Fréttasafn



2. sep. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Menntun

Norrænn fundur um menntun í mannvirkjaiðnaði

Fulltrúar systursamtaka Samtaka iðnaðarins á Norðurlöndunum sem starfa við menntamál í mannvirkjaiðnaði komu saman í Helskinki í Finnlandi í síðustu viku. Um er að ræða árlegan fund þar sem megintilgangurinn er að skiptast á upplýsingum um stöðu menntamála í mannvirkjaiðnaði og endurmenntun og upplýsa hvað hvert land er að gera til að hvetja ungt fólk til náms í þessari atvinnugrein. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, var fulltrúi Íslands á fundinum ásamt fulltrúum frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Á myndinni hér fyrir ofan eru norrænu fulltrúarnir við Kruununsillat brúnna sem er verið að smíða og telst vera ein stærsta innviðauppbygging í Helsinki. 

Meiri áhersla á einstaklingsmiðað nám

Á fundinum var meðal annars rætt um iðn- og verkmenntun, STEAM-greinar og nám þar sem áhersla er lögð á snjallvæðingu, menntun, mannauðsþörf, öryggi, nýsköpun og sjálfbærni. Í umræðunum kom fram að Finnar fóru í endurskoðun á iðn- og verknámi árið 2018. Meiri áhersla er núna lögð á einstaklingsmiðað nám þannig að þeir sem eru fljótir að tileinka sér vinnubrögð inn í skólunum fara fyrr út á vinnumarkaðinn. Fulltrúarnir voru sammála um að samstarf menntastofnana og atvinnulífs væri lykilatriði til að tryggja að menntakerfið uppfylli kröfur framtíðarinnar.

Náið samstarf iðnskóla og háskóla

Norrænu fulltrúarnir heimsóttu tvo vel þekkta skóla í Helsinki, Stadin AO, sem er iðnskóli og Metropolia University of Applied Sciences, sem er háskóli. Þessar stofnanir eru staðsettar í göngufæri frá hvor annarri og vinna náið saman. Nemendur á aldrinum 16 til 65+ stunda nám við Stadin AO, og er þetta til þess að takast á við ýmis agavandamál sem hafa komið upp með nýjum kynslóðum. Þeir sem fara í raunfærnimat fá tækifæri til að samræma nám og vinnu, með 1-3 daga í viku í skólanum, en eru þó mest í vinnu.

Metropolia University of Applied Sciences er þekkt fyrir snjallvæna nálgun sína. Þar eru öll rými notuð sem kennslustaðir á skilvirkan hátt, þar á meðal kjallarinn sem er notaður sem kennsluaðstaða fyrir rafmagnsverkfræðinga, fyrir rannsóknir á nýrri steypu, þéttleika og burðarþol þar sem byggingaverkfræðingar geta prófað hin ýmsu byggingarefni. Á efstu hæð skólans er snjallvænt heimili, þar sem öll tæki eru raddstýrð, allt tengt saman og áskoranir rafmagsnverkfræðinga og forritara er að takast á við raunverulegar áskoranir líkt og veður, birtu, læsingar, ljós og fleira. Íbúðin var búin til af nemendum  verkmenntaskólans og er hún nýtt til ýmissa nýsköpunarverkefna sem tengjast sjálfbærni, minni sóun og orkusparnaði. Í nýsköpun er lögð áhersla á samvinnu háskólanema og iðn- og verkmenntaskólanema til að fá sem fjölbreyttastu lausn á því vandamáli sem þau eiga að leysa.

Nemendur tengjast mikilvægum innviðaframkvæmdum

Einnig heimsóttu fulltrúarnir eina stærstu innviðauppbyggingu Helsinki, Kruununsillat brúarsvæðið, sem er mikilvæg samgöngubót fyrir borgina. Þetta stórvirki mun tengja borgina betur með nýjum göngu- og hjólaleiðum og bæta lestarsamgöngur. Mikil samvinna er á milli skóla og atvinnulífs, þar sem nemendur og verkfræðingar á lokaári sinna starfi á svæðinu og vinna lokaritgerðir sínar samhliða framkvæmdunum.

Stafrænar lausnir notaðar til að bæta ferla 

Þá heimsótti hópurinn KIRA-forum og KIRA-Hub, nýsköpunarsamfélag byggingariðnaðarins. Þar var skoðað hvernig stafrænar lausnir eru notaðar til að bæta alla ferla í byggingariðnaði, umhverfisvænni, allt frá pappírslausum ferlum til aukins öryggis með því að fjarstýra stórum tækjum inn á hættuleg svæði. Það var álit norrænu fulltrúanna að þessi nýsköpun væri til fyrirmyndar fyrir önnur lönd.

IMG_8133Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI.

IMG_2253

IMG_2210

IMG_2212

IMG_2214

IMG_2218

IMG_2219

IMG_8016