Fréttasafn



5. des. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Norrænt atvinnulíf gagnrýnir neyðartæki ESB

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, er meðal höfunda greinar í Financial Times þar sem fjallað er um nýtt neyðartæki ESB sem nefnt er “single market emergency instrument” eða neyðartæki á innri markaði. Höfundarnir eru framkvæmdastjórar systursamtaka SI á Norðurlöndunum, auk Sigurðar skrifa undir greinina Lars Sandahl Sørensen framkvæmdastjóri Confederation of Danish Industry, Jan Olof Jacke framkvæmdastjóri Swedish Enterprise, Jyri Häkämies framkvæmdastjóri Confederation of Finnish Industries og Ole Erik Almlid framkvæmdastjóri Confederation of Norwegian Enterprise. 

Í greininni segir meðal annars að innri markaður Evrópu sé eitt stærsta afrek ESB og sé enn mikilvægur fyrir vöxt, samkeppnishæfni og atvinnusköpun í Evrópu. Norðurlöndin og fyrirtæki þar þrífist vegna frjáls flæðis á vörum, þjónustu, fólki og fjármagni. Þess vegna sé það áhyggjuefni að framkvæmdastjórn ESB ætli að nýta vafasamar íhlutunaraðgerðir frekar en að beina athyglinni að fjórfrelsinu og er þar vísað í  “single market emergency instrument”. 

Höfundar greinarinnar segja að neyðartækinu sé ætlað að tryggja að innri markaðurinn virki einnig á krepputímum líkt og nýjum heimsfaraldri og metnaðurinn sé góður en tillagan sjálf gæti skaðað evrópsk fyrirtæki alvarlega. Í aðgerðunum felist íþyngjandi ráðstafanir líkt og nýjar kröfur um skýrslugjöf þar sem fyrirtækjum er ætlað að birta viðkæmar upplýsingar um framleiðslugetu, birgðir og væntanlega framleiðslu, jafnvel í þriðja landi. Í greininni segir að ef framkvæmdastjórn ESB telji kreppu nógu alvarlega gæti hún krafist þess að fyrirtæki breyti pantanabókum sínum. 

Í greininni er varpað fram þeirri spurningu hver réttlætingin sé fyrir þessum víðtæku völdum og því svarað að samkvæmt framkvæmdastjórn ESB eigi með því að tryggja framboð á vörum og þjónustu sem hafi mikilvæga þýðingu. En að mati greinarhöfunda sé þessi nálgun röng og sagt frá því að meðan á Covid-19 heimsfaraldrinu hafi staðið hafi fyrirtækin verið bæði viljug og fær af fúsum vilja að forgangsraða framleiðslu á andlitsgrímum, handhreinsiefnum og öðrum nauðsynlegum vörum með skjótum hætti. Fyrirtækin hafi ekki þurft fyrirskipanir ofan frá. En hins vegar hafi fyrirtækin átt í erfiðleikum með að koma vörunum milli landamæra til þeirra landa þar sem þeirra var þörf vegna óhóflegra hindrana sem settar voru vegna Covid-19.

Í greininni segir að skilaboð norræns atvinnulífs séu skýr. Neyðartæki innri markaðarins ætti að beina athyglinni að því að tryggja frjálst flæði vöru, þjónustu og fólks - jafnvel á krepputímum. Í niðurlagi greinarinnar segir að með því að viðhalda frelsinu mundi það ekki einungis gagnast Evrópu á krísutímum. Það mundi einnig þýða að fyrirtæki gætu haldið áfram starfsemi og starfsfólk hefði vinnu. Það sé það sem Evrópa þurfi þegar næsta krísa skelli á. 

Financial Times, 28. nóvember 2022.

Vísir, 5. desember 2022.