Fréttasafn10. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Mörg tækifæri í fjölbreyttri matvælaframleiðslu

Matvælastefna Íslands til ársins 2030 hefur verið kynnt. Þar kemur meðal annars fram að matvælastefnunni sé ætlað að vera leiðbeinandi um ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Horft var til fimm lykilþátta við mótun stefnunnar: verðmætasköpunar, neytenda, ásýndar og öryggis, umhverfis og lýðheilsu. Í stefnunni segir að það sé sameiginlegt verkefni að bæta hag fólks með verðmætasköpun og með því að tryggja komandi kynslóðum tækifæri til að gera slíkt hið sama. Hér á landi séu tækifærin í fjölbreyttri matvælaframleiðslu mörg og því er mikilvægt að nýta þau með samræmdum aðgerðum. Matvælastefna Íslands sé opið ferli sem muni taka mið af þróun og breytingum næstu ára og áratuga. Henni fylgir aðgerðaáætlun sem verður endurskoðuð að fimm árum liðnum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eru með inngangsorð í stefnunni. 

Markmið matvælastefnunnar

Markmið matvælastefnunnar er eftirfarandi fyrir Ísland árið 2030:

  1. Gæði og öryggi eru tryggð í framboði og framleiðslu á matvælum.
  2. Almenningur hefur aðgang að hollum og öruggum matvælum.
  3. Matvælaframleiðsla er sjálfbær.
  4. Verðmætasköpun hefur verið aukin með bættum framleiðsluaðferðum, vöru- og þjónustuþróun og nýsköpun.
  5. Þekking, hæfni og áhugi á matvælum hefur verið efld á öllum námsstigum.
  6. Samkeppnishæfni hefur verið bætt með stöðugu starfsumhverfi fyrirtækja, skilvirkum innviðum og stuðningi við nýsköpun.
  7. Fræðsla til neytenda um matvæli og tengsl mataræðis við lýðheilsu hefur verið aukin.
  8. Upplýsingar um uppruna, framleiðsluhætti, innihald og umhverfisáhrif matvæla eru aðgengileg neytendum.
  9. Rannsóknir og þróun eru öflugur bakhjarl matvælaframleiðslu og samstarf stofnana er öflugt.
  10. Ímynd íslenskra matvæla endurspeglar markmið um sjálfbærni, gæði og hreinleika.

Fjölmargir komu að mótun stefnunnar

Í verkefnisstjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland sátu Vala Pálsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, Ingi Björn Sigurðsson, skipaður án tilnefningar, Gunnar Sigurðarson, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Anna Guðmundsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Gunnar Egill Sigurðsson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu, Þuríður Hjartardóttir, tilnefnd af Neytendasamtökunum, Jakob Einar Jakobsson, tilnefndur af Samtökum ferðaþjónustunnar, Kári Gautason, skipaður án tilnefningar, Rakel Garðarsdóttir, skipuð án tilnefningar, Þórarinn H. Ævarsson, skipaður án tilnefningar. Einnig sátu í verkefnisstjórninni þau Hrönn Ólína Jörundsdóttir og Arnljótur Bjarki Bergsson fyrir hönd Matís, Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins og Brynja Laxdal frá Matarauði fundi verkefnisstjórnar. Þá starfaði María Guðjónsdóttir, lögfræðingur, með verkefnisstjórninni.

Hér er hægt að nálgast matvælastefnuna.

Á vef Stjórnarráðsins er hægt að nálgast frekari upplýsingar um matvælastefnuna.