Fréttasafn



25. apr. 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Mikilvægt að sporna gegn göllum í nýbyggingum

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, segir í frétt Morgunblaðsins að mikilvægt sé að sporna gegn göllum í nýbyggingum. Hún segir málið alvarlegt. „Byggingargallar hafa víðtæk áhrif, þeir geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið fjárhagslegu tjóni. Þeir hafa neikvæð áhrif á ímynd greinarinnar sem er miður þar sem á markaði eru fjölmargir byggingarverktakar sem hafa mikla reynslu og halda vel utan um þau atvik sem upp koma, lagfæra þau og bæta verkferla í kjölfarið.“

Markvissar aðgerðir til að greina og fyrirbyggja galla

Jóhanna Klara segir því afar mikilvægt að farið sé í markvissar aðgerðir til að greina og fyrirbyggja galla. „Í dag sjáum við að gallar koma fram af ýmsum ástæðum. Iðnaðurinn tekur m.a. virkan þátt í mótun og eftirfylgni með Vegvísi um mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar, sem HMS hefur gefið út, en þar er byggingargöllum gefinn sérstakur gaumur. Þar er lagt upp með að safna upplýsingum um galla með kerfisbundnum hætti, til dæmis frá tryggingafélögum, verkfræðistofum og úr dómsskjölum. Þannig vonumst við til að fá loks heildstæða tölfræði og innsýn í algengustu orsakir gallanna. Við höfum hingað til ekki haft skýra yfirsýn yfir umfang þeirra, orsakir eða þróun. Þessi yfirsýn er forsenda þess að hægt sé að ráðast að rótum vandans, tryggja gæði og auka traust. Það hefur ítrekað verið bent á að án slíkra gagna sé erfitt að vinna að raunverulegum umbótum.“

Eftirlit með byggingarvörum á Íslandi

Þá segir Jóhanna Klara í frétt Morgunblaðsins að Samtök iðnaðarins vilji styðja við nálgun sem miði að því að koma í veg fyrir galla áður en þeir verði til með fræðslu, góðri hönnun, skýrara verklagi og hnitmiðaðra eftirliti. „Ég nefndi það líka að eftirliti með byggingarvörum á Íslandi hefur um árabil verið ábótavant. Þrátt fyrir að löggjöf hafi verið til staðar vantaði um langt skeið formlegt og virkt eftirlit með því hvort vörur uppfylltu þær kröfur sem þær voru sagðar gera. Það var ekki fyrr en með tilkomu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem raunverulegt eftirlitshlutverk fór að taka á sig mynd. Stofnunin hefur lykilhlutverk í að byggja upp markaðseftirlit með byggingarvörum, sinna skoðunum, krefjast úrbóta og hafa áhrif á innflutning ófullnægjandi vara. Það liggur því fyrir að þrátt fyrir tilvist regluverks á pappírum hafi framkvæmd þess verið veikburða þar til HMS tók við stjórninni og hóf að efla verklag, eftirlit og upplýsingamiðlun.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 23. apríl 2025.

Morgunbladid-22-04-2025