Fréttasafn



5. maí 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Mikil tækifæri í íslenskum matvælum og heilsuefnum

Lærum ef reynslunni - staða og horfur í rekstri frumkvöðlafyrirtækja á sviði matvæla og heilsuefna á Íslandi er heiti á nýrri skýrslu sem gefin er út í samstarfi Íslenska sjávarklasans, Matarauðs Íslands, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að aldrei áður hafi jafn mörg ný fyrirtæki á sviði matvæla- og heilsuefnaframleiðslu litið dagsins ljós hérlendis eins og undanfarin ár. Fjöldi nýsköpunarfyrirtækja á þessu sviði sé vísbending um að mikil tækifæri séu til vaxtar fyrir íslenskt atvinnulíf um allt land í matvælaframleiðslu. Á tímum heimsfaraldurs af völdum COVID-19 hafi berlega komið í ljós mikilvægi fæðuöryggis fyrir þjóð eins og Íslendinga. Um leið og sjónum sé beint að innlendri matvælaframleiðslu sést sú mikla gróska sem sé í þessari atvinnugrein. Ekki síst eigi það við um fjölmarga nýja sprota í matvæla- og heilsuefnaframleiðslu.

Í skýrslunni ritar Sigurður Hannesson, framkvæmastjóri SI, ávarp undir yfirskriftinni Ísland er forðabúr. Þar segir hann meðal annars að um aldir hafi Ísland verið forðabúr og landsmenn lifað á gæðum hafs og lands og afurðir verið mikilvægar til útflutnings. Hann segir frumkvöðlastarfsemi á sviði matvæla og heilsuefna  blómlega eins og fram komi í skýrslunni. Margt hafi tekist vel en ýmislegt megi gera betur og fari vel á því að greina það og bæta síðan úr þannig að nýir sprotar geti betur vaxið og gefið af sér. Innan Samtaka iðnaðarins séu 1.400 fyrirtæki í ólíkum greinum iðnaðar, stór fyrirtæki og smá. Mörg fyrirtæki á sviði matvælaiðnaðar séu innan raða samtakanna af öllum stærðum og um land allt. Hann segir þessa skýrslu geta orðið mikill innblástur og hvatning fyrir sprota á sviði matvæla – jafnt sem aðra sprota – að sækja fram og vinna að umbótum sem skili auknum verðmætum.

Aðgerðir sem geta eflt nýsköpunarfyrirtækin 

Í skýrslunni er birtur listi yfir 10 aðgerðir sem eflt geta nýsköpunarfyrirtæki í matvælum og heilsuefnum:

  1. Skoða þarf hvort auka megi undanþágur nýsköpunarfyrirtækja til að greiða opinber gjöld um einhvern tíma og þá ekki síst gjöld tengd starfsfólki.
  2. Borið hefur á þekkingarleysi í tollafgreiðslu ESB ríkja í sambandi við stöðu EES ríkja sem leitt hefur til kostnaðar og tafa. Utanríkisráðuneytið þarf að auka upplýsingagjöf til ESB um þessi mál.
  3. Auka þarf styrki til að vinna að markaðs- og sölumálum erlendis. Skoða ber hvort hvetja megi til samstarfs fyrirtækja í útflutningi með slíkum styrkjum.
  4. Áfengislöggjöfin þarfnast endurskoðunar. Horfa þarf sérstaklega til minni framleiðenda í lögunum og hvernig megi bæta stöðu þeirra m.a. í tengslum við matarferðaþjónustu.
  5. Eftirlitsiðnaðurinn er mikilvægur en það skortir gegnsæi, samstarf má auka á milli iðnaðar og eftirlitsstofana og setja skýrari vinnureglur.
  6. Skoða ber hvernig efla megi útflutning með sameiginlegu vörumerki, ráðgjafaneti um útflutning og nánari samvinnu fyrirtækja.
  7. Flutningskostnaður innanlands og á milli Íslands og annarra landa er íþyngjandi og skoða ber hvernig megi lækka hann fyrir frumkvöðlafyrirtæki.
  8. Stuðningur við matarfrumkvöðla hjá Matís hefur reynst vel en huga þarf að því að koma upp öflugra atvinnueldhúsi og annarri aðstöðu fyrir matarfrumkvöðla sem verði samnýtt af fyrirtækjum.
  9. Skoða ber hvernig hægt er að einfalda stofnun matvælafyrirtækja hérlendis en svo virðist sem það sé umtalsvert flóknara en í mörgum samkeppnislöndum.
  10. Vekja þarf áhuga fjárfesta á þátttöku í matvælafyrirtækjum og skoða hvort hægt er að beita einhverjum skattalegum aðgerðum til þess.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.