Fréttasafn31. jan. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikill hagvöxtur en engin framleiðniaukning

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag:

„Framleiðni skiptir ekki öllu, en til lengri tíma litið skiptir það nánast öllu. Geta landsins til að bæta lífskjör yfir tíma byggist nánast eingöngu á því að auka afköst á hvern starfsmann,“ sagði hinn kunni hagfræðingur Paul Krugman árið 1994. Framleiðni er lykilhugtak hagfræðinnar og má segja að það sé hornsteinn hagvaxtafræð- anna. Framleiðni vísar til þess hvernig fyrirtæki eða hagkerfi í heild sinni geta aukið afköst sín og skilvirkni. Einfaldast er að horfa á verðmæti sem sköpuð eru á hverja vinnustund. Framleiðni er þá breytingin á verðmætasköpun yfir tímabil. Afar sterk tengsl eru á milli framleiðni og lífskjara og skýra má að miklu leyti efnahagslega stöðu þjóða með framleiðni. 

Óumdeilt er að hagvöxtur á Íslandi síðustu ár hefur verið afar mikill og lífskjör á alla efnahagslega mælikvarða hafa aldrei verið meiri. Hins vegar hefur framleiðni á Íslandi lítið breyst síðustu 4-5 ár. Sú staðreynd virðist vera í beinni mótsögn við viðurkenndar kennisetningar hagfræðinnar. Hvernig má það vera að við séum að ganga í gegnum eitt lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar á sama tíma og framleiðni stendur í stað? Það eru nokkrar ástæður fyrir því að hagvöxtur og verðmætasköpun geti aukist án þess að framleiðni vaxi. Hins vegar mun það tæpast ganga til lengdar. Hagvöxtur í náinni framtíð mun þurfa að hvíla á öðrum stoðum en þeim sem skýra þetta frávik. En hver eru þau? 

Á meðan afköst á hvern vinnandi mann hafa staðið í stað hefur mikið innflæði verið af fólki til landsins. Í fyrra komu a.m.k. 3.000 fleiri til landsins en fluttu frá því. Þetta fólk er hingað komið til að vinna. Þannig eru fleiri vinnandi hendur á bak við verðmætasköpunina en ekki aukin gæði vinnunnar. Ennfremur þýðir hraður vöxtur í fjölda starfandi í atvinnugrein jafnan í för með sér að framleiðni vex ekki eða jafnvel minnkar. Ástæðan er einföld – fleiri nýliðar að störfum og erfiðara skipulag. 

Aukin atvinnuþátttaka eykur að jafnaði verðmætasköpun án þess endilega að framleiðni fólks aukist. Jafnvel mætti færa rök fyrir hinu gagnstæða þar sem mannauður þeirra sem áður voru ekki virkir á vinnumarkaði kann að vera minni en þeirra sem voru starfandi fyrir. Atvinnuþátttaka hefur verið að vaxa jafnt og þétt síðustu ár sem skýrist einfaldlega af því að hinn spennti vinnumarkaður sogar allar vinnufærar hendur til sín, líka þá sem áður áttu erfitt með að fá vinnu. Einnig má nefna að þegar mikil spenna er á vinnumarkaði og nægt framboð starfa er fórnarkostnaður þess að missa vinnu minni. Þetta getur valdið minnkandi framleiðni þar sem skaðsemi vinnumissis er minni en ella. 

Miklar breytingar í samsetningu vinnuaflsins eftir atvinnugreinum getur líka haft áhrif. Algengt er að framleiðni vaxi þegar fólk flyst úr greinum sem hafa lægri framleiðni yfir í greinar með meiri framleiðni. Dæmi um þetta á Íslandi er þegar bændum fækkaði og fóru í auknum mæli að vinna í iðnaði og sjávarútvegi og þar með jókst heildarframleiðni. En því miður eru vísbendingar um að hið gagnstæða geti verið að gerast á Íslandi vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað upp á síðkastið. Mikil fjölgun hefur verið í greinum tengdum ferðaþjónustu á sama tíma og fjöldi starfandi í öðrum greinum hefur staðið í stað eða fækkað. Almennt er framleiðniaukning í þjónustustörfum lág. 

Nýting nýrra og áður ónýttra auðlinda eykur verðmætasköpun en þarf ekki að auka framleiðni. Nátt- úra landsins er sú auðlind sem við erum að nýta í auknu mæli. Birtingarmynd þess er fjölgun erlendra ferðamanna. Til marks um þennan fjölda má benda á að fjölgun ferðamanna á árinu 2016 frá árinu á undan var meiri en heildarfjöldi ferðamanna sem heimsótti Ísland árið 2011. Þau umsvif sem fylgja þessum fjölda hafa mikil áhrif á gang efnahagslífsins og auka hagvöxt án þess endilega að framleiðni vaxi. 

Engin ástæða er til að ætla annað en að til lengdar þurfi framleiðni og hagvöxtur hérlendis að haldast í hendur líkt og Paul Krugman benti á. Það þýðir að breytingar þurfa að verða. Náttúra landsins er takmörkuð auðlind. Erlendum ferðamönnum getur tæplega fjölgað endalaust þótt uppgangur greinarinnar hafi sannarlega verið jákvæður fyrir efnahag landsins. En næsti búhnykkur þjóðarbúsins þarf að byggjast á aukinni framleiðni. Því þarf jarðvegur og starfsskilyrði framleiðslu-, tækni- og hugverkafyrirtækja að batna til að hægt verði að leggja grunn að framleiðnidrifnum hagvexti sem styður við aukinn útflutning.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI.

Morgunblaðið, 31. janúar 2017.