Fréttasafn14. feb. 2022 Almennar fréttir

Níu bjóða sig fram til stjórnar SI

Framboðsfrestur til stjórnar SI rann út 10. febrúar. Eitt framboð barst til formanns SI og átta framboð til almenns stjórnarsætis. Í ár verður kosið um sæti formanns og fimm almenn stjórnarsæti. Niðurstöður kosninga verða kynntar á aðalfundi SI fimmtudaginn 10. mars. Rafræn kosning hefst 24. febrúar nk.

Framboð til formanns SI

Árni Sigurjónsson, Marel

Arni_sigurjonsson_portret-1-Copy-Custom-1-

Ég hef starfað hjá Marel frá árinu 2009 og tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu bæði hérlendis og utan landsteinanna. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og verkefnin og viðfangsefnin hafa óneitanlega verið afar fjölbreytt. Það er í senn áskorun og forréttindi að starfa hjá íslensku félagi sem er leiðandi á sínu sviði á alþjóðamarkaði, hvort heldur sem er í meðvindi eða mótvindi.

Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins frá árinu 2016 og var kjörinn formaður samtakanna á Iðnþingi 2020. Þá hef ég jafnframt setið í stjórn Samtaka atvinnulífsins sl. sex ár og í framkvæmdastjórn SA sl. fimm ár. Mínu fyrsta formannskjörtímabili lýkur á komandi Iðnþingi og þessi ár mín í embætti hafa liðið fljótt og vissulega þróast með öðrum hætti en ætlað var. Það hafa verið mikil forréttindi að fá að leiða þessi öflugu samtök á liðnum tveimur árum og ég er afar stoltur af þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð fyrir íslenskan iðnað á krefjandi tímum heimsfaraldurs og efnahagsáfalla.

Stór hagsmunamál og verkefni bíða þó úrlausnar á komandi misserum. Fyrir dyrum stendur gerð nýrra kjarasamninga og óhætt að reikna með að vinnumarkaðsmálin verði fyrirferðarmikil á árinu. Þá eru margháttaðar áskoranir í efnahagsmálum um þessar mundir, verðbólgan komin á kreik og hækkandi vaxtastig. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins geti átt yfirvegað samtal um hvaða áhrif hinar breyttu stoðir útflutnings hafa á vinnumarkaðinn, tækifærin sem fram undan eru og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að efla velsæld landsmanna. Mikið er í húfi fyrir alla aðila að vel takist til í þessari lotu kjaraviðræðna.

Auk þessa verða málefni orku-, umhverfis-, loftslags og grænna lausna áberandi á þessu ári grænnar iðnbyltingar hjá Samtökum iðnaðarins. Menntamál, nýsköpun, húsnæðismál og málefni byggingariðnaðar eru sömuleiðis í deiglunni. Verkefninu er því fjarri lokið og metnaður minn til frekari árangurs á öllum þessum sviðum er mikill. Ég er því reiðubúinn til áframhaldandi starfa fyrir íslenskan iðnað sem formaður Samtaka iðnaðarins og óska sem fyrr eftir stuðningi ykkar og trausti.

Framboð til almennrar stjórnarsetu

Arna Arnardóttir, gullsmiður

Arna_2022_2Undanfarin tvö ár hef ég setið í stjórn Samtaka iðnaðarins (SI). Ég hef haft mikla ánægju af því að geta liðsinnt öflugu starfi samtakanna í þann tíma og mun því bjóða áfram fram krafta mína og gef kost á mér til endurkjörs.

Ég er þeirrar skoðunar að í stórum samtökum eins og Samtökum iðnaðarins sé nauðsynlegt að bæði fulltrúar stærri og minni iðngreina eigi sæti við stjórnarborðið og endurspegli þannig fjölbreytileika og breidd þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum hverju sinni.

Ég hef starfað sem gullsmiður síðastliðin 13 ár. Ég útskrifaðist frá Tækniskólanum - skóla atvinnulífsins árið 2009 sem gullsmiður og lauk námi til meistararéttinda frá sama skóla ári síðar. Áður starfaði ég sem garðyrkjufræðingur en ég útskrifaðist frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1992. Ég hef verið formaður Félags íslenskra gullsmiða undanfarin áratug eða frá árinu 2012. Í formannstíð minni hef ég komið að margvíslegum verkefnum fyrir mitt fag og aðrar iðngreinar.

Ég hef setið í stjórn Tækniskólans sl. tvö ár. Þar höfum við tekist á við ýmsar áskoranir m.a. fundið framtíðarhúsnæði fyrir skólann við Suðurhöfnina í Hafnarfirði. Samhliða setu minni í stjórn SI hef ég átt sæti í stjórn Samtaka Atvinnulífsins. Einnig hef ég átt sæti í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem veitir ráðherra ráðgjöf um málefni starfsmenntunar fyrir handverk og hönnunargreinar. Þá sat ég jafnframt í stjórn Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarmars á árunum 2011- 2019.

Gerum iðnmenntun eftirsóknarverðari hjá ungu fólki

Menntamál í iðnaði hafa verið mér hugleikin síðastliðin ár. Ég vil gjarnan að við sem látum okkur iðnaðinn varða náum þeim árangri að iðnmenntun verði í auknu mæli fyrsta val hjá grunnskólanemum við lok hefðbundinnar skólagöngu. Ef við náum að virkja atvinnulífið og iðnmenntaskóla í auknu mæli með samtali þá er ég sannfærð um að okkur mun takast að gera iðnmenntun eftirsóknarverðari hjá ungu fólki.

Framfylgd iðnaðarlaga er allra hagur

Þá er ég þeirrar skoðunar að brýnt sé að fundnar séu raunhæfar leiðir til að framfylgja iðnaðarlögum en nú er sú staða uppi að eftirliti með ólöglegri starfsemi er mjög ábótavant. Það er allra hagur að lögunum sé fylgt eftir.

Samkeppnishæf rekstrarskilyrði

Ég er þeirrar skoðunar að tryggja beri íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði en íslenskur iðnaður hefur átt undir högg að sækja í alþjóðlegri samkeppni. Þar vega auðvitað þungt skattar og gjöld en eðli málsins samkvæmt koma jafnframt aðrar breytur til.

Nái ég endurkjöri í stjórn Samtaka iðnaðarins mun ég áfram starfa af heilindum í þágu alls iðnaðarins. Það er mín von að mitt framlag geti áfram nýst í þágu þeirrar fjölbreyttu flóru starfsgreina sem starfa innan vébanda samtakanna.  

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins 

Halldor

Í dag stýri ég fyrirtæki með 35 starfsmönnum á Bíldudal. Við nýtum kalkþörunga til manneldis og fóðurframleiðslu. Framundan er áætlun um að tvöfaldast að stærð.

Menntun er viðskiptafræði, MBA og mastersgráða í mannauðsstjórnun fyrir utan styttri námskeið og löggildingar þeim tengd.

Reynsla úr sjávarútveginum, sveitarstjórnarmálum og rekstri eigin fyrirtækja þar sem mikil áhersla var á nýsköpun og frumkvöðla.

Ég var innan sveitarstjórnargeirans sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri lengi. M.a. formaður Sambands íslenska sveitarfélaga í 12 ár og stýrði þar með launanefnd sveitarfélaga.Seta í ýmsum stjórnum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum.

Alþjóðleg reynsla sem forseti EFTA Local Forum og fulltrúi í Evrópuráðinu í Strasbourg og svo er fyrirtækið sem ég stýri í dag í eigu írsks fyrirtækis og er þar með hluti af áhugaverðri alþjóðlegri keðju fyrirtækja.

Áhugi á setu í stjórn Samtaka iðnaðarins kemur til vegna reynslu af því að reka iðnaðarfyrirtæki á landsbyggðinni, þörf fyrir enn betri tengingar og von til þess að þekking mín og reynsla geti verið gagnleg. Ég veit að félagsmenn vilja heyra meira í stjórn SI.

Áherslumál:

1. Rafmagnsmálin á Íslandi eru áhyggjuefni. Dapurlegt að ekki skuli vera meiri samstaða í samfélaginu

2. Leyfismálin eru þung. Gera þarf nauðsynlegar breytingar svo stofnanir fari að lögum varðandi fresti. Vinna þarf að umbótum á lögum varðandi umhverfismat og leyfisveitingar

3. Kjaramálin eru mér hugleikin, stefnan er varhugaverð. Það er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að bæta vinnumarkaðsmódelið. Ég kom að tilraunum til þess á sínum tíma en við megum ekki gefast upp fyrir því verkefni

4. Menntunarmálin má laga betur að þörfum samfélagsins og nemanna sjálfra með meira samstarfi við fyrirtækin sem þekkja þarfirnar

5. Nýsköpun er lykillinn að lífvænlegum fyrirtækjum. Ég hef áhuga á eflingu stuðningskerfis við nýsköpun

6. Hagstjórn og húsnæðismálin, vextir og verðbólga. Þetta tengist verulega og við þurfum að bæta framboðshliðina varðandi lóðir

Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu

Hjortur

Ég heiti Hjörtur Sigurðsson og er framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu. Ég gef kost á mér í stjórn Samtaka iðnaðarins.

Árið 2010 útskrifaðist ég með meistaragráðu í verkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur, DTU, og starfaði þar í landi í átta ár hjá stærstu verktökum landsins við stafræna innleiðingu. Ég hef frá árinu 2013 starfað sem stjórnandi og leiddi m.a. stafræna umbreytingu með BIM hjá stærsta verktakafyrirtæki Danmerkur, Per Aarsleff.

Ég sit í stjórn Félags ráðgjafarverkfræðinga, er varaformaður félagsins BIM Íslands og sit í fagráði byggingarrannsóknarsjóðsins Asks. Í Danmörku tók ég einnig virkan þátt í félögum iðnaðarins, en þar tók ég þátt í verkefnum Det Digitale Anlæg, félagi um stafræna umbreytingu í vegagerð og samgöngumannvirkjum, auk þess sem ég tók þátt í vinnuhópi á vegum Dansk Byggeri um stafrænt samstarf verktaka og ráðgjafa. Þá hef ég haldið fjölda fyrirlestra um hagnýtingu stafrænna verkfæra í byggingariðnaðinum í Danmörku, hér heima og víðar.

Mér finnst Samtök iðnaðarins vera á góðri vegferð og ég vil halda áfram á sömu braut. Mínar helstu áherslur eru:

· Aukinn stöðugleiki í hagkerfinu svo að fyrirtæki í iðnaði geti vaxið og dafnað. Þróun, rannsóknir og nýsköpun líða fyrir niðursveiflur og ófyrirsjáanleika í rekstri.

· Meiri stuðningur við fyrirtæki sem vilja ryðja veginn fyrir önnur með rannsóknum og nýsköpun.

· Stuðla að aukinni nýliðun í iðngreinum sem og að auka vægi raunvísinda, verkfræði og tæknigreinum í öllu skólakerfinu.

· Aukið samstarf og samtal á milli iðngreina sem takast margar hverjar á við sambærilegar áskoranir.

· Aukið samtal á milli iðnaðar og aðila hins opinbera. Aðilar hins opinbera, sveitarfélög og stofnanir þurfa einnig að stilla betur saman strengi svo að umhverfið verði fyrirsjáanlegra.

· Veitum hinu opinbera aukið aðhald í sínum rekstri og stuðlum að því að verkefnum sé útvistað til markaðarins

Hörður Þórðarson, múrarameistari

Hordur

Ég vinn sem múrari og rek mitt eigið fyrirtæki.

Ég er menntaður Múrarameistari og sit sem varamaður í stjórn hjá Múrarameistarafélaginu.

Mig langar að bjóða mig fram og gera mitt besta til að styrkja Íslenskan iðnað.

 

 

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma

Jonina

Ég hef kynnst starfi Samtaka Iðnaðarins eftir að hafa verið varamaður í stjórn SI sl. ár. Það hefur verið mjög fróðlegt að kynnast því hversu öflug samtökin eru í baráttunni fyrir íslenskan iðnað og ekki síst að sjá áhrif þeirra inn í kosningamál og stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Í framhaldi af þessari reynslu tel ég mig hafa margt fram að færa og vil leggja mitt að mörkum fyrir áframhaldandi framgangs íslensks iðnaðar.

Ég er í forsvari fyrir Coripharma sem var stofnað árið 2018 en byggir á styrkum stoðum þar sem það hefur keypt þróunar- og lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi. Félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á samheitalyfjum sem það selur til annarra lyfjafyrirtækja í Evrópu.

Í gegnum störf mín hjá Coripharma sé ég mikilvægi þess að leggja áherslu á verðmætasköpun sem er drifin áfram af nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. Það er jafnframt mikilvægt að gæta að samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í framleiðslu og útflutningi. Þar munu m.a. komandi kjarasamningar skipta miklu máli fyrir fyrirtækin í landinu og komandi hagvöxt.

Það er Samtökum Iðnaðarins nauðsynlegt að hafa breiða skírskotun og að stjórnin standi fyrir sem fjölbreyttustum hópi einstaklinga með ólíkan bakgrunn og sem starfa á fjölbreittum sviðum samfélagsins. Nái ég kjöri þá mun ég leggja áherslu á að færa stjórn samtakanna nauðsynlega breidd og innsýn inn í hugverkaiðnað, rekstur sprotafyrirtækis í hröðum vexti sem og framleiðsluiðnað til útflutnings. Umhverfismál eru mér einnig mjög hugleikin sem og samfélagsleg ábyrgð í rekstri, sem mun án efa skipta aðildarfélög SI stöðugt meira máli.

Ég starfaði hjá Actavis á árunum 1999 – 2019, lengst af sem Vice Presedent Commercial Operation og staðgengill forstjóra Medis, dótturfyrirtækis Actavis – nú Teva.

Nánari upplýsingar um starfsferilinn má sjá á: http://www.linkedin.com/in/jonina-gudmundsdottir/

Stefán Örn Kristjánsson, framleiðslustjóri Össurar

Stefan

Í heimi alþjóðavæðingar er mikilvægt fyrir íslenskan iðnað að tryggja samkeppnishæfni með því að leita stöðugt nýrra tækifæra til aukinnar framleiðni og bættra gæða. Í ljósi smæðar Íslands verður ávallt krefjandi að byggja upp mannaflsfreka fjöldaframleiðslu hér á landi en öflugur iðnaður á eigi að síður að geta haldið áfram að vaxa og dafna hér á landi með stöðugu rekstrarumhverfi, frjóum jarðvegi nýsköpunar, fjárfestingum í sjálfvirkni og síðast en ekki síst öflugri menntun.

Samtök iðnaðarins eru málsvari fjölmargra ólíkra atvinnugreina sem hafa mismunandi þarfir en eiga jafnframt mikla sameiginlega hagsmuni. Samtökin gegna lykilhlutveri við að hlúa að hagsmunum fjölbreytts íslensks iðnaðar, viðhalda sterkri ímynd og þjónusta félagsmenn. Samtökin hafa borið gæfu til að marka og fylgja eftir skýrri málefnalegri stefnu, sem gagnast ekki aðeins íslenskum iðnaði og félagsmönnum, heldur samfélaginu öllu.

Gott dæmi þar um er að samtökin tileinka árið 2022 grænni iðnbyltingu.

Ég er vélaverkfræðingur og hef undanfarin 20 ár starfað hjá Össuri. Síðustu fjögur ár hef ég borið ábyrgð á framleiðslustarfsemi Össurar á Íslandi og í Skotlandi. Í störfum mínum hjá Össuri hef ég tekið þátt í að koma vörum af hugmyndastigi yfir í framleiðslu og sölu og tel mig búa yfir ágætis reynslu og þekkingu á þeim áskorunum sem fylgja því að reka nýsköpunar- og framleiðslufyrirtæki á Íslandi.

Ég býð mig fram til stjórnar Samtaka iðnaðarins með von um að leggja málefnum fjölbreytts íslensks iðnaðar lið.

Tryggvi Hjaltason, CCP

Ég hef fengið að taka þátt í starfi SI undanfarin ár. Við það hef ég kynnst ótrúlegum molum og eldkláru fólki sem ég hef lært svo mikið af. Ég hef líka fengið að taka þátt í að byggja upp samfélag hugverkafyrirtækja sem í dag eiga skilvirk og uppbyggileg samtöl við stjórnmálamennina okkar og stjórnsýsluna um það hvernig hægt sé að gera Ísland enn betra.

Þetta eru forréttindi og mig langar að gefa meira af mér í þessa vinnu og á breiðari grundvelli vegna þess að ég hef séð hvernig hægt er að breyta Íslandi með auðmjúkri greiningardrifinni nálgun þar sem reynt er að virkja orku alls þessa öfluga fólks sem eru fulltrúar mörg hundruð fyrirtækja sem mynda kjarna Samtaka iðnaðarins.

Næstu tvö ár verða mikilvæg. Ný ríkisstjórn mun taka við og fyrir dyrum standa lykil sóknartækifæri í menntakerfinu, orkukerfinu, í gagnamálum, nýsköpun, skattalegum hvötum, vinnumarkaðsmálum, hvataumhverfi starfsmanna, fjármögnunarumhverfinu og áfram má telja.

Sértækari dæmi eru til dæmis að við blasir að hægt verður á næstu tveimur árum að innsigla leiðandi umhverfi á Íslandi á sviði nýsköpunar, rannsókna- og þróunar fyrir allar greinar iðnaðar og byggja undir stórsókn í menntamálum þar sem iðn- og verk-, og tæknigreinum verður gert hærra undir höfði. Dæmin eru fleiri.

Ég sit í stjórn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja ásamt því að vera formaður Hugverkaráðs. Ég starfa sem Strategist fyrir tölvuleikjafyrirtækið CCP og hef starfað fyrir fimm ráðherra í þremur ráðuneytum.

Ég tel að við okkur blasi risa tækifæri en til þess að nýta þau þarf að dýpka samfélög á milli iðngreina, styrkja enn frekar jákvætt samtal við stjórnmálamennina okkar og gera fleiri alvöru gagnadrifnar greiningar sem dýpka og vanda umræðuna. Ég vil læra meira af ykkur og reyna að beisla meira af þeirri orku til þess að Ísland verði land tækifæranna. Að beisla visku félagsmanna er ofurkrafturinn sem við sameiginlega höfum.

Vignir Steinþór Halldórsson, 46 ára húsasmíðameistari

Vignir_1644833745695Ég er kvæntur Lilju Björgu Guðmundsdóttur og bý í Kópavogi ásamt þremur börnum okkar.

Ég er starfandi húsasmíðameistari á höfuðborgarsvæðinu og hef starfað í byggingabransanum alla mína starfsævi. Áhugamál mín eru m.a. skíði og golf og er ég alltaf opinn fyrir því að prófa eitthvað nýtt.

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur sjaldan verið í meiri kröggum og á síðustu misserum. Ég tel nauðsynlegt að hafa öflugan málsvara byggingaiðnaðarins inni í stjórn SI og tel mig vera réttan aðila til að geta tekið á þessu málefni, fyrir hönd byggingaiðnaðarins og Samtaka iðnaðarins.

Ég hef frá unga aldri haft mikinn áhuga á félagsstörfum. Þá hef ég alltaf haft brennandi áhuga á framgangi íslensks iðnaðar og íslenskrar framleiðslu og tel mig hafa sýnt það í mínum störfum.

Helstu áherslumál mín eru m.a.:

- Menntamál. Byggt verði ofan á þá góðu vinnu sem fram hefur farið og vil efla verkmenntun á Íslandi.

- Vinna að því að bæta rekstrarumhverfi íslensks iðnaðar og gera það samkeppnishæfara.

- Bæta skattaumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja.

- Styðja við tækniþróun í iðnaði.

- Samtökin verði í fararbroddi við að aðstoða stjórnvöld við að taka á þeim viðvarandi íbúðaskorti sem verið hefur og sér ekki fyrir endann á.