Menntatækni lykill að inngildingu í skólakerfinu
Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, flutti erindi á máltækniþingi Almannaróms sem fór fram fyrir skömmu. Yfirskrift erindis Huldu Birnu var menntatækni sem lykill að inngildingu í skólakerfinu. Í erindinu fór hún yfir hlutverk menntatækni í inngildingu innan skólakerfisins og lagði áherslu á hvernig stafrænar lausnir geti stuðlað að betri námsupplifun, auknum gæðum kennslu og aukinni inngildingu fyrir fjölbreyttan nemendahóp. Hún sagði menntatækni bjóða upp á mikilvæg tækifæri til að bæta menntakerfið á Íslandi og styðja við inngildingu. Fjárfesting í menntatækni væri fjárfesting í framtíðinni og geti styrkt samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi.
Mikilvægi tæknilausna fyrir inngildingu og námsgæði
Hulda Birna sagði að notkun tæknilausna í skólakerfinu hafi aukist verulega undanfarin ár og hafi þróun á sviði menntatækni á Íslandi skilað sér í fjölbreyttum lausnum. Menntatækni feli í sér stafrænar lausnir sem miði að því að bæta námsupplifun, stuðli að markvissara námsmati og auki árangur nemenda. Hún ræddi einnig um hvernig þessi tækni geti nýst til að mæta þörfum nemenda óháð uppruna, tungumáli eða námsgetu, og þannig stuðlað að aukinni inngildingu.
Fjölbreytt málumhverfi í grunnskólum og áskoranir kennara
Í erindi sínu greindi Hulda Birna frá því að töluð væru yfir 50 tungumál í íslenskum grunnskólum samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Þessi fjölbreytni skapi bæði áskoranir og tækifæri fyrir skólakerfið, þar sem kennarar þurfi oft að laga kennslu sína að fjölbreyttum nemendahópum. Þrátt fyrir að starfsmönnum í grunnskólum hafi fjölgað um 39% á undanförnum árum á meðan nemendum fjölgaði um 8%, væri álag á kennara enn mikið, meðal annars vegna tímaskorts við gerð námsefnis. Hulda Birna benti á að menntatæknilausnir geti létt af kennurum og hjálpað þeim að sinna fjölbreyttum hópi nemenda betur.
Stafrænar lausnir til stuðnings kennurum og nemendum
Í máli Huldu Birnu kom fram að íslensk fyrirtæki haia þróað fjölmargar stafrænar lausnir fyrir skóla. Meðal þeirra væru Infomentor, Ugla og Inna, sem væru vel þekkt kerfi fyrir utanumhald námsmats og samskipti en þar væri einnig Beedle sem væri námsmatskerfi í Microsoft Teams. Þar að auki hafi lausnir eins og Beanfee verið þróað til að styðja við hegðunarþjálfun og Evolytes og einstaklingsmiðaða stærðfræðikennslu með innbyggðu matskerfi, en Evolytes er á meðal fimmtíu efnilegustu sprotafyrirtækja í menntatækni á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum samkvæmt nýjum lista sem Holon IQ tók saman fyrir árið 2024.Þá sagði hún að Ásgarður ráðgjafarþjónusta, veiti ráðgjöf fyrir skóla og sveitarfélög, sem miði að því að bæta gæðamat og auka inngildingu – þjónustu sem nú sé fáanleg á 109 tungumálum. Tiro sé einnig gott dæmi um framúrskarandi lausn sem brúi bilið milli talmáls og ritmáls.
Verkfæri til að efla læsi og tungumálakunnáttu
Hulda Birna lagði áherslu á mikilvægi tæknilausna til að efla tungumálakunnáttu nemenda af erlendum uppruna. Hún nefndi appið Bara tala, sem væri íslenskukennsluforrit þar sem nemendur geti æft sig í að tala, hlusta og byggja upp orðaforða á eigin hraða. Appið bjóði upp á gagnvirka endurgjöf og stöðumat, og sé tilvalið til notkunar í bæði grunn- og framhaldsskólum. Þá nefndi hún appið Læsir, sem geri stórfjölskyldunni kleift að fylgjast með og taka þátt í lestri barna, sem styrki tengsl nemenda við læsi og námsframfarir.
Nýstárleg tæknilausn frá Atlas Primer
Hulda Birna nefndi Atlas Primer sem væri önnur íslensk menntatæknilausn sem hafi hlotið alþjóðlega athygli fyrir að nýta máltækni á frumlegan hátt í námi. Forritið bjóði upp á námsumhverfi sem aðlaiast nemendum, styðji kennara í námsefnisgerð og bæti námsupplifun án þess að koma í staðinn fyrir hefðbundna kennslu. Atlas Primer hafi vakið athygli í alþjóðlegum fjölmiðlum, þar á meðal TIME og Forbes, og sé nú talið eitt af fremstu menntatæknifyrirtækjum heims árið 2024.
Brýnt að fjárfesta í menntatækni og efla aðgengi
Hulda Birna tók fram að með tækninni fleygi hratt fram þurfi íslenskt skólakerfi að halda í við þróunina. Fjármögnuð innleiðing á menntatækni geti skipt sköpum fyrir inngildingu og námsárangur. Ungt fólk í dag sé uppalið við stafrænt umhverfi og tæknivætt nám geti nýst þeim vel. Menntatækni sé jafnframt mikilvægt verkfæri fyrir kennara til að mæta þörfum fjölbreytts nemendahóps. Hún nefndi einnig að tækifæri séu til að efla STEAM-menntun, auka fjármagn til framhaldsskóla og styðja við raunfærnimat.