Mikil aðsókn að iðnnámi en vísa þarf frá hátt í 1.000
Fyrir nokkrum árum síðan þá var staðan sú að aðsókn að iðnnámi var ekkert sérstaklega mikil en það varð mikil breyting á þannig að núna síðustu árin hafa 600 til 1.000 verið vísað frá náminu á hverju ári. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þar sem rætt er um stöðu iðnnáms á landinu. „Það er áhugavert að segja frá því að árið 2020 fórum við hjá Samtökum iðnaðarins í samstarf við menntamálaráðuneytið, Samtök íslenskra sveitarfélaga og verkmenntaskólana hringinn í kringum landið um nokkrar aðgerðir til þess að bæta aðsóknina, til að kynna möguleikana, tækifærin sem felast í iðnnáminu og bíða þegar náminu lýkur en líka að fara í kerfislegar umbætur sem ráðuneytið leysti mjög vel undir forystu Lilju Alfreðsdóttur. Þetta tókst mjög vel og aðsóknin jókst alveg gríðarlega en þá var einmitt næsta mál að þá var ekki til pláss.“
Mikill skortur á iðnmenntuðu fólki
Þegar Sigurður er spurður hvort vanti iðnaðarmenn á Íslandi segir hann það vera svo sannarlega. „Við þekkjum það öll að það er erfitt að fá iðnaðarmenn til dæmis í verkefni heima fyrir. Við hjá Samtökum iðnaðarins spyrjum reglulega okkar félagsmenn að því hvort að það skorti starfsfólk og þá hvernig starfsfólk. Undantekningarlaust er mikill skortur á iðnmenntuðu fólki.“ Hann segir að skorturinn sé mest í byggingargreinunum heilt yfir, en það sé gríðarlegur skortur til dæmis píparar, rafvirkjar, múrarar, járniðnaðarmenn og málmiðnaðarmenn. „Þarna eru mikil tækifæri. Þetta eru vel launuð störf og iðnaðurinn er allt öðruvísi en fólk sér fyrir sér.“
Vantar húsnæði og fjármagn
Sigurður segir að flöskuhálsinn sé fyrst og fremst sá að það vanti húsnæði og það vanti fjármagn frá ríkinu. „Það voru mjög góðar fréttir í fyrra þegar að Ásmundur Einar þáverandi menntamálaráðherra fór hringinn í kringum landið og gerði samninga við sveitarfélögin um það að stækka verknámsskólana, byggja við. Það skiptir alveg lykilmáli til þess að geta tekið við fleirum. Þegar þær framkvæmdir eru yfirstaðnar þá þarf að tryggja fjármuni til að taka við fleiri nemendum.“ Hann segir að stæra einstaka verkefnið séu nýjar höfuðstöðvar fyrir Tækniskólann sem sé stærsti framhaldsskóli landsins með á þriðja þúsund nemendur. „Nú er unnið hörðum höndum að því að byggja nýjar höfuðstöðvar hans í Hafnarfirði. Það er gríðarleg bót fyrir iðnnám. Við getum sagt að þetta verði flaggskip iðnmenntunar á Íslandi þegar sú bygging verður tekin í notkun eftir um 5 ár eða svo.“
Tæknin leysir ekki allt því það þarf alltaf fólk sem kann til verka
Þegar talið berst að gervigreind og annarri tækni segir Sigurður að við munum alltaf þurfa á iðnmenntuðu fólki að halda. „Það er eitthvað sem tæknin getur ekki leyst fyrir okkur að öllu leyti. Tæknin er auðvitað að þróast og við sjáum miklar framfarir í þessum greinum en það breytir því ekki að það þarf alltaf fólk sem að kann til verka.“ Hann segir að það sjáist líka til dæmis í tengslum við orkumálin. „Forstjóri Landsvirkjunar hefur talað um það að mesta uppbyggingarskeið í sögu Landsvirkjunar sé fram undan á næstu árum. Við þekkjum það hvernig staða innviðanna er. Það þarf að fara í stórátak til þess að fara í vegagerð á Íslandi. Það þarf fleiri íbúðir og svo framvegis. Allt kallar þetta á iðnmenntað fólk.“
Gríðarleg tækifæri sem felast í iðnnámi
Þegar Sigurður er spurður hvaða skilaboð hann hafi til nemenda sem eru að velja næstu skref eftir grunnskóla segir hann að stóra málið fyrir hvern einstakling sé að velja með hjartanu og gera það sem viðkomandi brenni fyrir. „En hafandi sagt það þá eru gríðarleg tækifæri sem felast í iðnnámi og að því loknu vegna þess að bæði getur fólk farið og starfað við iðnað og er þá komið miklu fyrr út á vinnumarkaðinn en aðrir sem fara í háskólanám eða lengra nám. En síðan eftir þær breytingar sem hafa orðið á kerfinu að þá er búið að opna á aðgengi iðnmenntaðra að háskólum þannig að því fer fjarri að iðnnám loki einhverjum dyrum hvað varðar frekara nám.“
Á vef Vísis er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.
Bylgjan, 23. apríl 2025.