Fréttasafn



16. jan. 2018 Almennar fréttir Menntun

Mikil nýsköpun í skólastarfi Tækniskólans

Stjórnendur Tækniskólans tóku vel á móti framkvæmdastjóra SI, Sigurði Hannessyni, og sviðsstjóra rekstrar SI, Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur í morgun. Í heimsókn sinni fengu þau Sigurður og Ingibjörg Ösp að fylgjast með nemendum í hinum ýmsu greinum sinna námi sínu. Tækniskólinn sem er stærsti framhaldsskóli landsins, byggir á langri og merkri sögu sem tengist atvinnulífi landsins á marga vegu. Í skólanum eru á þriðja þúsund nemendur í fjölbreyttum greinum eins og margmiðlun, skipstjórn, flugnámi, bóknámi til stúdentsprófs og hefðbundnum iðngreinum svo dæmi séu tekin.  Þannig kennir skólin greinar bæði á framhalds- og háskólastigi. Samtök iðnaðarins auk SFS, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur standa að rekstri skólans. 

Áhersla er lögð á þróun og nýsköpun í skólastarfinu enda verður það á næstu misserum mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Samhliða fjórðu iðnbyltingunni og tilheyrandi tækniframförum bíður það verkefni að undirbúa nemendur undir störf framtíðarinnar sem ekki eru þekkt. Menntakerfið þarf að mæta betur þörfum atvinnulífsins svo einstaklingurinn fái starf við hæfi og fyrirtæki fái starfskraft með viðeigandi þekkingu og hæfni. Í náminu þarf því að vekja áhuga á tækni og auka vitneskju um tækniþróun, skapandi hugsun, greiningarhæfni og lausnamiðaða nálgun. Þess má geta að fjölmargir útskrifaðir nemendur skólans hafa tekið þátt í vinnu við gerð kvikmynda frá Hollywood. 

Á myndinni eru talið f.v. Guðmundur Kristjánsson, varaformaður stjórnar Tækniskólans, Þór Pálsson, aðstoðarskólameistari, Bolli Árnason, formaður stjórnar Tækniskólans, Halldór Hauksson, áfangastjóri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri rekstrar SI, Björg Jónsdóttir, fjármálastjóri, og Jón B. Stefánsson, skólameistari. 

Taekniskolinn-4Verkefnamiðað nám með tengsl við atvinnulífið

Umtalsverð nýsköpun í skólastarfi er stunduð í Tækniskólanum og hefur skólinn þannig nýtt þau tækifæri sem felast í lögum um framhaldsskóla varðandi sameiginleg markmið en sveigjanleika í leiðum að þeim markmiðum. Dæmi um slíka nýsköpun er námsleiðin K2 sem er bóknám til stúdentsprófs og var hönnuð frá grunni til að mæta breyttum aðstæðum í heimi örra tæknibreytinga og höfða til sterkra námsmanna. Brautin er þriggja ára nám og var annar árgangurinn innritaður síðasta haust. Námið er verkefnamiðað og nemendur þjálfaðir í lausnaleit auk þess sem mikið er lagt upp úr tengslum við atvinnulífið. Nemendum í K2 gefst svo tækifæri til að taka valáfanga í iðngreinum og dýpka þannig þekkingu sína og skilning á tækni. Þessi aðferðafræði krefst á margan hátt meira af nemendum og býr þá betur undir störf á vinnumarkaði.

 

 

Taekniskolinn-5Kennsla í opnum vinnurýmum

Annað dæmi um vel heppnaða þróun í skólastarfi Tækniskólans er opnun á rýmum sem notuð er til verklegrar kennslu og verkefnabinda námið og þar með námshraða nemenda.  Með því að opna vinnurými hefur gefist tækifæri til þess að blanda nemendum sem eru á ólíku stigi í námi auk þess sem húsnæði er opið fram á kvöld svo nemendur geti haldið áfram vinnu að loknum hefðbundnum vinnutíma og geti unnið verkefni þegar þeim hentar. Áhugi nemenda er þannig virkjaður sem skilar sér í árangri.





Sérsniðið námskeiðahald fyrir atvinnulífið

Tengsl Tækniskólans við atvinnulífið er einkennandi fyrir starf skólans. Þessi tengsl snúa bæði að verkefnavinnu sem fram fer í tengslum við nám, heimsóknir nemenda í fyrirtæki og vinnustaðanám. Eins hefur skólinn í vaxandi mæli átt í virku samstarfi við ólíka aðila atvinnulífsins um sértækt samstarf sem jafnan snýr þá að sérsniðnu námskeiðahaldi, afnotum af búnaði s.s. flug- og skipshermum. 

Taekniskolinn-2


Taekniskolinn-3