Fréttasafn



7. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Mikilvæg viðbótarvernd einkaleyfa samheitalyfja

Brýnt er fyrir samkeppnishæfni íslenskra samheitalyfjaframleiðanda að fá undanþáguákvæðin innleidd sem fyrst í landslög til tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem nú starfa eftir strangara regluverki en samkeppnisaðilar þeirra innan Evrópu. Með þessari innleiðingu eru starfsskilyrði samheitalyfjaframleiðenda hér á landi betur tryggð og þar með útflutningshagsmunir Íslands. Einnig mun það koma í veg fyrir að störf flytjist úr landi. Þetta kemur fram í umsögn SI um áform um lagasetningu er varðar breytingar á einkaleyfalögum sem snúa að undanþágu frá viðbótarvernd einkaleyfa vegna framleiðslu og útflutnings samheitalyfja. 

Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins fagni áformunum og telji þau afar mikilvæg til að styrkja stöðu samheitalyfjaframleiðenda á Íslandi. Muni lagabreytingin leiða til þess að varðveita og fjölga störfum á Íslandi, skapa útflutningsverðmæti og efla samkeppnishæfni íslenskra samheitalyfjafyrirtækja, sem séu í harðri alþjóðlegri samkeppni.

Undanþáguákvæðið tók gildi innan ESB1. júlí 2019. Í umsögninni segir að samheitalyfjaframleiðendur á Íslandi hafi sérstaklega mikla hagsmuni af því að undanþágan gildi jafnframt á Íslandi og að frumvarpið, sem fyrirhugað sé að leggja fram, nái fram að ganga sem fyrst. Þess megi vænta að einhver tími líði þangað til sameiginlega EES-nefndin taki ákvörðun um að taka reglugerðina upp í EES-samninginn og telja samtökin að það muni skaða hagsmuni íslenskra samheitalyfjaframleiðenda að bíða þess enda séu breytingar á reglugerð ESB 469/2009 enn í skoðun hjá fastanefnd EFTA. Íslenskir samheitalyfjaframleiðendur vænti þess að þar sem önnur EFTA ríki hafi ekki jafn ríka hagsmuni og Ísland af innleiðingu reglugerðarinnar, þar sem innan hinna EFTA ríkjanna séu ekki starfandi samheitalyfjaframleiðendur, megi vænta þess að nokkur tími geti liðið þangað til reglugerðin verði tekin upp í EES-samninginn. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.