Fréttasafn21. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun

Mikilvægt að fjölga iðn- og tæknimenntuðum

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, á Fréttavaktinni á Hringbraut um hvernig menntakerfið er að mæta þörfum atvinnulífsins. Í máli hennar kemur meðal annars fram að menntakerfið geti illa svarað þörfum vinnumarkaðarins, til dæmis vanti 9.000 sérfræðinga í hugverkaiðnað og á annað þúsund rafvirkja og rafeindavirkja. 

Sigríður segir í viðtali Nínu Richter að til að bæta menntakerfið sé það helst tvennt sem þurfi að koma til, það sé annars vegar að fjölga iðnmenntuðum og hins vegar að fjölga tæknimenntuðum svokölluðum STEM eða STEAM greinum. „Það hefur margt verið gert varðandi iðnnámið og nú er aðsókn mun meiri en inn í menntakerfinu og núna er verið að vísa krökkum frá. Námið er stútfullt, það er auðvitað lúxus. Fyrir nokkrum árum síðan var ekki nóg eftirspurn eftir iðnnámi.“

Sigríður segir að samstarf stjórnvalda og Samtaka iðnaðarins hafi skipt sköpum varðandi að hvetja ungt fólk til að fara í iðnnám því þar séu tækifæri til framtíðar. „Það þarf að gera það sama varðandi tæknimenntunina, vísindi, tækninám og svo framvegis. Þarna liggja stóru tækifærin í atvinnulífinu til framtíðar.“

Þá segir Sigríður að eins og hafi komið fram á Iðnþingi 9. mars þá séu risastór tækifæri í íslenskum iðnaði framundan, bæði í hugverkaiðnaði og orkusæknum iðnaði. „Iðnaður er stærsta útflutningsstoðin á Íslandi og er að verða mun fjölbreyttari, því þurfum við fleiri tækni- og iðnmenntaða. Menntakerfið er því miður ekki að mæta þörfum atvinnulífsins núna og það þarf að gera breytingar.“ 

Þegar Sigríður er spurð út í nýtt frumvarp sem verið að leggja fram á þingi sem hefur áhrif á komu erlendra sérfræðinga til landsins segir hún að þessar breytingar sem séu fyrirhugaðar skipti mjög miklu máli. „Þetta eru mjög þýðingarmiklar breytingar til að mæta þörf atvinnulífsins fyrir vinnuafl. Sem dæmi þá þarf 9.000 sérfræðinga í hugverkaiðnaði þannig að vaxtaráform þeirra fyrirtækja nái fram að ganga næstu fimm árin.“ Hún segir að fyrirhugaðar breytingar séu stórt skref í rétta átt. „Stjórnvöld eru því að taka undir þennan málflutning og mikilvægt að laða sérfræðinga til landsins og fólk með þekkingu og reynslu. Það getur verið mjög erfitt að ráða inn sérfræðing sem er í löndum utan EES. Þetta á eftir að skipta miklu máli í því samhengi.“

Hér er hægt að horfa á viðtalið við Sigríði í heild sinni. 

Fréttablaðið/Hringbraut, 20. mars 2023.

Frettabladid.is, 23. mars 2023.