Fréttasafn



26. mar. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Mikilvægt að tala sama tungumálið um kostnaðaráætlanir

Yngri ráðgjafar innan Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, stóðu fyrir vel sóttum fundi um gerð kostnaðaráætlana í Húsi atvinnulífsins síðastliðinn fimmtudag. Á fundum var m.a. rætt um hvað kostnaðaráætlun er, ný verkfæri og aðferðir sem ráðgjafarfyrirtækin eru að notast við og mikilvægi þess að fylgja áætlunum eftir. Á fundinum kom meðal annars fram að mikilvægt væri fyrir alla aðila, þ.e. hönnuði, vertaka og verkkaupa, að þeir töluðu sama tungumálið þegar kemur að kostnaðaráætlunum. Í umræðu um kostnaðaráætlanir væri oft verið að bera saman epli og appelsínur og slíkt hafi leitt til tjóns, bæði fjárhagslegs tjóns og tjóns fyrir orðspor mannvirkjageirans.

Notast þarf við samskonar viðmið

Fundarstjóri var Arnar Kári Hallgrímsson, formaður Yngri ráðgjafa, en hann opnaði fundinn með því að ræða um þá óvissu sem aðilar standa frammi fyrir þegar talað væri um kostnaðaráætlanir. Hann sagði að taka þyrfti fyrir þessa óvissu og að menn byrjuðu að notast við samskonar viðmið. Arnar Kári nefndi líka að það væri mikilvægt að hönnuðir fyndu fyrir ábyrgð í tengslum við allan vinnutengdan kostnað. Ætti það bæði við gerð kostnaðaráætlana en einnig við hönnunina sjálfa og að menn ættu alltaf að hafa kostnaðargát. Þá sagði Arnar Kári að hönnuðir eigi líka að bera ábyrgð á því að talað sé með raunhæfum hætti um kostnaðaráætlanir og bera virðingu fyrir mikilvægi verkefnisins. Hönnuðir eigi að vera faglegir í þessum málum eins og í öllum þeim málum sem þeir sérhæfa sig í. Greinin viti að það sé verið að taka stórar ákvarðanir oft á grundvelli gagna sem ekki séu nægilega vel unnin. Það sé því mikilvægt að hönnuðir gera kröfur um raunhæfa tímaramma til að vinna áætlanir og að verkkaupi geri sér grein fyrir mikilvægi þeirrar vinnu fyrir framhald verksins. „Það væri því góð hugmynd að búa til leiðbeiningar um það hvað kostnaðaráætlanir eru eða jafnvel staðal,“ sagði Arnar Kári.

BIM upplýsingalíkön bjóða upp á aukna kostnaðarmeðvitund

Hjörtur Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá VSB verkfræðistofu og varaformaður BIM Ísland, fjallaði um hvernig hægt væri að vera með aukna kostnaðarmeðvitund með því að nota BIM upplýsingalíkön mannvirkja. Hann sagði að notkun BIM hafi rutt sér til rúms við hönnun mannvirkja á Íslandi og hafi þar með opnast gátt að aukinni hagnýtingu BIM á ýmsum sviðum mannvirkjagerðar. BIM býður upp á aukna kostnaðarmeðvitund í hönnun og lifandi kostnaðaráætlanir sem þróast samhliða verkefni í mótun. Hann sagði að þó væru ýmsar hindranir á veginum að aukinni sjálfvirkni, staðla þurfi vinnubrögð og aukinnar einsleitni sé þörf í líkönum.

Kostnaðargát sniðin að þörfum viðskiptavina

Elísabet Rúnarsdóttir og Helga Kristín Magnúsdóttir, sérfræðingar í kostnaðargát hjá Mannviti, fjölluðu um þá tækni og aðferðir sem notast er við hjá Mannviti varðandi gerð kostnaðaráætlanir og notkun kostnaðargátar. Þær sögðu að í upphafi verkefnis væri mikilvægt að gera kostnaðar- og tímaáætlun, en einnig væri mikilvægt að spyrja viðskiptavininn hvert markmið hans er með verkefninu og hvernig hann vilji að haldið sé utan um kostnað. „Það er mikilvægt að fá upplýsingar frá verkkaupa um hvað það er sem hann ætlar að fá út úr verkefninu. Það er ekki til nein ákveðin uppskrift af kostnaðargát heldur þarf að sníða þær nákvæmlega að þörfum viðskiptavinar.“ Í máli þeirra kom fram að Mannvit útbýr kostnaðaráætlanir úr kostnaðarbanka sem inniheldur raunupplýsingar og því nokkuð nákvæmur, ítarlegri kostnaðarupplýsingar fáist síðan með verðfyrirspurnum og tilboðum. Áætlunum er skipt upp í verkþætti og það er grundvallaratriði að því sé flaggað strax ef vísbendingar eru um að verkefnið sé á leiðinni út af sporinu. Í kostnaðargát hjá Mannviti er haldið utan um kostnaðaráætlun, áfallinn kostnað, áætlaðan lokakostnað, unnið virði, breytingar og ekki síst hið ófyrirséða. Í verkfærakistunni er m.a. forrit sem heldur utan um alla þessa þætti og hentar það fyrir lítil, miðlungs og stór verkefni.

LCC greining nýtist til að meta áhrif á rekstur mannvirkis

Eiríkur Steinn Búason og Gunnar Kristjánsson, verkefnisstjórar hjá Verkís, fjölluðu um LCC greiningar íþróttamannvirkja en með því að útfæra LCC greiningu strax í kjölfar þess að fyrsta kostnaðaráætlunin liggur fyrir, er hægt að skoða og meta valkosti út frá því hvaða áhrif valkostirnir hafa á rekstur mannvirkis. Einnig nýtist greiningin til þess að skoða strax í upphafi hver verður rekstrarkostnaðurinn á mannvirkinu og hvernig hann skiptist á milli rekstrarþátta og þá hvort hann sé innan fjárhagsmarka eigandans.

Mikilvægt fyrir greinina að sammælast um sama tungumálið

Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, fjallaði svo að lokum um gerð kostnaðaráætlana út frá sjónarmiðum verktaka. Kom hann meðal annars inn á að það væri gífurlega mikilvægt fyrir greinina að sammælast um að nota sama tungumálið í þessum efnum. Nefndi hann nokkur dæmi þar sem rangar kostnaðaráætlanir hafa verið að valda tjónu. Verktakar gefa sér langan tíma til að vinna tilboð enda á hörðum samkeppnismarkaði og eyða miklum fjármunum í þá vinnu en svo kemur í ljós að verkkaupi hefur á grundvelli rangra áætlana farið af stað með verkefni sem hann á ekki fjármagn til að fara í. Þetta veldur auðvitað tjóni fyrir alla aðila máls sem og samfélagið. „Við verðum að koma okkur saman um tungumálið sem við erum að tala. Hvað er kostnaðaráætlun í okkar huga og hvað erum við að tala um við verkkaupa með áætlun. Þetta þarf að koma sér saman um. Við verðum að byrja á því að taka á aðferðarfræðinni og koma upp samræmdri aðferðarfræði. Það eru aðilar sem hafa gert slíkt úti í heim og það ætti ekki að vera erfitt að heimfæra þær.“ Tók Sigurður dæmi um að slíkt hefur verið gert í Bandaríkjunum þar sem menn átta sig á um hvers konar áætlun er að ræða eftir því á hvaða stigi áætlunin er. Óvissuþáttum í áætlun fækkar eftir því sem verkið er lengur á veg komið í skipulagningu.

Eftir fundinn sköpuðust góðar umræður þar sem m.a. var rætt um nauðsyn þess að vinna að umbótum í þessu máli. 

Fundur-i-mars-2019-9-Arnar Kári Hallgrímsson, formaður Yngri ráðgjafa.

Fundur-i-mars-2019-2-Gunnar Kristjánsson, verkefnisstjóri hjá Verkís.

Fundur-i-mars-2019-3-Eiríkur Steinn Búason, verkefnisstjóri hjá Verkís.

Fundur-i-mars-2019-6-Elísabet Rúnarsdóttir og Helga Kristín Magnúsdóttir, sérfræðingar í kostnaðargát hjá Mannviti. 

Fundur-i-mars-2019-7-Hjörtur Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá VSB verkfræðistofu og varaformaður BIM Ísland. 

Fundur-i-mars-2019-1-Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV.

Fundur-i-mars-2019-8-