Fréttasafn



23. maí 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Minna kolefnisspor ef bókin er prentuð á Íslandi

Margir telja að kolefnisspor íslensks prentiðnaðar hljóti að vera stærra en í nágrannaríkjum okkar þar sem við flytjum inn nærri allt hráefni til framleiðslunnar. Það er ekki rétt, kolefnisspor íslensks prentiðnaðar er töluvert minna en í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Þetta segja Kristjana Björg Guðbrandsdóttir, leiðtogi prent- og miðlunargreina hjá Iðunni fræðslusetri, og Georg Páll Skúlason, formaður Grafíu, í grein sem birt er í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Íslenskir styrkir efla erlendar prentsmiðjur.

Í grein þeirra kemur fram að kolefnisspor bókar sem er prentuð á Íslandi sé neikvætt eða –42g CO2 (EFLA, 2024). Einnig að stór hluti bóka sem séu gefnar út á Íslandi sé prentaður í Lettlandi. Kolefnisspor bókar sem sé prentuð í Lettlandi sé 66 CO2 og kolefnisspor bókar sem sé prentuð í Kína beri gríðarstórt kolefnisspor eða 722 CO2. Talið sé að um 8% bóka sem gefnar séu út á Íslandi séu prentuð í Kína.

Þá kemur fram í grein þeirra að nærri allar íslenskar bækur séu prentaðar erlendis. Það heyri til undantekninga að bækur séu prentaðar hér á landi og smám saman muni fagþekking á slíku prentverki hverfa algjörlega. Fyrirkomulag á styrkjum stjórnvalda sem hafi verið ætlað að blása lífi í íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu blási lífi í erlendar prentsmiðjur í Evrópu og Kína og dragi mátt úr íslenskum prentsmiðjum.

Í niðurlagi greinarinnar segja þau að samkeppnisstaða íslensks prentiðnaðar gagnvart samanburðarlöndum sé skökk. Það sé sorglegt að stjórnvöld eigi beinan þátt í því að skekkja samkeppnisstöðu íslenskra prentsmiðja. Nú þurfi að bæta stöðuna, það sé öllum í hag. „Gerum meiri kröfu um gæði prentunar, styðjum við það góða starf sem íslenskar prentsmiðjur hafa unnið í umhverfismálum og lækkum þakið á styrkjum vegna útgáfu bóka. Þannig hleypum við lífi í bókaprentun á Íslandi, minnkum kolefnissporið og varðveitum dýrmæta þekkingu fagfólks í iðnaðinum.“

Hér er hægt að nálgast greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 16. maí 2024.