Fréttasafn1. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Njótum góðs af að vera utan orkumarkaða Evrópu

Arbeidsliv í Norden ræðir við Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, og Sigríðir Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, um orkumál á Íslandi. Í inngangi fréttarinnar segir að hækkandi orkuverð sé ein af mörgum afleiðingum stríðsins í Úkraínu og hafi komið sérstaklega í ljós í Evrópu vegna refsiaðgerða gegn Rússum sem hafi leitt til verulegs niðurskurðar á gasinnflutningi sem hefur þrýst verðinu upp. Þar segir að Ísland sé eitt fárra landa sem hafi ekki glímt við þennan vanda, þar hafi orkuverð til heimila haldist stöðugt undanfarin átta ár á meðan það hafi hækkað töluvert á öðrum Norðurlöndum, sérstaklega í Danmörku. Yfirskrift fréttarinnar er að iðnaður á Íslandi njóti góðs af því að vera utan orkumarkaða Evrópu. 

Pétur segir meðal annars að það séu ekki aðeins endurnýjanlegir orkugjafar sem hjálpi framleiðslu áls á Íslandi og bendir á Noreg sem dæmi þar sem t.d. Norður-Noregur sé ekki tengdur Evrópska orkumarkaðnum. En á svæðum sem eru tengdir markaðnum hafi margir álframleiðendur lent í vandræðum. Hann segir að álframleiðsla hafi minnkað um 40-50% í ESB á undanförnum árum. Ástæðan sé sú að álverin hafi ekki verið með langtíma orkusamninga og orkuverð hafi í sumum tilfellum verið hærra en verðmæti fullunnins áls. Auk þess sem verðið sem íslensk álver greiði fyrir orku séu tengd álverði. 

Þá kemur fram í fréttinni að gagnaver noti einnig mikla orku á Íslandi og landið hafi í auknum mæli markaðssett sig sem heppilega staðsetningu ekki aðeins vegna hreinnar orku heldur einnig vegna aðgengi að náttúrulegri kælingu. Sigríður segir meðal annars að gagnaverin upplifi aukinn áhuga evrópskra fyrirtækja á því sem þau geti boðið og það sé vaxandi áhugi hjá fyrirtækjum sem vilja koma til Íslands með gögnin sín. Sigríður segir að það sé kominn tími til að markaðssetja íslensk gagnaver í Evrópu og það muni hjálpa að bráðlega verði opnaður nýr gagnastrengur milli Íslands og Írlands. Það hafi verið hindrun að hafa aðeins haft tvo strengi sem tengi Ísland við Evrópu undanfarin ár. En nú komi sá þriðji á sama tíma og orkumarkaðurinn sé að breytast. Hún segir það mjög jákvætt fyrir Ísland því tæknirisarnir hafi haft áhyggjur af því að tengingin hafi ekki verið nógu traust. Hún segir jafnframt að þegar komi að orku sé markaðsverðið ekki allt því fyrirsjáanleiki í verði sé líka mikilvægur. 

Hér er hægt að lesa fréttina í heild sinni.