Fréttasafn



17. ágú. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mörg tækifæri á sjóndeildarhringnum

Efnahagsástandið á Íslandi er um margt ákjósanlegt og ekki ástæða til svartsýni, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Andrésar Magnússonar í Dagmálum á mbl.is. Í viðtalinu segir Sigurður að það sé snúin staða núna í efnahagsmálum, verðbólgan meiri en hún hefur verið um langt skeið, hrávöruverð hafi hækkað og erfitt að fá aðföng. Þá komi stríðið inn í og það hafi lokast mikilvægir markaðir eins og fyrir stál og timbur og það þurfi að finna nýja markaði. „Það er áhugavert að skoða verðbólgu í samhengi við það sem gerist í Evrópu þessa dagana. Ef við skoðum samræmdu vísitöluna þar sem húsnæðisverð er ekki með þá er verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu. Þetta sýnir okkur tvennt, annars vegar hvað húsnæðisverðið á stóran þátt í verðbólgunni hjá okkur og sá vandi er heimatilbúinn að miklu leyti. Hins vegar sýnir þetta líka fram á að hvað orkuverðið hefur hækkað mikið í Evrópu sem er að valda mikilli verðbólgu þar sem lendir ekki á okkur í sama mæli.“ Hann segir þetta vera jákvætt í stöðunni og minni okkur líka á það að ná markmiðum stjórnvalda um sjálfstæði í orkumálum. Markmiðið sé að vera óháð olíu fyrir 2040 með því að framleiða meiri orku innanlands í stað þess að flytja hana inn.

Verðmætasköpun býsna sterk hér á landi

Sigurður segir að stoðunum hafi fjölgað. „Eggin í körfunni eru fleiri sem þýðir að við búum við meiri stöðugleika, auðvitað sveiflur hér eins og annars staðar.“ Hann segir stoðirnar vera fleiri og sterkari og það þurfi að taka tillit til þess á vinnumarkaðnum. Sigurður segir það rétt mat hjá seðlabankastjóra að staðan sé betri hér á landi en í nágrannaríkjunum. „Eftirspurning er sterk og hagkerfið er á leið upp sem er annað en var við gerð síðustu kjarasamninga 2019 þegar hagkerfið var farið að kólna. Verðmætasköpunin er býsna sterk þrátt fyrir allt hérna hjá okkur. Það eru mörg tækifæri á sjónardeildarhringnum, hvort sem það er í þeim greinum sem við þekkjum eða í nýjum iðnaði. Við sjáum það til dæmis með orkusækinn iðnað, þar eru mikil tækifæri með orkuskiptunum sem gerir það að verkum að við getum farið að framleiða eldsneyti hérna innanlands, það mun auðvitað breyta miklu.“

Iðnaður eina greinin sem notar hreina orku

Þegar Andrés spyr hann varðandi orkuframleiðslu fyrir Bitcoin-námagröft gagnavera segir Sigurður að það hafi ekki verið virkjað sérstaklega fyrir gagnaver á Íslandi, hvort sem það er hátæknivinnsla hjá þeim eða sá hluti sem fer í rafmyntagröft. „Þetta er þá bara afgangsorka í kerfinu sem að mundi þá renna til sjávar. Ég veit ekki hvort það mundi vera betra en að afla einhverra verðmæta með þessu.“

Þegar talið best að virkjunum segir Sigurður að það snúist ekki um að það þurfi að virkja meira og meira heldur sé eftirspurn og stóra tækifærið núna að hætta að flytja inn olíu og brenna í stórum stíl og fara frekar að nýta innlendu orkuna til að framleiða hreint eldsneyti. „Við skulum heldur ekki gleyma því að af útflutningsgreinunum þá er iðnaður eina greinin sem að notar hreina orku á meðan aðrar útflutningsgreinar, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, þær nota jarðefnaeldsneyti í stórum stíl og brenna til þess að afla verðmæta.“ Hann segir að þessi vegferð um orkuskiptin snúist um það að afla meiri orku, að virkja fyrir ferðaþjónustuna og fyrir sjávarútveginn.

Þriðju orkuskiptin framundan

Þegar þáttastjórnandi spyr Sigurð hvort sjónarmið um þjóðaröryggi muni skipta máli í orkuskiptum segir hann að það muni spila stóra rullu. „Þetta eru þriðju orkuskiptin sem eru framundan. Önnur orkuskiptin er hitaveituvæðingin sem var ráðist í fyrir ca hálfri öld. Það kom til á tíma þar sem olíuverð var mjög hátt. Það var efnahagslega hagkvæmt að bora eftir heitu vatni og nýta það til húshitunar.“ Hann segir Ísland hafa verið í fararbroddi á þessu sviði og því sé íslenskt hugvit á þessu sviði nú að finna í 45 löndum í öllum heimsálfum.

Fólk vill stöðugleika

Í frétt Morgunblaðsins um þáttinn segir að fleiri vandamál steðji þó að atvinnulífinu og þar á meðal sé mikil ólga í verkalýðshreyfingunni, einmitt í aðdraganda kjarasamninga, þar sem forseti ASÍ hrökklaðist frá. Þar er sagt að Sigurður taki undir áhyggjur af því. „Það segir sig sjálft að það er slæm staða fyrir atvinnulífið að verkalýðshreyfingin sé svona veik, nú þegar samningar eru að losna. Það er engin óskastaða.“ Hann hefur þó ekki áhyggjur af því að ekki sé talsamband yfir í launþegahreyfinguna þótt ASÍ vanti forseta. „Sem betur fer er verkalýðshreyfingin annað og meira en einn maður, þannig að það eru margir viðmælendur,“ er haft eftir Sigurði í Morgunblaðinu. „En það er mjög slæmt hvernig er komið fyrir forystunni og ég vona svo sannarlega að þau finni út úr sínum málum, mjög hratt. Þau hafa í rauninni aðeins örfáar vikur til þess.“ Þrátt fyrir snörp orð um svigrúm til launahækkana og óbilgirni einstakra verkalýðsforkólfa er Sigurður vongóður um unnt sé að semja þó mikið virðist bera á milli. „Við verðum að hafa þá trú að það sé hægt. Og ég myndi nú halda það að flestir af forystumönnum í verkalýðshreyfingunni vilji ná samningum. Vilji gera vel fyrir sitt fólk án þess að það kosti of mikið.“ Í frétt Morgunblaðsins segir að vera kunni að einhverjir verkalýðsforingjar kjósi frekar átök en hann telji þá einangraða. „Ég held að þeirra umbjóðendur, launafólk í landinu, sé ekkert endilega til í verkföll eða átök. Ég held að fólk vilji stöðugleika, sérstaklega eftir það sem á undan er gengið síðustu ár."

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Morgunblaðið / mbl.is, 17. ágúst 2022.

Sigurður Hannesson og Andrés Magnússon.

Morgunbladid-17-08-2022