Lov og Ves eru glöggur vitnisburður um. Verðmætasta vara félagsins er þó hinn gamli góði Kristall – kolsýrt vatn sem engan óraði fyrir snemma á tíunda áratugnum þegar Kristall kom fyrst á markað að yrði vinsælasta drykkjarvara allra landsmanna, sennilega að kranavatninu undanskildu.

Þegar ný vara er sett á markað setjum við niður á blað markmiðin um sölu. Þá er galdurinn að hafa þann aga að ef salan nær ekki fyrir fram ákveðnu marki fyrir ákveðinn tíma, að þá verður henni slátrað.

„Við höfum haft það markmið til margra ára að keppast við að 5% af okkar veltu á hverjum tíma sé að koma frá nýjum vörum. Það heldur okkur við efnið. Okkur hefur tekist að búa til innan fyrirtækisins rótgróna menningu fyrir vöruþróun og fyrir nýsköpun, en ekki síður passað upp á að halda utan um árangurinn og fylgjast grannt með neytendahegðun og markaðnum. Hversu mörg 106 ára fyrirtæki væru starfandi í dag, ef þau myndu ekki hugsa einmitt svona?“ spyr Andri. 

„Það eru sífelldar breytingar í þjóðfélaginu; neysluhegðun og menning breytist. Það hefðu ekki margir trúað því árið 1992 að kolsýrt vatn, Kristall, væri orðið verðmætasta vörumerki Ölgerðarinnar. Gömul og rótgróin fyrirtæki þurfa einmitt að vera dugleg að fylgjast með, horfa fram í tímann og lesa í markaðinn. Annars fer fyrir þeim fyrirtækjum eins og til að mynda Kodak, sem sigldi bara sofandi að feigðarósi,“ útskýrir hann. 

Það hefðu ekki margir trúað því árið 1992 að kolsýrt vatn, Kristall, væri orðið verðmætasta vörumerki Ölgerðarinnar. Gömul og rótgróin fyrirtæki þurfa einmitt að vera dugleg að fylgjast með, horfa fram í tímann og lesa í markaðinn.

Einsleitur hópur kemst ekki að bestu niðurstöðunni 

Tæplega 400 manns starfa hjá Ölgerðinni. „Ég álít að hver og einn einasti þessara starfmanna sé á einhverjum tíma að koma að vöruþróun, með beinum eða óbeinum hætti.

Sölu - og markaðsdeildir leiða þá vinnu, því við kappkostum að lesa í þarfir viðskiptavinanna og neytendanna. Ég tel það mikilvægast að hafa sem fjölbreyttastan hóp við störf því einsleitur hópur kemst aldrei að bestu niðurstöðunni. Lykillinn að því að vera á tánum og vera öflug í vöruþróuninni er þessi fjölbreytileiki,“ segir Andri. 

Stundum er talað um að stærð og menning hindri rótgróin fyrirtæki í að bregðast við breytingum á mörkuðum. Það er stundum sagt að fyrirtækin verði værukær. Hvernig er hægt að sporna við því? „Menningin er nefnilega höfuðmálið. Menning innan fyrirtækja verður að styðja við þá stefnu sem fyrirtækið vill reka. Við höfum lagt gríðarlega mikinn metnað í menninguna innan Ölgerðarinnar. Hún er engin tilviljun, heldur sköpuð og af ásetningi til þess að styðja við markmið félagsins. Þetta eru erfiðustu verkefni stjórnenda, að hafa áhrif og breyta fyrirtækjamenningu. Við höfum til að mynda lagt áherslu á myndræna framsetningu á okkar menningu og gildum. Gildin eiga ekki að vera orð á blaði, eða spjald á veggnum heldur raunmenning fyrirtækisins. Hjá okkur eru þessi gildi fjögur; jákvæðni – að vera jákvæð fyrir breytingum, finnast gaman og vera saman í liði, áreiðanleiki – að gæðin séu fyrsta flokks og viðskiptavinirnir geta treyst okkur, hagkvæmni – að gera hlutina ódýrara en aðrir og vera sífellt að bæta ferla og rekstur og síðast en ekki síst framsækni, að vera feti framar í þjónustu, nýjungum, láta hlutina gerast, og þora að taka áhættu og gera mistök líka,“ segir Andri og bætir við að framsæknin sé algjör lykill í þessari menningu. 

1_AndriOlgerdin_806A1316

Miskunnarlausar ákvarðanir á köflum 

„Það er ákveðið orkustig sem þarf að viðhalda. Og þá þurfum við að vera dugleg að fagna sigrum en vera líka tilbúin að læra af mistökum. Það er engum refsað fyrir að gera mistök, en við pössum okkur að gera ekki sömu mistökin tvisvar.“ 

Með mistökin. Hvenær ákveðið þið að einhver vara sé ekki að virka? „Þegar ný vara er sett á markað setjum við niður á blað markmiðin um sölu. Þá er galdurinn að hafa þann aga að ef salan nær ekki fyrir fram ákveðnu marki fyrir ákveðinn tíma, að þá verður henni slátrað. Oft myndast tilfinningatengsl við vörur og það verður eins konar árátta að halda vonlausum verkefnum gangandi fram í hið óendanlega. En þegar maður setur markmiðin niður, fyrir fram, hvað er árangur og hvað er ekki að virka – þá auðveldar það manni að taka ákvarðanir. En það er stundum erfitt,“ segir Andri. 

Netverslun með áfengi hvorki fugl né fiskur 

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp dómsmálaráðherra um að netverslun með áfengi verði gerð lögleg hér á landi. Andri gefur lítið fyrir þetta frumvarp. „Skref í frjálsræðisátt þarf að taka í réttri röð. Það sem við viljum sjá er þetta baráttumál innlendra framleiðenda, að við fáum að auglýsa okkar áfengu drykki eins og erlendir aðilar. Allir miðlar, fjölmiðlar og samfélagsmiðlar eru að brjóta öll landamæri. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með þetta. Byrja ætti á að aflétta áfengisauglýsingabanni, lækka svo áfengisgjaldið og selja svo ÁTVR. Af hverju ætti ríkið að sturta niður milljarða verðmæti í þessum verslunum? Þetta eins og það liggur fyrir er hvorki fugl né fiskur,“ segir Andri og segir smám saman verið að mylja undan ÁTVR og gera máttlausara. 

„Þetta er kannski fyrsta skrefið í því að afnema einokun ÁTVR á áfengi, en á sama tíma er það mjög skaðlegt fyrir innlenda framleiðendur ef sala áfengis verður gefin frjáls að fá ekki að auglýsa okkar vöru. Ef stjórnmálamenn kjósa að líta á áfengi sem hefðbundna neysluvöru sem má selja frjálst hlýtur það sama að eiga við um auglýsingar.“ 

Andri bendir á að oft hafi komið upp sú umræða að selja lyf í lausasölu í stórmörkuðum. „Stjórnmálamenn hafa hins vegar ekki treyst sér að taka það mál áfram en samt má auglýsa þessar vörur. Þetta auglýsingabann á áfengi er óskiljanlegt. Við innlendu framleiðendurnir munum verða undir í samkeppninni ef við fáum ekki að auglýsa og hafa áhrif á eftirspurn neytenda en erlendu framleiðendurnir geta gert það eftir hinum ýmsu leiðum. Að leyfa frjálsa sölu á áfengi án þess að mega auglýsa skekkir eðli frjáls markaðar og færir allt valdið til smásölunnar.“

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_