Fréttasafn11. jan. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Mikill áhugi á fræðslufundi SI um nýja flokkun mannvirkja

Mikill áhugi var á  fræðslufund SI um nýja flokkun mannvirkja sem fram fór í síðustu viku en 150 þátttakendur voru skráðir á fundinn. Um er að ræða nýjar breytingar á byggingarreglugerð sem nú hafa tekið gildi en um er að ræða reglugerð nr. 1321/2021 sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum og á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Herdís Hallmarsdóttir, teymisstjóri og staðgengill framkvæmdastjóra á sviði Öryggis mannvirkja hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, fór á fundinum yfir breytingarnar og forsögu þeirra en Herdís leiddi vinnu starfshóps sem útfærði umræddar breytingar. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var fundarstjóri.

Á fundinum kom m.a. fram að tillögurnar um flokkun mannvirkja voru unnar af starfshópi skipuðum af félagsmálaráðherra. Við gerð tillagna hópsins var litið til annarra Norðurlanda og var niðurstaðan sú að flokka skyldi mannvirkjagerð í þrjá svokallaða umfangsflokka. Starfshópurinn hafði að leiðarljósi það markmið að gera umsóknarferlið einfaldara og eftirlit hnitmiðaðra. Einnig horfði starfshópurinn til skýrslu OECD um samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar, þar sem lagt var til að markmiðsnálgun yrði beitt við setningu reglna í byggingariðnaði. Þessar breytingar koma auk þess í kjölfar tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði.

Fundur-um-flokkun-mannvirkja

Helstu breytingar eru að samkvæmt nýjum kafla 1.3 flokkast mannvirki og mannvirkjagerð nú í þrjá umfangsflokka eftir eðli, umfangi og samfélagslegu mikilvægi; umfangsflokk I (geymslur, bílskúrar, sumarhús o.fl.), umfangsflokk II (flest mannvirki, s.s. einbýlishús og fjölbýlishús) og umfangsflokk III (stór fjölbýlishús, sjúkrahús, skólar, virkjanir o.þ.h.).

Ljóst er að um nýtt verklag er að ræða og því voru miklar vangaveltur um í hvaða flokki einstaka verkþættir koma til með að falla. Á fundinum kom fram að það væri helst spurningar um verkþætti sem varða viðhald og viðbætur.

Á fundinum kom skýrt fram, bæði af hálfu Samtaka iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, að umræddar breytingar væru jákvætt fyrsta skref. Verkefnahópurinn sem vann að umræddum breytingum lagði í lok verkefnisins fram minnisblað til ráðherra þar sem hann var hvattur til að ganga enn lengra við breytingar á lögum um mannvirki og byggingarreglugerð og innleiða umrædda flokkun enn frekar. 

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.