Fréttasafn14. maí 2021 Almennar fréttir Menntun

Mestu umbætur iðnnáms um áratuga skeið

„Þetta eru einar mestu umbætur sem orðið hafa á þessu sviði um áratuga skeið. Það var auðvitað löngu tímabært að setja þessi mál í forgang. Það virðist vera að skila árangri sem er alveg frábært. Þessar aðgerðir allar saman virðast vera að skila sér í aukinni aðsókn,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt á forsíðu Fréttablaðsins en á síðasta ári voru 804 nemendur útskrifaðir af iðnnámsbrautum í framhaldsskóla og brautskráðum hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Frá 2017 til 2020 nam aukningin 25% samkvæmt greiningu SI

Sigurður segir í Fréttablaðinu að þetta sé afar ánægjulega þróun sem þakka megi samstilltu átaki atvinnulífs og stjórnvalda og sé mikilvægt fyrir íslenskan efnahag að auka veg iðn- og starfsnáms. Til að mynda hafi OECD bent á að færnismisræmi sé á íslenskum vinnumarkaði, of fáir iðn- og tæknimenntaðir útskrifist sem hafi slæm áhrif á samkeppnisstöðu Íslands. Það sé til mikils að vinna fyrir efnahag landsins að bæta úr þessu. Þörf sé á iðnmenntuðu starfsfólki í fjölda atvinnugreina, til að mynda hugverkaiðnaði og hátækni. 

Margir samverkandi þættir ástæða aukningar

Í fréttinni kemur fram að Sigurður segi ástæðu aukningarinnar mega þakka nokkrum samverkandi þáttum, kynningarstarfi, laga- og reglugerðarbreytingum stjórnvalda og aukinni uppbyggingu í málaflokknum. Þá er sagt frá að frumvarp hafi orðið að lögum um aðgengi að háskólum sem gerir það að verkum að þau sem ljúka iðn- og starfsnámi fá aðgang að háskólum, uppfylli það ákveðin skilyrði, líkt og þau sem útskrifast af bóknámsbrautum framhaldsskóla. Fyrr á árinu hafi verið samþykkt reglugerð um vinnustaðanám sem Sigurður segir gjörbreyta fyrirkomulagi þess því nú þurfi nemar ekki lengur að komast á samning hjá meistara og geti farið svokallaða skólaleið þar sem skóli þeirra beri ábyrgð á þessum hluta námsins. Nemar geti því farið til margra meistara og verið hjá þeim til styttri tíma, þar sem þeir geti stundað afmarkaðri hluta námsins. Sigurður segir þetta auðvelda bæði nemum og meisturum fyrir sem hafa kannski ekki tök á að hafa nemann í allan þann tíma sem námið krefst. 

Ryðja hindrunum úr vegi

Þá segir í fréttinni að reglugerðin feli einnig í sér að nú sé miðað við hæfni nema en ekki lengd vinnustaðanáms. Því geti nemar sem fljótir séu að tileinka sér vinnubrögð og gangi vel í náminu verið skemur en þeir sem það taki lengri tíma. „Þar með er búið að minnka muninn á námslengd hvað varðar bóknám og verknám, bóknám var stytt í þrjú ár fyrir nokkrum árum á meðan iðnnám er að jafnaði fjögur ár. Það er mikil breyting hvað þetta varðar. Allt miðar þetta að því að ryðja hindrunum úr vegi varðandi iðnnámið og hvetja til aðsóknar,“ segir Sigurður. Hann segir fulla ástæðu til að hrósa menntamálaráðherra og stjórnvöldum fyrir að fara í þessar aðgerðir.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 13. maí 2021. 

Frettabladid-13-05-2021