Fréttasafn



7. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikil gróska í iðnaði

Af nýbirtum tölum Hagstofunnar um fjölda launþega má glögglega sjá þá miklu grósku sem hefur verið í iðnaði á síðustu árum. Undirstrika tölurnar þátt greinarinnar í að ná niður atvinnuleysi á tímabilinu en atvinnuleysið var eitt helsta böl íslensks samfélags eftir efnahagsáfallið 2008. Einnig benda tölurnar til þess að þáttur iðnaðar í hagvexti á þessum tíma hafi verið mikill. 

Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð í mikilli uppsveiflu

Heildarfjöldi launþega í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var 10.700 á síðasta ári samanborið við 7.200 árið 2012 þegar uppsveiflan í þeirri grein hófst og fjárfesting í hagkerfinu fór að vaxa að nýju í þessari uppsveiflu. Fjölgunin er 3.500 eða tæplega 15% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Hefur fjölgunin haldið áfram á þessu ári en að meðaltali hafa 11.500 starfað í greininni á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs sem er 17,6% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Vöxturinn í þessari grein vegur 22% af heildarfjölgun launþega í öllum atvinnugreinum hagkerfisins á þessum tíma en umfang greinarinnar á þann mælikvarða aukist í uppsveiflunni. Undirstrikar það stóran þátt greinarinnar í hagvextinum um þessar mundir.  

Mikið hefur hvílt á byggingariðnaðinum í uppbyggingu innviða hagkerfisins sem hefur verið grundvöllur þess mikla vaxtar í þjónustuútflutningi sem einkennt hefur þessa uppsveiflu. Hafa fyrirtæki í greininni, svo dæmi sé tekið, staðið í ströngu undanfarið við uppbyggingu gistirýmis fyrir ferðamenn og íbúðarhúsnæðis til að mæta almennri fólksfjölgun í landinu sem fylgt hefur uppsveiflu hagkerfisins. Hefur greinin auk þess verið í stórum verkefnum á sviði fjárfestinga atvinnuveganna á þessum tíma.

Tækni- og hugverkaiðnaður umfangsmikill

Tækni- og hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en launþegar voru 13.000 í þeirri grein á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Um er að ræða 7,2% af heildarfjölda launþega í landinu og undirstrikar það mikilvægi greinarinnar fyrir hagkerfið allt. Hefur störfum í þeirri grein iðnaðar fjölgað um 1.600 síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu. Um er að ræða 6,1% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu.  

Tækni- og hugverkaiðnaður hefur bæði beint og óbeint verið þáttur í þeim vexti gjaldeyristekna sem drifið hefur núverandi hagvaxtarskeið. Þjónusta við mikla fjölgun ferðamanna hvílir, svo dæmi sé tekið, að stórum hluta á þessari grein. Einnig hefur greinin verið sjálfstæð uppspretta aukinna gjaldeyristekna.

Framleiðsluiðnaður stór þáttur í gjaldeyrissköpuninni

Síðast en ekki síst hefur gróskan verið umtalsverð í framleiðsluiðnaðinum síðustu ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 17.000 launþegar í þeirri grein á síðastliðnu ári ef frá er tekinn fiskiðnaður. Hefur launþegum í þessari grein fjölgað um 2.000 síðan hagkerfið fór að taka við sér árið 2010. Er vægi þessa vaxtar af heildarfjölgun starfa í hagkerfinu á þessum tíma nálægt því að eitt að hverjum tíu störfum sem skapast hafa í hagkerfinu á þeim tíma verið í framleiðsluiðnaði.

Framleiðsluiðnaður er stór þáttur í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins bæði beint og óbeint. Umfang greinarinnar í útflutningi stóriðju á þessu sviði er mikið eða tæplega 18% heildargjaldeyristekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru og þjónustu á síðasta ári en auk þess er annar útflutningur iðnaðarvara umtalsverður eða ríflega 9%. Við má síðan bæta óbeinu framlagi greinarinnar á þessum vettvangi en hluti gjaldeyristekna af ferðamönnum sem hingað koma fara í kaup á íslenskri iðnaðarframleiðslu t.d. á sviði matvæla. Hluti gjaldeyristekna vegna þess mikla vaxtar sem verið hefur í ferðaþjónustu í þessari efnahagsuppsveiflu hefur því verið með þeim hætti í framleiðsluiðnaði. Hátt raungengi krónunnar um þessar mundir vegur hins vegar að samkeppnisstöðu og markaðshlutdeild þessara greina gagnvart erlendum aðilum og dregur þannig úr vexti þeirra og umfangi.    

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI

ingolfur@si.is, s. 8246105.