Atvinnustefna sem tekur mið af íslenskum hagsmunum
Það ætti að vera íslenskum stjórnvöldum metnaðarmál að móta sína eigin atvinnustefnu til að efla samkeppnishæfni Íslands sem tekur mið af íslenskum hagsmunum en ekki eingöngu hagsmunum stærstu ríkja og fyrirtækja í Evrópu. Samtök iðnaðarins hafa lagt sitt af mörkum til þessarar umræðu og gáfu samtökin út ítarlega skýrslu um atvinnustefnu haustið 2018. Í stuttu máli gengur slík stefna út á að bæta almenn skilyrði til rekstrar enda hækka öll skip á flóði. Slík stefna stuðlar að eflingu mannauðs, aukinni nýsköpun, bættum starfsskilyrðum og aukinni fjárfestingu, meðal annars í innviðum. Slík stefna ætti að vera rauður þráður í annarri stefnumótun hins opinbera. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni Mótum framtíðina saman sem birt er í Kjarnanum.
Í greininni segir jafnframt að samkeppnishæfni sé nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun betri sem samkeppnishæfnin sé, þeim mun meiri verðmæti verði til og þar með verði meira til skiptanna fyrir okkur öll. Sigurður fer í grein sinni yfir lykilþætti sem hafa áhrif. Það þurfi frekari fjárfestingar til að byggja undir framtíðarvöxt. Næstu áratugi þurfi að reisa um tvö þúsund íbúðir á ári að meðaltali svo landsmenn hafi þak yfir höfuðið og stórátak þurfi við uppbyggingu innviða eins og landsmenn hafi verið minntir á undanfarin misseri. Efla þurfi mannauð, annars vegar þurfi fleiri menntaða í svokölluðum STEM fögum en það eru raunvísindi, tæknigreinar, verkfræði og stærðfræði og hins vegar þurfi mun fleiri starfs- og tæknimenntaða á Íslandi.
2020 er ár nýsköpunar
Þá kemur fram í greininni að árið 2020 verði ár nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins. Samtökin kynntu nýsköpunarstefnu sína í febrúar 2019 í aðdraganda þess að stjórnvöld mótuðu sína stefnu um nýsköpun. Sigurður segir í greininni að nýsköpun snúist um ný tækifæri, um þróun og um lausnir á samfélagslega mikilvægum verkefnum. Þannig geti nýsköpun átt sér stað í rótgrónum fyrirtækjum jafnt og í nýjum sprotum. Nýsköpun byggi að miklu leyti á hugviti en einnig þurfi handverk til að láta hugmyndir verða að veruleika. Hugvitið sé óþrjótandi uppspretta sem þurfi að virkja en það sé án landamæra og þess vegna reyni ríki heims að auka nýsköpun með stefnumörkun. Í því ljósi sé sérstaklega jákvætt að íslensk stjórnvöld hafi mótað metnaðarfulla stefnu sem fylgt verði eftir. Með ári nýsköpunar vilji Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að efla nýsköpun og ný tækifæri á Íslandi.
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.