Fréttasafn



6. des. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Mikil gróska í hátækni- og hugvitsgeiranum

Síðastliðin ár hefur mikil gróska verið í hátækni- og hugvitsgeiranum, sem er mikilvægur og sveiflujafnandi vöxtur fyrir íslenskan stöðugleika og lífsgæði. Hugverka- og hátæknifyrirtækjum (fyrirtæki sem byggja starfsemi sína fyrst og fremst á rannsóknum og þróun) hefur fjölgað um 20% frá hruni. Þetta segir Tryggvi Hjaltason hjá CCP og formaður Hugverkaráðs SI í grein sinni í Morgunblaðinu. Yfirskrift greinarinnar er Hvernig getum við verið viss um að ekki fari allt á hliðina í næstu óvæntu sveiflu hagkerfisins?. Hann segir að þessi fyrirtæki myndi nú nýja fjórðu stoð í hagkerfinu sem sé orðin á stærð við sjávarútveg þegar kemur að vergri landsframleiðslu með um 7% hlut. Á sama tíma hafi rekstrartekjur og framleiðsluverðmæti þessara fyrirtækja nær tvöfaldast. Störf í hátækni- og hugverkaiðnaði séu nú um 13 þúsund en þetta séu eftirsótt hálaunastörf sem hafi einnig eina hæstu framleiðnina. Upplýsinga- og tæknistörf veiti t.a.m. að jafnaði 20% hærri laun en meðallaun á Íslandi. Aukið R&Þ skili sér gjarnan í mikilli framleiðniaukningu í öðrum greinum, t.d. sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkutengdum iðnaði. 

Þá segir Tryggvi að vöxturinn hafi hins vegar ekki verið nógu hraður og þótt íslensk fyrirtæki hafi verið að hlaupa hratt í uppbyggingu þá hafi heimurinn að mörgu leyti verið að hlaupa hraðar. Það sé hægt að orða þetta þannig að vopnakapphlaup sé í gangi í dag meðal háþróaðra ríkja til að tryggja að hátæknistoðin vaxi sem hraðast í hverju hagkerfi vegna þess að skilningur sé á því að þetta sé líklegasta stoðin til að bera uppi vaxandi útgjöld og aukna þróun í stórum lykilkerfunum eins og heilbrigðis- og menntakerfum. Hann segir mikinn fjölda nýrra hátækni- og hugverkafyrirtækja hafa orðið til á undanförnum árum en ekki hafi gengið nógu vel að koma mörgum þeirra upp úr hinu erfiða vaxtarstigi í það að verða stöðug langtímafyrirtæki og burðarstoðir í íslensku atvinnulífi. 

Í grein Tryggva kemur jafnframt fram að stjórnvöld hafi lagst í umfangsmikla vinnu og samtöl við þessi fyrirtæki og íslenska frumkvöðla á undanförnum tveimur árum í tengslum við að smíða nýja nýsköpunarstefnu sem kynnt hafi verið í október í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Í þeirri vinnu hafi komið í ljós að helstu áskoranir sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í þessum efnum séu aðgangur að vaxtarfjármagni og sérfræðiþekkingu og öflugri hvatar til rannsókna og þróunar á stórum skala líkt og helstu samanburðarríki okkar bjóða. 

Morgunblaðið / mbl.is, 5. desember 2019.

Morgunbladid-06-12-2019