Fréttasafn



11. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Miklar umbætur framundan í byggingamálum

Í fréttum RÚV var rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um hugmyndir stjórnvalda um úrbætur í byggingamálum og aukna rafræna stjórnsýslu sem kynntar voru á fundi í morgun. Sigurður segir að þetta séu mögulega mestu umbætur sem hafi sést í mörg ár. Regluverkið verði einfaldað og skilvirkni aukin sem ætti að verða til þess að lækka byggingakostnað og uppbygging verði hraðari en ella. Tillögurnar snúa að byggingarmálum með auknum þætti rafrænnar stjórnsýslu og einföldun regluverks. Hann segir að tillögurnar verði til þess að einfalda kerfið, upplýsingar um markaðinn verði áreiðanlegri og meiri agi á þeim sem komi að framkvæmdum.

Mestu umbætur í byggingamálum í mörg ár

Í frétt RÚV segir að í tillögunum komi fram að rafræn stjórnsýsla eigi eftir að spara tíma, draga úr flækjustigi og auka samræmingu milli sveitarfélaga. Meðal annars sé lagt til að mannvirki verði flokkuð. Í dag séu sömu kröfur gerðar við byggingu bílskúrs og einbýlishúss annars vegar og sjúkrahúss og tónlistarhúss eins og Hörpu hins vegar. Eftirlit verði skilvirkara með því að hverfa frá hugmyndum um faggildar skoðunarstofur. Þá sé gert ráð fyrir styttri málsmeðferðartíma í ágreiningsmálum með stofnun sérstakrar úrskurðarnefndar um húsnæðis- og byggingamál. Málsmeðferðartíminn við núverandi fyrirkomulag hafi verið allt upp í tvö ár en lögboðin mörk séu þrír til sex mánuði. Bæði ESA og Umboðsmaður Alþingis hafi bent á þetta og hvatt stjórnvöld til að grípa til úrræða til að stytta málsmeðferðartímann. „En þetta ætti ekki síst að breyta og bæta menningu hjá sveitarfélögunum varðandi leyfisveitingar og ferlið allt saman. Þannig að við horfum til þess að þarna séu heilmiklar umbætur og mögulega þær mestu sem við höfum séð í byggingamálum í mörg ár,“ segir Sigurður.

Byggingagátt verði lagaskyld

Jafnframt kemur fram hjá RÚV að sveitarfélögum verði um næstu áramót lagalega skylt að taka í notkun byggingagátt, kerfi utan um byggingaframkvæmdir. Sigurður segir að fyrirkomulag talninga hjá samtökunum núna sé þannig að starfsmaður þeirra keyri tvisvar á ári um sveitarfélög í þrjár til fjórar vikur í senn til að telja íbúðir í byggingu. „Þetta segir sína sögu um það hvernig málum er háttað á þessum mikilvæga markaði. Þetta mun vonandi breytast þegar byggingagáttin verður orðin að lagaskyldu sem á að gerast núna um áramótin.“ Þegar fréttamaður spyr Sigurð hvort upplýsingar um markaðinn verði þá áreiðanlegri: „Upplýsingar um markaðinn verða þá áreiðanlegri og nákvæmari, já. Auðvitað verða umbætur ekki að veruleika á einni nóttu en þetta eru sannarlega skref í rétta átt.“

RÚV, 11. nóvember 2019.