Fréttasafn  • Umbætur í virðiskeðju matvæla

25. sep. 2009

Markvissar aðgerðir geta dregið verulega úr rýrnun matvæla

Í gær var haldinn opinn fundur til að kynna niðurstöður verkefnisins „Umbætur í virðiskeðju matvæla“ sem hefur staðið yfir undanfarin tvö ár. Fundinn sóttu á sjötta tug starfsmanna úr framleiðslu og dreifingu matvæla. Að verkefninu stóðu Samtök iðnaðarins, Norðlenska, Sláturfélag Suðurlands, Kaupás, AGR, Matís og Rannsóknarsetur verslunarinnar með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði. Markmið verkefnisins var að greina hvar í virðiskeðju matvæla rýrnun á sér stað og skilgreina aðgerðir til að lágmarka sóun sem af rýrnuninni hlýst. Jafnframt var skoðað hvaða aðferðum er beitt í nágrannalöndunum til að draga úr óþarfa sóun.

Árleg velta í kjötiðnaði á Íslandi er áætluð 20-25 milljarðar króna. Talið er að þar af tapist a.m.k. 5% eða 1000-1250 milljónir vegna rýrnunar sem verður áður en varan kemst í hendur neytenda. Því er til mikils að vinna. Hægt er að spara stórar fjárhæðir ef tekst að draga úr þessari rýrnun.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Með því að lækka geymsluhitastig kjötvara úr 4°C í 1°C má lengja geymsluþol um 30% og með því að geyma kjötið niður undir frostmarki þess, við -1,5°C, má lengja geymsluþolið um allt að 60%.

Hægt er að nota sjálfvirkar, rafrænar aðferðir til að fylgjast með birgðahaldi í verslun og hjá framleiðendum og til að spá fyrir um innkaup og framleiðslu. Með því að nota rafrænar aðferðir við innkaup má lækka meðalbirgðakostnað um 27% og jafnframt fækka birgðaþrotum um 7%.

Aðstandendur verkefnisins telja að niðurstöðurnar sýni, svo ekki verður um villst, að vönduð og öguð vinnubrögð í allri virðiskeðjunni og gott upplýsingaflæði milli birgja og smásala fela í sér geysimikla möguleika til hagræðingar, ekki síst á sviði vörustjórnunar.

Glæru fyrirlesara á fundinum:

Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar

Einar Karl Þórhallsson og Hlynur Stefánsson, verkfræðingar AGR

Þóra Valsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís