Fréttasafn



13. maí 2021 Almennar fréttir Menntun

Metfjöldi brautskráðra í iðnnámi í áratug

Í nýrri greiningu SI kemur fram að metfjöldi brautskráðra í iðnnámi í heilan áratug hafi orðið á síðasta ári þegar 804 voru útskrifaðir. Töluverð fjölgun hefur orðið á fjölda brauðskráðra úr iðnnámi undanfarin ár. Á árabilinu 2017 til 2020 hefur orðið 25% aukning. Frá árinu 2010 hafa 7.057 nemendur úrskrifast úr iðnnámi samkvæmt tölum frá framhaldsskólum sem brautskrá nemendur úr löggiltu iðnnámi. Sömuleiðis er metfjöldi í fjölda samþykktra umsókna í iðnnám skólaárið 2019/2020 þegar 1.852 umsóknir voru samþykktar.

Af öllum umsóknum í framhaldsskólum á vorönn 2021 sækir rúmlega helmingur umsækjenda um í iðn- og starfsnámi. Að mati Samtaka iðnaðarins eru það mjög ánægjuleg tíðindi enda er fjölgun iðnmenntaðra mikilvægt skref til að efla samkeppnishæfni Íslands. Ástæður þess að brauðskráðum úr iðnnámi fjölgar eru að mati Samtaka iðnaðarins nokkrir samverkandi þættir.

Samtök iðnaðarins eru sammála áliti OECD þess efnis að það sé færnimisræmi á vinnumarkaðnum sem birtist meðal annars í því að fleiri iðn- og tæknimenntaða vanti á vinnumarkaðinn. Þetta færnimisræmi er samfélaginu kostnaðarsamt og heldur aftur af samkeppnishæfni Íslands. Ríkisstjórnin með menntamálaráðherra í fararbroddi hefur lagt ríka áherslu á að fjölga iðnmenntuðum á vinnumarkaði með aðgerðum og umbótum tengt iðnnámi. Má þar nefna kynningarátök, breytingar á reglugerð þar sem hindrunum er rutt úr vegi og möguleikar á styttri námstíma, aukið aðgengi að háskólum og uppbygging aðstöðu fyrir verknám. Að mati Samtaka iðnaðarins eru þetta mestu breytingar sem sést hafa varðandi iðnnám um áratuga skeið og eiga sannarlega þátt í aukinni aðsókn.

Aukin áhersla mennta- og menningarmálaráðuneytisins að undanförnu á iðnnám og aukið samstarf atvinnulífs og skólastjórnenda hefur án efa haft mikil áhrif á aukna aðsókn. Liður í því er sameiginlegt átak SI, menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að fjölga iðnmenntuðum. Átakið hófst á haustmánuðum 2019 til að ná til grunnskólanemenda undir heitinu #fyrir mig. Átakið „Nám er tækifæri“, sem er hluti af aðgerðum sem stjórnvöld gripu til vegna COVID-19, skýrir einnig þessa aukningu en í átakinu er lögð höfuðáhersla á starfs- og tækninám á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu.

En það er fleira sem skilað hefur þessum árangri að mati Samtaka iðnaðarins, þar á meðal er samstarfsverkefni sömu aðila þar sem nemendur í skólum út um allt land fá tækifæri til að kynnast fjölbreyttum iðn- og tæknigreinum, meðal annars með heimsóknum í fyrirtæki. Verkefnið hefur verið starfrækt frá árinu 2013 og nefnist GERT, sem stendur fyrir grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni.

Samtök iðnaðarins telja að enn þurfi að fjölga nemendum sem brautskrást úr iðnnámi. En það er þó engan veginn nóg að fjölga nemendum heldur þarf einnig að taka vel á móti þeim frá upphafi náms og tryggja þeim örugg námslok á eðlilegum tíma. Það hefur ekki alltaf verið raunin í gegnum tíðina en horfir nú til betri vegar. Um þessar mundir vinna Samtök iðnaðarins ásamt menntamálaráðuneytinu, skólameisturum og nemendum, atvinnulífinu og öðrum helstu hagaðilum að innleiðingu nýrrar reglugerðar um vinnustaðanám. Reglugerðin mun taka gildi 1. ágúst nk. og er það mat Samtaka iðnaðarins að hér séu á ferðinni einhverjar mestu umbætur í iðnnámi sem litið hafa dagsins ljós í langan tíma. Með þessum breytingum er hagur nemenda hafður að leiðarljósi.

Þá fagna Samtök iðnaðarins nýsamþykktu frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla þar sem inntökuskilyrðum að háskóla er breytt þannig að nemendur sem staðist hafa lokapróf í list-, tækni- og starfsnámi á 3. hæfniþrepi í framhaldsskóla hafa jafnan aðgang og nemendur með stúdentspróf. Samtök iðnaðarins telja að nú loks teljist iðnnám samkeppnishæft við bóknám.

Hér er hægt að nálgast greininguna.