Fréttasafn13. okt. 2020 Almennar fréttir Framleiðsla Starfsumhverfi

Mikið ójafnræði fyrir íslenska áfengisframleiðendur

Samtök iðnaðarins gera alvarlega athugasemdir við þær takmarkanir sem felast í frumvarpi um breytingar á áfengislögum sem takmarka framleiðendur að fá framleiðslusöluleyfi fyrir sterkara áfengi en sem nemur 12% af hreinum vínanda að rúmmáli og framleiðslusöluleyfið taki einungis til áfengis gerjað úr möltuðu og ómöltuðu korni. Samtökin segja takmarkanirnar feli í sér mikið ójafnræði fyrir fjölda íslenskra áfengisframleiðenda og hindri samkeppni innlendrar verslunar við þá erlendu sem sé þvert á þær nauðsynlegu breytingar sem fjallað sé um í frumvarpinu um að tryggja jafnræði og samkeppni innlendrar verslunar við þá erlendu. Þetta kemur fram í umsögn SI um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, mál nr. 200/2020. 

Íslenskir áfengisframleiðendur fái einnig að auglýsa líkt og erlendir

Í umsögninni segir að Samtök iðnaðarins séu hlynnt auknu frelsi í viðskiptum og eigi það einnig við um viðskipti með áfengi. Sú skoðun byggi hins vegar alfarið á þeirri grundvallarforsendu að markaðslögmál séu látin ráða för og íslenskum framleiðendum sé gert kleift að auglýsa vöru sína. SI leggi ríka áherslu á mikilvægi þess að ef ráðist verði í slíkar breytingar, sem um getur í drögum þessum, að samhliða verði gagngerar breytingar á 20. gr. laganna sem fjalla um auglýsingar áfengis og undanþágur. Í umsögninni segir að íslenskir framleiðendur sitji ekki við sama borð og erlendir áfengisframleiðendur sem hafi greiðan aðgang að íslenskum neytendum í gegnum auglýsingar og geri SI þá kröfu að innlendir framleiðendur geti einnig keppt á jafnræðisgrundvelli við innflutta vöru. Þá segir í umsögninni að markmið frumvarpsins sé ekki að opna á rekstur áfengisverslana eða leyfa smásölu áfengis og benda Samtök iðnaðarins á að erfitt geti reynst fyrir löggjafann að koma í veg fyrir slíkt. 

500 þúsund lítra mörk útiloka framleiðendur

Einnig segir í umsögninni að SI fagni fyrirætlan frumvarpsins enda ljóst að mikil gróska sé í handsverksbrugghúsum um allt land og stuðlað að atvinnutækifærum og störfum í öllum landshlutum. SI telja að það kunni að skjóta skökku við að hafa efri mörk fyrir útgáfu framleiðsluleyfis sem er tiltekið í frumvarpinu 500 þúsund lítrar. Þrátt fyrir að langstærsti hluti framleiðenda sem frumvarpið eigi að ná yfir framleiði undir 200 þúsund lítrum á ári þá séu handverksbrugghús sem framleiði meira en mörk frumvarpsins geri ráð fyrir. Slík mörk munu því útiloka þá framleiðendur og í sumum tilfellum reynast hvati fyrir önnur að framleiða ekki meira en tiltekin mörk. Þá segir í umsögninni að SI velti þeirri spurningu upp hvort ekki væri skynsamlegra að veita framleiðslusöluleyfi á grundvelli seldra lítra á framleiðslustað. Með slíku yrði komið í veg fyrir að neikvæður hvati myndist fyrir framleiðendur að fara yfir tiltekin mörk, hvort sem í slíku myndi felast að draga úr framleiðslu með tilheyrandi áhrifum á nærumhverfi, til að mynda með fækkun starfa eða að skipta framleiðslu upp í framleiðslueiningar.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 13. október 2020.