Fréttasafn20. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Menntakerfið á að búa til frumkvöðla

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með vexti þekkingarfyrirtækisins ORF Líftækni undanfarin ár. Eitt stærsta skrefið var að koma BIOEFFECT vörumerki fyrirtækisins inn í margar af eftirsóttustu verslunum heims líkt og Harrods, Bon Marché, Selfridges, Bergdorf Goodman, Magasin og Harvey Nichols. ORF Líftækni velti um tveimur milljörðum króna 2019, tæpum tuttugu árum eftir stofnun þess. BJÖRN LÁRUS ÖRVAR, einn stofnenda félagsins og yfirmaður rannsókna og nýsköpunar, segir margt hafa breyst í umhverfi frumkvöðla síðan hann kom að því að koma sínu fyrirtæki á fót. 

Ég þreytist seint á að tala um að það þarf virkilega að horfa til menntakerfisins þegar kemur að því að þróa tæknifyrirtæki hér á landi.

„Ég held að það sé meiri áhugi, meiri virðing borin fyrir tæknigreinum og raunar þeirri mennt un sem er að baki tæknigreina. Ég þreyt ist seint á að tala um að það þarf virkilega að horfa til menntakerfisins þegar kemur að því að þróa tæknifyrirtæki hér á landi. Starfið verður að hvíla á menntun. Þar verðum við að byrja með markvissri og fjölbreyttri menntun til að geta komið góðum hugmyndum í framkvæmd og geta áttað sig á hvað er mögulegt í þeim efnum. Í gegnum menntakerfið getum við líka aukið frjóa hugsun, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur. Það verður ekkert til nema góð hugmynd sé til staðar,“ segir Björn. 

Þegar Björn og félagar fóru af stað fyrir 20 árum höfðu þeir lítið í höndunum, annað en góða hugmynd um að framleiða sérvirk prótein með erfðatækni. Fyrsta áskorunin fólst í því hvort hægt væri að þróa tækni sem gerði þeim kleift að taka hugmyndina áfram. „Þetta var nýstárleg tækni. Þegar við vorum lögð af stað fengum við góðan rannsóknarstyrk sem fleytti okkur eitthvað áfram, en fljótlega varð okkur ljóst að verkefnið yrði miklu stærra í sniðum en við ráðgerðum í upphafi. Þá ákváð um við að stofna fyrirtæki í kringum verkefnið, sem við gerðum í ársbyrjun 2001,“ rifjar Björn upp.

Góð hugmynd og smá heppni 

„Við hugsuðum kannski ekki alla leið í upphafi, áttuðum okkur ekki á því hversu margar hindr anir gætu orðið á veginum. En við treystum á góða samkeppnissjóði. Tækniþróunarsjóður er gott dæmi um slíkan sjóð – sá sjóður skipti sköpum fyrstu árin hjá okkur,“ lýsir hann, en hefur sömu sögu að segja og margir aðrir frumkvöðlar að vandasamt getur reynst að fjármagna verkefni umfram það sem hægt er að sækja í sjóði.

Við þurfum margar góðar hugmyndir að borðinu, byrja á þeim og ýta þeim úr vör til þess að örfá verkefni nái alla leið og verði að fyrirtæki í góðum rekstri.

 

„Við vorum heppin með það að fá inn minni hluthafa í upphafi sem höfðu trú á verk efninu. Það voru ekki margir til í að fjárfesta í nýsköpun á þessum árum, menn horfðu aðallega til fjármálafyrirtækjanna í stað þess að setja fé í vöxt sprotafyrirtækja, en það má segja að með einhvers konar blöndu af heppni, góðum mannskap og góðu verkefni höf um við náð að komast lengra en margir aðrir.“ 

Próteinin sem fyrirtækið framleiðir eru einnig notuð í læknisfræðilegar rannsóknir, en grunnurinn í starfsemi fyrirtækisins er þróun á erfðatækni í byggi. Gríðarlega mikil áhersla hefur alla tíð verið lögð á rannsóknir og þróun í rekstrinum, en slíkt getur reynst mjög kostnaðarsamt. Björn segir að þegar lagt er af stað í uppbyggingu fyrirtækis sem byggir á tækniþróun sé gríðarlega mikilvægt að líta ekki á það sem rannsóknarverkefni eingöngu, heldur verði lokamarkmiðið að vera skýrt – rannsóknirnar þurfa að leiða til sölu vöru. 

BjornOrf_806A7169

Ekki reyna að finna upp hjólið 

„Það er gríðarlega mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir vöruþróun í huga þegar kemur að uppbyggingu tæknifyrirtækis. Oft er líka hægt að stytta sér leið að lokamarkmiðinu, sem er framleiðsla á söluvöru, með því að úthýsa ákveðnum verkefnum, nota ákveðna tækni sem er til fyrir og fá aðra aðila að borðinu til að flýta fyrir lokamarkmiðinu. Ekki alltaf vera að reyna að finna upp hjólið. Við höfum verið mjög lánsöm hvað þetta varðar. Okkur hefur tekist vel að leita uppi þekkingu og tækni þegar við höfum þurft á að halda í stað þess að eyða tíma og fjármunum í að gera allt sjálf,“ útskýrir hann. 

Björn segir umhverfi til nýsköpunar hér á landi að mörgu leyti ágætt. Hins vegar sé mikilvægt að laða ungt og frjótt fólk að greininni. „Mér finnst mjög mikilvægt að við pössum það að skima vel fyrir góðum hugmyndum í upphafi. Það er svo dýrmætt að fá inn nýtt blóð. Það má ekki draga úr þrótti eða frumkvæði og áhuga ungs fólks til að taka þátt í nýsköpun,“ skýrir hann frá og segir umræðuna um nýsköpun oft snúast að of miklu leyti um erfiðleika við fjármögnun, þó vissulega eigi sú umræða rétt á sér. „Við þurfum margar góðar hugmyndir að borðinu, byrja á þeim og ýta þeim úr vör til þess að örfá verkefni nái alla leið og verði að fyrirtæki í góðum rekstri.“

Engin algild lausn 

Hann segir að úrræði stjórnvalda um að endur greiða hluta af kostnaði nýsköpunarfyrirtækja við rannsóknir og þróun sé gott. „Oft tala menn um að það þurfi að hækka þakið. Að mínu mati skiptir það ekki öllu máli, frekar ætti að fella fleiri þætti nýsköpunar undir þessa skilgreiningu um rannsóknir og þróun. Það myndi hjálpa fleiri fyrirtækjum, því fæst fyrirtæki eru að ná upp í þetta þak. Þannig myndi fjármagnið nýtast betur,“ segir hann, hámarkið á þeim kostnaði sem fellur til vegna rannsókna og þróunar og leyfilegt er að draga frá skatti eru 1,1 milljarður króna. 

Björn segir að aðgengi að erlendu fjármagni mætti líka auka. „Allt sem stjórnvöld geta gert til að laða hér að erlent fjármagn, hvort sem það er í gegnum rekstrarskilyrði sprotafyrirtækja eða skattaívilnanir skiptir líka máli. Í því samhengi má líka gera meira í því að leiðbeina frumkvöðlum um hvernig eigi að sækja í erlenda sjóði. Það er ekki til nein algild lausn á þessu, en það má stíga mörg lítil skref til að stórbæta umhverfið.“

***

Snyrtivörur fyrirtækisins undir merkinu BIOEFFECT eru seldar á 27 mörkuðum um allan heim. Björn segir ORF Líftækni stefna á frekari vöxt á allra næstu misserum. Þar horfa þau sérstaklega til Asíu, en Kína er þeirra stærsti markaður. Snyrtivörunum hefur einnig verið vel tekið í Bandaríkjunum og í Evrópu.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_