Fréttasafn



28. jún. 2022 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Miðstöð snjallvæðingar fær 300 milljónir í styrk frá ESB

Miðstöð snjallvæðingar hefur fengið 300 milljóna króna styrk frá ESB og verður Ísland þar meðí hópi þeirra Evrópulanda sem munu hýsa slíkar miðstöðvar. Ísland er hluti af áætlun Evrópusambandsins um stafræna Evrópu (DIGITAL Europe) sem varir frá 2021 til 2027. Hluti af áætluninni er að stofna Evrópska miðstöð stafrænnar nýsköpunar (European Digital Innovation Hub: EDIH) hér á landi, en hún verður sett á laggirnar nú í haust af Auðnu tæknitorgi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Rannís, Origo, Syndís ásamt fleiri samstarfsaðilum og kölluð „Miðstöð snjallvæðingar“.

Í tilkynningu segir að með tilkomu Miðstöðvar snjallvæðingar á Íslandi muni skapast tækifæri til samþættingar, samræmingar og þekkingardreifingar á grunnþáttum snjallvæðingarinnar. Miðstöðin mun tengja þarfir við þekkingu, færni og reikniafl innanlands og jafnframt bjóða upp á prófanaumhverfi þar sem opinberir aðilar jafnt sem einkafyrirtæki geta prófað sig áfram í nýjustu tækni án þess að leggja út í miklar fjárfestingar. Áhersla verður lögð á að virkja samlegðaráhrif og öflugt tengslanet. Mikil áhersla verður lögð á að bæta tölvuöryggi á landinu, m.a. með áherslu á framsækin rannsóknarverkefni og auka framboð menntunar á því sviði.

Þá kemur fram í tilkynningu að miðstöðin muni leggja lóð sín á vogarskálarnar við að byggja upp lifandi umhverfi nýsköpunar á sviði snjallvæðingar með tengingum við Evrópu í gegnum systur EDIH miðstöðvar um gervalla Evrópu. Miðstöð snjallvæðingar í samstarfi við Rannís mun sömuleiðis vekja athygli á tækifærum til sóknar í Digital Europe Program Evrópusambandsins, sem mun verja 7,5 milljörðum Evra til snjallvæðingarverkefna og því eftir miklu að slægjast fyrir íslensk fyrirtæki á þessu sviði.


Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar: „Með stofnun seturs um stafræna nýsköpun á Íslandi og stuðningi Evrópusambandsinsins við það sem hluta af stafrænni vegferð Evrópu, er tekið mikilvægt skref í stafrænni þróun samfélagsins og skapaður vettvangur til stuðnings við nýsköpun á því sviði. Með meiri stafvæðingu spörum við fjármuni og gerum kerfið okkar skilvirkara og betra, þetta er í anda þess sem ég hef lengi talað fyrir. Aukið samstarf stjórnvalda, sveitarfélaga, háskóla og atvinnulífsins í átt að aukinni snjallvæðingu kemur því samfélaginu öllu til góðs.“


Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: „Við fögnum mjög þessum styrk Evrópusambandsins enda hefur atvinnulífið kallað eftir víðtækri stafrænni þróun hér á landi. Þetta ætti að vera mikil hvatning til að hraða þeirri vegferð hvort heldur er meðal ríkisstofnana eða einkafyrirtækja. Við vitum að ný stafræn tækni eflir samkeppnishæfni fyrirtækja og þar með landsins alls. Það verður því áhugavert að fylgjast með framvindunni hjá Miðstöð snjallvæðingar á næstu misserum.“


Einar Mäntylä framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs og yfirumsjónarmaður verkefnisins/coordinator, sér mikil tækifæri í virkjun nýjustu þekkingar og þarfa í stafvæðingu og eflingar færni með því að skapa vettvang til samstarfs á milli lykilaðila og innviða í samfélaginu.


Sverrir Geirdal viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi og verðandi forstöðumaður Miðstövar snjallvæðingar
: „Það er mikið ánægjuefni að geta byrjað að skipuleggja starf EDIH. Starfið verður unnið í samstarfi margra aðila, þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Saman og með hjálp nýjustu tækni á sviði snjallvæðingar eins og skynsamlegri notkun gervigreindar munum við skapa hér mannúðlegt og hagsælt samfélag.“


Jón Atli Benediktsson prófessor, rektor Háskóla Íslands: „Það er frábært tækifæri fyrir Háskóla Íslands að gegna lykilhlutverki í EDIH-IS með því að nýta færni á sviði ofurtölva og gervigreindar til að örva hagnýtingu stafrænnar tækni í iðnaði á Íslandi og hjá evrópskum samstarfsaðilum Íslands.“ Þess má geta að Morris Riedel prófessor og Hafsteinn Einarsson lektor í tölvunarfræði, báðir við Háskóla Íslands, munu vinna í verkefninu með litlum og meðalstórum fyrirtækjum í þverfaglegu teymi vísindamanna við skólann. Markmið þeirra verður að styðja fyrirtæki við að verða samkeppnishæfari í viðskiptum sínum og framleiðsluferlum tengdum vörum og þjónustu sem notar nýja stafræna tækni.


Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og rektor Háskólans í Reykjavík, segir tilkomu Miðstöðvar um snjallvæðingu mikið fagnaðarefni: „ESB veitir verkefninu mikilvæga næringu með styrkveitingunni. Háskólinn í Reykjavík lítur á þátttöku í stafrænni framþróun samfélagsins með stjórnvöldum, öðrum menntastofnunum og atvinnulífinu í heild sinni sem mikilvægan þátt í starfsemi sinni.“ Ragnhildur kveður HR skapa og miðla þekkingu um stafrænar lausnir alla daga og að nýsköpun sé rauður þráður gegnum alla starfsemi skólans. „Miðstöð snjallvæðingar verður ásamt Auðnu tæknitorgi einn af helstu samstarfsaðilum Háskólans í Reykjavík á þessu sviði og við erum hreykin af því að taka þar annars vegar þátt í undirbúningi samfélagsins fyrir framtíðina og hins vegar að auka skilvirkni og stafræna valdeflingu fólks í samtímanum.“