Fréttasafn10. des. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Minni umsvif í ýmsum greinum hagkerfisins

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir samdrátt í flugi og fjölda ferðamanna birtast í minni umsvifum í ýmsum greinum hagkerfisins, þ.m.t. iðnaðinum. „Fjárfesting atvinnuveganna hefur dregist talsvert saman og er það að koma niður á byggingariðnaði og mannvirkjagerð svo dæmi sé tekið. Hvað snertir iðnaðinn í heild sjáum við nú merki um samdrátt í öllum helstu greinum hans líkt og í viðskiptahagkerfinu almennt. Lítillar bjartsýni gætir varðandi framhaldið þótt hún sé eitthvað meiri nú en fyrr á þessu ári.“ 

Þegar blaðamaður spyr Ingólf hvað muni knýja hagvöxt á næsta ári segir hann óvissu um það, erfitt sé að segja til um hvort botninum hafi verið náð í niðursveiflunni í efnahagslífinu en fastlega megi reikna með að lítill hagvöxtur verði á næsta ári. „Spár gera ráð fyrir að hagvöxturinn á næstunni verði fyrst og fremst vegna vaxandi einkaneyslu. En við byggjum hins vegar ekki hagvöxt til lengdar á vexti einkaneyslu einvörðungu. Það þarf eitthvað annað að koma til. Við þurfum auknar gjaldeyristekjur og til þess að það verði þurfum við sterka samkeppnishæfni atvinnuveganna.“ 

Í fréttinni kemur jafnframt fram að hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár hafi versnað. Fyrr á þessu ári hafi spár hljóðað upp á 2,5% hagvöxt á næsta ári. Samkvæmt nýrri hagspá Arion banka verður hins vegar aðeins 0,6% hagvöxtur á næsta ári. Vitnað er til orða Ingólfs sem segir að horfurnar hafi verið að breytast og fyrir vikið megi nú reikna með meira atvinnuleysi á næsta ári en í ár.

Morgunblaðið, 10. desember 2019.