Fréttasafn



  • CRI

18. sep. 2015 Iðnaður og hugverk

Mikilvægt að innleiða tæknilausnir til að sporna við mengun

 

Í nýrri rannsókn sem birt er í tímaritinu Nature kemur fram að loftmengun í heiminum er vaxandi vandamál. Samtök skipaiðnaðarins - SSI og CleanTech Iceland - CTI leggja áherslu mikilvægi þess að draga eins og kostur er úr mengun á landi sem og sjó. Fjölmörg tækifæri liggja í tækniþróun og nýsköpun á þessu sviði sem leiðir til nýrra atvinnutækifæra og útflutnings á íslenskri tækni.

Samtökin fagna því þingsályktun sem Alþingi samþykkti fyrr í sumar og felur í sér áskorun til ríkisstjórnarinnar um að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum. Í ályktuninni er óskað eftir því að þeim tilmælum verði beint til stjórnvalda Færeyja og Grænlands að þróa og koma í framkvæmd áætlunum um skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun skipa sem stunda veiðar og sjósiglingar.

Innan raða SSI og CTI, sem starfa innan Samtaka iðnaðarins, eru fyrirtæki og framleiðendur sem leggja metnað í að bæta umhverfisáhrif skipaiðnaðarins. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að vanda umgengni á og við sjó og að vel sé farið með auðlindir landsins. „Það er mikilvægt að vekja athygli á þessu málefni og efla samstarf við erlendar þjóðir þar sem mengun sjávar er alþjóðlegt vandamál. Þá getur aukin áhersla á umhverfismál í þessum geira líka haft í för með sér efnahagslegt hagræði í rekstri og bætt samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu á alþjóðamörkuðum“, segir Þröstur Auðunsson formaður SSI.

Áhersla stjórnvalda á málaflokkinn styrkir stoðir og uppbyggingu skipaiðnaðarins og grænnar tækni hérlendis og Ísland hefur alla burði til að verða framarlega í þróun umhverfisvænna tækninýjunga á þessu sviði. „Það er mjög mikilvægt að Ísland taki þátt í þessu verkefni. Við búum yfir þekkingu og tækni sem stuðlar að því að draga úr mengandi útblæstri brennisteins frá skipum. Við framleiðum einnig umhverfisvænt eldsneyti sem losar mjög lítinn koltvísýring,“ segir KC Tran, stjórnarformaður CTI.