Miklar lýðfræðilegar breytingar auka íbúðaskort
Á forsíðu helgarútgáfu Morgunblaðsins kemur fram að miklar breytingar eru að verða á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar sem kallar á enn fleiri íbúðir. Baldur Arnarson, blaðamaður, ræðir við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir að það ýti undir skort á íbúðum að skipulagsyfirvöld taki ekki tillit til breyttrar aldurssamsetningar og fækkunar íbúa á meðalheimili. „Reiknað er með að íbúum landsins fjölgi um 22% fram til ársins 2040 en að íbúðum þurfi að fjölga um 33%. Við áætlum að það þurfi að byggja 45 þúsund íbúðir fyrir 2040. Það er því brýn þörf á langtímahugsun í skipulagsmálum. Það er fyrirséð að vöxtur í íbúðaeftirspurn verði langt umfram áætlaða fólksfjölgun.“ Þá þurfi að gera ráð fyrir að eftir því sem færri búi á meðalheimili þurfi fleiri íbúðir, auk lýðfræðilegra breytinga eru vísbendingar um metfjölda innflytjenda í ár og þeir þurfi einnig húsnæði.
Vanmetnar breytingar
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Ingólfur telji breytingarnar sem framundan eru séu vanmetnar í áætlunum skipulagsyfirvalda og afleiðingin sé aukinn íbúðaskortur. „Það er fyrirséð að vöxtur í íbúðaeftirspurn verði langt umfram áætlaða fólksfjölgun. Samsetning íbúanna er að breytast með tilliti til aldurs, fæðingartíðni, skilnaða og fleiri lýðfræðilegra þátta sem þarf að taka tillit til. Það nægir ekki að horfa aðeins í fjöldann heldur þarf að meta hvers konar íbúðir þarf að bjóða fram. Þetta finnst mér hafa gleymst. Menn eru alltaf að bjarga sér fyrir horn í þessu efni.“
Takmarkað framboð í Reykjavík ýtir undir íbúðaskort
Þá kemur fram í máli Ingólfs að afar takmarkað framboð af nýjum íbúðum í Reykjavík ýti undir íbúðaskortinn. „Hlutfallslegur vöxtur í íbúðaframboði í Reykjavík er sá minnsti hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Rót vandans á íbúðamarkaði hefur verið of lítið framboð. Það hefur ýtt verðinu upp langt umfram kaupmáttarvöxt. Það kemur fram í því að margt fólk getur ekki eignast húsnæði. Það er stóra myndin. Það skortir framboð og Reykjavík hefur alls ekki verið að standa sig í því.“
Þarf mun fleiri minni íbúðir
Í fréttinni kemur jafnframt fram að hlutfall þeirra sem búa einir eða í sambúð á barnlausu heimili hafi hækkað úr 46% í upphafi árs 2001 í 55% í upphafi þessa árs og meðalaldur þjóðarinnar er að hækka en hann var 38 ár í fyrra eða hærri en nokkru sinni. Hlutfall 60 ára og eldri af íbúafjöldanum hefur aukist úr tæplega 15% um aldamótin í tæplega 20% nú. „Þetta er sá hluti þjóðarinnar sem mun stækka langmest á næstu árum og áratugum. Það kallar á aðra samsetningu íbúða og mun fleiri minni íbúðir. Þetta hefur svolítið gleymst í umræðunni en hefur mótað mikið umræðuna í löndunum í kringum okkur. Þar er umræðan komin mun lengra en hér.“
Nýjum íbúum fjölgar hraðar en nýjum íbúðum
Í lok fréttarinnar kemur fram að nýjum íbúum fjölgi mun hraðar en nýjum íbúðum en í byrjun árs hafi landsmenn verið um 348.450 en íbúðirnar alls 138.182. „Sé miðað við 2 íbúa á hverja íbúð, sem er meðaltal skandinavísku landanna í fyrra, þyrfti íbúðafjöldinn að vera 174.225. Þessi munur – um 38 þúsund íbúðir – mun verða sjálfstæð uppspretta aukinnar íbúðaeftirspurnar næstu áratugi,“ segir Ingólfur í Morgunblaðinu.
Morgunblaðið, 5. maí 2018.