Fréttasafn8. maí 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi Umhverfis og orkumál

Mikilvægt að halda áfram samstarfi við ESB

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð heldur börnum okkar og barnabörnum. Þetta skrifa formenn átta hagsmunasamtaka í grein í Morgunblaðinu í dag. Greinarhöfundar eru Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Helgi Bjarnason, varaformaður Samtaka fjármálafyrirtækja, Helgi Jóhannesson, formaður Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og Magnús Þór Ásmundsson, formaður Samtaka álfyrirtækja. 

EES-samstarfið nær ekki til nýtingu auðlinda

Í grein formannanna segir að EES-samstarfið nái ekki til nýtingar auðlinda eins og sést af því að það eru Norðmenn sjálfir sem ákveði hvernig nýta skuli olíu- eða gaslindirnar þar. Það séu Finnar og Svíar sem ákveði hvernig skuli höggva skóga hjá sér. Og það séu Íslendingar sem ákveði hvort eða hvernig nýta eigi jarðhitann, vatnsaflið eða vindinn sem stöðugt blæs. Þessar ákvarðanir séu ekki teknar af Evrópusambandinu. „EES-samningurinn er eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og hornsteinn að bættum lífskjörum almennings. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á viðskiptafrelsi sem er grundvallað á EESsamningnum. EES-samstarfið hefur fært Íslendingum mikinn ábata á liðnum aldarfjórðungi, lífskjör hafa batnað og atvinnulífið eflst. Farsælt EES samstarf, sem nú fagnar 25 ára afmæli, tryggir með fjórfrelsinu frjálsa för fólks, vöru, þjónustu og fjármagns um alla Evrópu. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst fámennum löndum eins og Ísland sannarlega er.“

Samkeppni á flestum sviðum og þar á meðal í orkusölu

Þar segir jafnframt að samstarfið nái hins vegar til þess að vörur sem eru á markaði þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtingu og tæknilega staðla á hverju sviði fyrir sig. Gert sé ráð fyrir að samkeppni ríki á sem flestum sviðum þar á meðal um orkusölu enda sé það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur. Smám saman hafi kröfur aukist um betri nýtingu orku, aukna notkun endurnýjanlegra
orkulinda og um orkusparnað. Jafnt og þétt verði loftslagsmál og orkumál samofnari enda sé notkun jarðefnaeldsneytis meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem við verðum að takast á við.

Þá segir að Íslendingar hafi sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og séu í samstarfi við Evrópulöndin um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir Íslands af þessu samstarfi séu mjög miklir og þátttaka í viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir tryggi jafna samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar og fleiri fyrirtækja hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu. Löggjöf um orku- og loftslagsmál muni halda áfram að þróast og auk löggjafar sem nú sé til meðhöndlunar á Alþingi (þriðji orkupakkinn) séu á döfinni enn frekari breytingar á lögum og reglum sem þessu sviði tengjast. Íslensk raforkulög taki þegar mið af því að Íslendingar hafi innleitt fyrsta og annan orkupakka ESB og hafi sú ákvörðun reynst farsæl hingað til.

Morgunblaðið, 8. maí 2019.

Morgunbladid-8-mai-2019