Fréttasafn  • Stóriðja

24. sep. 2009

Stefnt að því að ljúka sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum næsta vor

Stefnt er að því að ljúka næsta vor sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Kröfluvirkjunar II, Þeistareykjavirkjunar og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Vonast er til að þá verði hægt að hefja rannsóknaboranir að nýju til að hægt verði að afla frekari upplýsinga um orkugetu jarðhitasvæðanna, en það er ein af meginforsendum þess að áform um virkjanir og byggingu álvers á Bakka gangi eftir.

Alcoa, Þeistareykir ehf., Landsvirkjun og Landsnet hf. hafa sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka, í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008. Alcoa hefur þegar lagt fram tillögu að matsáætlun vegna álvers á Bakka og einnig hefur Landsnet lagt fram tillögu að matsáætlun háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Skipulagsstofnun hefur þegar fallist á þær matsáætlanir. Nú leggja Þeistareykir ehf. einnig fram tillögu að matsáætlun vegna Þeistareykjavirkjunar og Landsvirkjun tillögu að matsáætlun vegna Kröfluvirkjunar II. Tillagan að sameiginlegu mati var unnin í samráði við Skipulagsstofnun, þar sem ekki er fjallað sérstaklega um það í lögum og reglugerðum hvernig sameiginlegu mati skuli háttað.

Fram kemur í matsáætlun fyrir sameiginlega umhverfismatið að í frummatsskýrslu verði gerð grein fyrir mati á sameiginlegum umhverfisáhrifum framkvæmdanna á jarðmyndanir, gróður, dýralíf, ásýnd, landslag og loft. Einnig verður fjallað um sameiginleg áhrif á samfélag, skipulag og landnotkun, verndarsvæði og fornleifar. Auk þess verður getið um helstu möguleg áhrif einstakra framkvæmda, en nánar verður fjallað um þau í frummatsskýrslum fyrir einstök verkefni. Stefnt er að því að leggja fram frummatsskýrslurnar til Skipulagsstofnunar í byrjun árs 2010 og að matsskýrslur verði lagðar fram vorið 2010.

Tillögur að matsáætlunum sem nú eru til umfjöllunar eru kynntar á heimasíðu Skipulagsstofnunar, heimasíðum viðkomandi fyrirtækja, auk heimasíðu Mannvits hf. Hægt er að koma skriflegum athugasemdum og ábendingum á framfæri við Skipulagsstofnun til 12. október næstkomandi.