Fréttasafn13. apr. 2016 Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun

Mikilvægur stuðningur við íslenskt nýsköpunarumhverfi

Samtök iðnaðarins hafa ávallt lagt áherslu á að rekstrarumhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja þurfi að komast nær því sem gerist annars staðar til að þau nái að dafna vel og vaxa hratt. Það hefur lengi verið kallað eftir því að stjórnvöld geri viðeigandi breytingar í skattaumhverfinu til að auka samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. Samtökin fagna því nýju frumvarpi sem lagt hefur verið fram til Alþingis þar sem komið er til móts við flestar þær kröfur sem settar hafa verið fram í þessu samhengi. Frumvarpinu er ætlað að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti meðal annars með skattalegri meðferð til að laða til landsins erlenda sérfræðinga, með hækkun frádráttar vegna rannsókna og þróunar, með skattafslætti vegna hlutabréfakaupa og með breytingum á skattlagningu á kauprétti hlutabréfa og breytanlegra skuldabréfa. 

 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir frumvarpið mikilvægan stuðning við íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem mörg hver eru að starfa á alþjóðlegum mörkuðum. „Með fyrirhuguðum breytingum eru stigin stór skref í þá átt að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að auka verðmætasköpun. Við viljum því gjarnan sjá að þingmenn taki frumvarpinu fagnandi og veiti því brautargengi. Við erum stödd í einni mestu tæknibyltingu sögunnar með ótal tækifærum til að ná á alþjóðlega markaði með nýjar afurðir. Við viljum að íslensk iðnfyrirtæki taki þátt í þeirri byltingu með því að stunda öflugar rannsóknir og þróun en Ísland á í harðri samkeppni þegar kemur að rannsóknum og þróun. Við viljum standa jafnfætis keppinautum okkar út um allan heim því við vitum að samfélög sem ná að skapa nýja tækni munu skara  fram úr. Með þessum mikilvægu breytingum sem í frumvarpinu felast erum við að tryggja samkeppnishæfni, efla nýsköpun og framfarir sem kemur okkur öllum til góða með aukinni hagsæld.“