Fréttasafn2. okt. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikilvægt að hægt sé að treysta gögnum Hagstofunnar

„Mörg fyrirtæki, bæði á sviði iðnaðar og í öðrum greinum, styðjast við gögn stofnunarinnar til að meta rekstrarumhverfi sitt. Þar er oft verið að nota gögnin til að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir um stefnu og starfsemi. Því er mjög mikilvægt að gæði gagnanna séu sem allra best og að þau lýsi þróun og stöðu með réttum hætti,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í samtali við Markaðinn og bætir við að notkunin á gögnum Hagstofunnar sé víðtæk og því afar mikilvægt að hægt sé að treysta þeim en villur í hagtölum Hagstofunnar hafa verið óvenjumargar það sem af er ári og hefur stofnunin til að mynda þurft að leiðrétta tölur um landsframleiðslu tvisvar með skömmu millibili og nýlega þurfti að leiðrétta tölur um erlenda kortaveltu. 

Mjög stórar ákvarðanir byggðar á gögnum Hagstofunnar

„Þessar leiðréttingar hafa verið óvenjumargar á síðustu mánuðum. Í sjálfu sér hefur maður skilning á því að það sé ákveðin endurskoðun sem á sér stað í eðlilegu árferði, til að mynda á landsframleiðslutölum, en villurnar hafa verið umfram það sem er venjubundið.“ Hann segir Í Markaðnum að gæði opinberra gagna um þróun efnahagslífsins sé hagsmunamál fyrir iðnaðinn og aðrar greinar hagkerfisins og að mistök í útreikningum hagtalna komi sér illa fyrir Samtök iðnaðarins sem vinni að ýmsum greiningum á hagkerfinu, umhverfi íslensks iðnaðar og stöðu iðnfyrirtækja og heimila, sama megi segja um aðra aðila sem þurfi að geta treyst opinberum hagtölum, hjá fyrirtækjum, samtökum og opinberum aðilum séu teknar ákvarðanir á grundvelli þessara gagna. „Oft á tíðum er um að ræða mjög stórar ákvarðanir. Til dæmis ákvarðanir í hagstjórn landsins. Nú er til umræðu á Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár sem byggir á tölum Hagstofunnar. Þar er verið að taka ákvarðanir meðal annars um aðhaldsstig ríkisfjármála og þróun tekna og gjalda á grundvelli talna stofnunarinnar. Annað dæmi er stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sem í þessari viku tekur ákvörðun um hvort eigi að breyta stýrivöxtum bankans og tekur í því mið af tölum um hagvöxt og f leiri þætti sem frá Hagstofunni koma. Þessar ákvarðanir varða hag fyrirtækja og heimila í landinu, og verða því að byggja á góðum grunni.“ 

Mistökin grafa undan trausti til stofnunarinnar

Þegar blaðamaður spyr Ingólf hvort óvenjutíð mistök hafi grafið undan trausti til stofnunarinnar segist hann reikna með því. „Það hefur verið ansi þétt röð af mistökum hjá stofnuninni á þessu ári. Óraunhæft væri að ætla að það hafi ekki áhrif á traust á þessum gögnum.“ Takið þið birtingu hagtalna með meiri fyrirvara en áður? „Já, að vissu leyti. Við förum varlegar í að draga ályktanir af hagtölunum án þess að skoða málið betur.“ Ingólfur er einnig spurður hvaða skýringar geti legið að baki og hann svarar að hann ekki hafa svarið á reiðum höndum. „Kjarni málsins er að það þarf að koma í veg fyrir villur sem þessar í framtíðinni eins og kostur er.“

Fréttablaðið / frettabladid.is / Vísir, 2. október 2019.