Fréttasafn



9. sep. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Nær allir stjórnendur iðnfyrirtækja vilja stöðugleika

Það er þrennt sem horft er á. Í fyrsta lagi nefna nær allir stjórnendur iðnfyrirtækja mikilvægi stöðugleikans. Hann felur auðvitað margt í sér. Við höfum til dæmis talað mikið fyrir því að opinber fjármál og peningamál séu samstillt og notuð til að jafna út sveiflur. Það hefur orðið talsverð breyting á því á síðustu árum til hins betra. Hagstjórnin er orðin agaðri en hún var sem er ánægjulegt, en það þarf sífellt að vera á vaktinni og nú getur orðið breyting á eftir kosningar. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Þórodds Bjarnasonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum um nýja greiningu SI sem byggir á könnun sem gerð var meðal stjórnenda iðnfyrirtækja. Stjórnendur iðnfyrirtækja vilja að stjórnvöld beiti sér fyrir stöðugra, hagkvæmara og skilvirkara starfsumhverfi með markvissum aðgerðum til að styrkja framboðshlið hagkerfisins svo hægt verði að efla verðmætasköpun og fjölga störfum. Úr könnuninni má lesa að stöðugleiki, hagkvæmni og skilvirkni séu hornsteinar góðs samkeppnishæfs starfsumhverfis. 

Fjölbreytni atvinnulífsins skiptir máli fyrir stöðugleikann

Í fréttinni kemur fram að niðurstöður könnunarinnar sýni meðal annars að 98% stjórnenda iðnfyrirtækja vilja að næsta ríkisstjórn leggi mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja, 89% segja það skipta miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að næsta ríkisstjórn lækki tryggingagjaldið og 83% að miklu máli skipti að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja. Sigurður segir í ViðskiptaMogganum að niðurstöður könnunarinnar komi kannski ekki mjög á óvart en séu staðfesting á því sem lengi hefur verið talað um. Annað sem skiptir máli varðandi stöðugleikann að sögn Sigurðar sé fjölbreytni atvinnulífsins, sérstaklega hvað útflutningsgreinarnar varðar og fjölgun stoða í atvinnulífinu. „Það er ánægjulegt að það er að gerast núna að fjórða stoðin, hugverkaiðnaðurinn, hefur fest sig í sessi og skilaði 16% útflutningstekna í fyrra.“ 

Mikilvægt að festa hvata til nýsköpunar í sessi

Í fréttinni bendir Sigurður á að umgjörð nýsköpunar hafi farið að mótast fyrir alvöru fyrir rúmum áratug þegar stjórnvöld settu upp hvata fyrir fyrirtæki til nýsköpunar. „Þeir hvatar voru svo stórauknir í fyrra, sem segja má að hafi verið mikilvægasta efnahagslega viðbragð stjórnvalda við faraldrinum. Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist hratt við eftir komandi kosningar og festi hvatana í sessi, en þeir voru settir á tímabundið út þetta ár.“ 

Hugverkaiðnaðurinn í vexti

Þá er haft eftir Sigurði í fréttinni að fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafi ráðið fólk til starfa í fyrra, þegar önnur gerðu það ekki, útflutningur í geiranum hafi aukist og velta sömuleiðis og það sýni glögglega hve jarðvegurinn sé frjór. „Það dregur skýrt fram að iðnaðurinn er í vexti.“ Það kemur fram að það sé mat Sigurðar að þriðji áratugur 21. aldarinnar geti orðið áratugur nýsköpunar og hugverkaiðnaðar á Íslandi. 

Skapa hvata með lækkun tryggingagjalds

Í fréttinni segir að annað atriðið sem sé ofarlega í huga stjórnenda samkvæmt könnuninni sé tryggingagjaldið en 89% stjórnenda telja að miklu máli skipti að næsta ríkisstjórn lækki það gjald sem sé skattur á launagreiðslur sem fyrirtæki greiði og geri að verkum að dýrara sé að ráða fólk í vinnu. „Ríkið innheimtir 100 milljarða á ári í tryggingagjald. Með því að lækka gjaldið skapast frekari hvati til að ráða fólk í vinnu.“ 

Meta áhrif á atvinnulífið við lagasetningu

„Við söknum þess oft við lagasetningu að lagt sé mat á áhrif löggjafans á atvinnulífið, þar á meðal á samkeppnishæfni Íslands, því hún er nokkurs konar mælikvarði á lífsgæði. Félagsmenn lögðu jafnframt ríka áherslu á aukna skilvirkni í eftirliti hins opinbera en misbrestur á því sviði getur leitt til sóunar, bæði hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkisins, atvinnulífinu til tjóns,“ segir Sigurður í ViðskiptaMogganum.

ViðskiptaMogginn, 8. september 2021. 

VidskiptaMoggi-08-09-2021